Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:46:33 (3809)


[17:46]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þeir framsóknarmenn halda sig við sama heygarðshornið. Ég hlýt að láta í ljós undrun mína yfir ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v., Páls Péturssonar.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er algjörlega afdráttarlaust, algjörlega afdráttarlaust, og hefur ekki áður verið kveðið jafnskýrt á um það hver séu tök landbrh. yfir innfluttum landbúnaðarvörum. Hér stendur:
    ,,Innflutningur á þeim vörum, sem tilgreindar eru í viðauka með lögum þessum og flokkast í þar til greind tollskrárnúmer, er óheimill nema að fengnu leyfi landbrh.`` Þetta er alveg skýrt, skorinort og afdráttarlaust. Þeir tollflokkar sem hér er talað um eru þeir tollflokkar sem umræðan hefur snúist um undanfarin ár. Við erum að tala um kjöt, hrátt og soðið eins og ég var að reyna að útskýra fyrir hv. þm. Eggert Haukdal. Við erum að tala um mjólk og mjólkurvörur. Það er alveg ljóst að svo afdráttarlaus heimild hefur ekki áður verið veitt landbrh. Það er líka alveg ljóst að landbrh. hefur ekki áður haft jafnskýlausa heimild til álagningar verðjöfnunargjalds og nú er og það er vitaskuld rangt enda kom það glögglega fram hjá þeim lögfræðingum sem komu til landbn. að það sé ekki á valdi landbrh. að ákveða jöfnunargjöld. Hins vegar kveða lögin á um að það skuli vera samráð við tvo ráðherra aðra, viðskrh. og fjmrh. Í því frv. sem framsóknarmenn sjálfir hafa lagt fram og nú liggur fyrir þinginu er talað um að landbrh. eigi að hafa samráð við fjmrh. en þó eigi það að vera fjmrh. sem hafi úrslitaorðið í sambandi við verðjöfnunargjöldin. Þetta sýnir nú hvernig málatilbúnaðurinn er. Þetta sýnir hreinskilnina og hreinlyndið í málflutningi framsóknarmanna.