Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 18:05:28 (3814)


[18:05]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Jóhannesar Geirs er í anda þess sem áður hefur verið sagt af stjórnarandstöðunni og ég tel að Eggert Haukdal sé í þeim hópi. Í fyrsta lagi er hálfundarlegt að heyra hann hneykslast á því að hér skuli vera brugðið til lagasetningar einungis, eins og sagt er, um 11 mánaða skeið. Nú liggur það ekki fyrir á þessari stundu að vísu hvort GATT-samningar taka gildi frá næstu áramótum eða hvort búast megi við að þeir taki gildi á miðju næsta ári. Það liggur ekki fyrir á þessari stundu. En ég hélt að hv. þm. væri sammála mér um að það yrði að eyða þeirri óvissu sem er í landbúnaðarmálunum, hvort sem talað er um að GATT-samningar taki gildi eftir 11 mánuði eða á miðju næsta ári. Og að vera að gera lítið úr þýðingu þess er náttúrlega algerlega út í hött eða vera að reyna að gera því skóna að við Íslendingar höfum ráð á því að standa ekki við GATT-samninga er líka út í hött. Og ef hv. þm. er að boða það að hann ætli að fara í þá fylkingu sem ætlar að berjast gegn GATT-samningum þá er það líka umhugsunarefni.
    Um undirbúning þess að við göngum í GATT er það að segja að það liggur ekki enn fyrir hver tollígildin verða. Tollígildin hafa verið reiknuð út í landbrn. Við vitum ekki hver tollígildin verða sem viðurkennd verða að lokum.
    Í öðru lagi liggur það fyrir að forræði þessara mála, innflutnings- og útflutningsmála, er í landbrn. Það frv. sem hér liggur fyrir og ég hef lagt fram kveður glöggt á um að svo skuli það vera og hefur ekki frv. kveðið skýrar á um það endranær. Ég læt þess vegna í ljósi undrun yfir því að þingmenn Framsfl. skuli vera með þessi bellibrögð, vil ég segja, í málflutningi þar sem ég hafði frekar búist við því að þeir fögnuðu þessari niðurstöðu heldur en reyndu að gera hana tortryggilega.