Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 17:52:58 (3812)


[17:52]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. landbrh. að það kom fyrir að ég fyndi að einhverju sem fyrrv. landbrh. í þeim ríkisstjórnum sem ég hef stutt gerðu. Ég treysti mér t.d. ekki til að greiða búvörulögunum á sínum tíma atkvæði mitt árið 1985. Ekki að ég vissi það ekki að flokksbræður mínir unnu að þessu af góðum hug undir forustu þáv. landbrh. Jóns Helgasonar heldur þóttist ég sjá fyrir hryggilegar afleiðingar af þeirri lagasetningu.
    Ég var heldur ekki sammála öllu sem hæstv. fyrrv. landbrh. Steingrímur J. Sigfússon gerði. En það breytir því ekki að mér finnst þeir hafa komið brattari út úr sínum embættum heldur en horfur eru á að núv. hæstv. landbrh. geri.
    Hæstv. landbrh. bað mig að nefna dæmi um hvað gæti nú komið fyrir, hvað gæti nú skeð. Ég skal nefna dæmi. Það sem talið er upp í tollnúmeraskránni sem hér er prentuð með, á því hefur hann vald, á því hefur hann vald. Hann hefur hins vegar ekki vald á nýjum tollnúmerum sem inn kunna að verða sett um sama efni. Það er t.d. talað um smjörlíki, mig minnir að það sé með 9--15% dýrafitu. Við skyldum segja að einhverjum dytti í hug að flytja inn smjörlíki með 16% dýrafitu. ( Landbrh.: Þá er það inni í þessu.) Hvar er það inn í þessu? ( Landbrh.: Í mjólkurvörur.) Ja, við skulum segja að hann hugsaði sér að flytja inn með 8%. Hvað gerist þá? Það er engin trygging í þessu en ég er ekki að segja að þetta geti komið fyrir. Það sem máli skiptir er náttúrlega hvað skeður um næstu áramót. Og hæstv. landbrh. er búinn að búa ansi illa um sig með því að hafa einungis vald á 10 ákvörðunum af 46.