Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:30:17 (3804)


[17:30]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja út frá því sem hv. þm. Jón Helgason beindi þeim orðum til mín áðan, þá hafði hann ummæli eftir hæstv. utanrrh. sem voru rangt höfð eftir. Utanrrh. sagði að forræði landbúnaðarmála væri í höndum landbrh. Hann sagði jafnframt að landbrh. hefði forræði yfir verðjöfnunargjöldum. Það kom ljóst fram í hans máli en á hinn bóginn sagði hann af öðru tilefni að tollamál væru á forræði fjmrh.
    Hv. þm. beindi til mín fyrirspurn eftir að ég hafði ekki lengur rétt til að svara, ef ég man rétt, hv. 6. þm. Norðurl. e.
    Varðandi það sem hv. þm. Eggert Haukdal sagði áðan vil ég segja það fyrst að ræða hans fól það í sér að hann vill ekki standa við þá samninga sem Alþingi hefur samþykkt um hið Evrópska efnahagssvæði þannig að við verðum að líta svo á að önnur þau orð sem hann sagði hér hafi verið sögð í þeim anda að við ættum ekki að standa við gerða samninga sem er auðvitað hryggilegt að þingmenn hér skuli segja.
    Ég vil í annan stað taka fram ( EH: Það er ómakleg.) ( Gripið fram í: Þetta er ómaklegt.) Þetta er ekki ómaklegt. Hann sagði það um grænmetið. Í annan stað vil ég taka það fram út af ummælum hv. þm. að það er algerlega afdráttarlaust að landbrh. fer með forræði yfir þeim tollflokkum sem eru í því frv. sem ég hef lagt fram. Það gefur landbrh. meira forræði yfir málefnum bænda og landbúnaðarins en landbrh. hefur haft nokkru sinni svo ég muni eftir um þessi efni þannig að það er auðvitað ábyrgðarhluti fyrir þann mann sem vill berjast fyrir bændur, berjast fyrir því að þeir hafi öruggt rekstrarumhverfi að reyna að spilla fyrir því að slíkur árangur nái fram að ganga.