Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 18:14:34 (3818)


[18:14]

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra er búinn að vera á allmiklum flótta síðari hluta umræðunnar a.m.k. Ég tel að hæstv. utanrrh. hafi á sinn hátt sagt þau orð sem mestu gilda í þessu efni og þegar hlutirnir eru lagðir saman og verða lagðir saman þá er það alveg ljóst að ráðherrar Alþfl. telja sig standa með pálmann í höndunum. Því miður er það svo. Það kemur fram í sperringslegum yfirlýsingum hæstv. viðskrh. í morgun í Morgunblaðinu sem í raun og veru segir að þetta sé eingöngu spursmál um 11 mánaða bið og þá hrynji forræði landbrh. með tilkomu GATT-samninganna. Það getur þá eingöngu verið deiluatriði hér eins og málum er komið hvernig stjórnskipulega forræði og meðferð jöfnunargjaldaþáttarins er háttað. Að öðru leyti virðist það því miður vera alveg óhrekjanleg niðurstaða þessarar umræðu, að öðru leyti hverfur allt sem hægt er að kalla almennt forræði landbrh. á þessum málaflokki.
    Það er líka ástæða til að spyrja að því hvort menn séu ekki nú þegar vegna örra breytinga sem orðið hafa á málunum í haust og hæstaréttardómsins nú á dögunum komnir í mótsagnakennda stöðu. Það er t.d. athyglisvert þegar maður les orðalag laganna frá í desember að þau virðast, og er svo sem ekkert skrýtið, ganga út frá því að landbrh. hafi sjálfstæða heimild til að takmarka innflutning enda eru lögin sett í því umhverfi að menn töldu að í búvörulögunum væri slík almenn heimild. Því veldur væntanlega orðanna hljóðan í 72. gr. eins og hún er nú, svo breytt, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara veitir landbrh. heimild til innflutnings . . .
``
    Svo er ekki hægt að taka til orða nema vegna þess að annars staðar fái landbrh. það almenna vald, heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum. En það almenna vald er ekki að finna í búvörulögunum samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar. Það er hinn stóri vendipunktur þessa máls. Hvort sem okkur líkar betur eða verr og allt það eða erum meira eða minna hissa á dómsorði meiri hluta Hæstaréttar þá er það sá réttur sem við búum núna við.
    Ég held að það hafi skýrst hér í dag fyrir þá sem hafa nennt að leggja sig eftir því að hlusta á þessa umræðu að tveir þættir standa út af sem verður að eyða allri óvissu um. Það fyrra er hið almenna forræði málaflokksins, eins og ég hef nú nokkrum sinnum sagt. Hið seinna er hvernig verður háttað samskiptum landbrh. og fjmrh. varðandi jöfnunarþáttinn og tollaþáttinn þegar GATT-samningurinn gengur í gildi.
    Það var mjög athyglisvert að hæstv. utanrrh. neitaði trekk í trekk að svara einfaldri og skýrri spurningu sem ég lagði hér fyrir hann í dag. Gagngert kom hann sér hjá því að svara spurningunni: Hvar liggur hið almenna forræði málaflokksins? En svaraði henni þó óbeint að segja má með því að segja: Það stendur skýrt í lögum. Aðspurður hvaða lögum nefndi hann lög um Stjórnarráð Íslands. Hvað segja þau lög? Þau segja að verkaskipting ráðherra í ríkisstjórn fari eftir reglugerð sem forsrh. setur. Það er reglugerð um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Hún hefur tekið litlum breytingum frá því að hún var gefin út í núverandi mynd sinni 1969 og þær breytingar eru aðallega tengdar tilkomu umhvrn. og því þegar útflutningsverslun var flutt til utanrrn. í tíð þáv. hæstv. utanrrh., Steingríms Hermannssonar. Þá þurfti að þyngja í honum pundið sem utanrrh. og undir hann var færð útflutningsverslun eins og kunnugt er. Þetta eru helstu breytingarnar sem orðið hafa á þessum tíma.
    Það er alveg ljóst að þegar kemur að 9. gr. þessarar reglugerðar, auglýsingarinnar um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins, stendur þar um landbrn. að það fari með landbúnaðarmál o.s.frv. Og í 11. lið stendur: ,,Mat, verðskráningu, sölu og dreifingu landbúnaðarafurða, svo og útflutningsbætur landbúnaðarafurða.`` Og það er sérstaklega tekið fram hvaða þættir á viðskiptasviðinu falli undir landbrn. En það stendur ekki innflutningur búvöru. Og þegar kemur svo að hinum ráðuneytunum, þá er ljóst að samkvæmt 14. gr. fer utanrrn. með lið 11, útflutningsverslun, punktur, bara í heild sinni. Og í 15. gr. er fjallað um viðskrn. og þar stendur: Verslun og viðskipti önnur en útflutningsverslun. Þannig liggur þetta. Þess vegna spurði ég hér í dag: Eru menn þá tilbúnir til, ef það er hið pólitíska samkomulag ríkisstjórnarinnar að þetta forræði skuli vera hjá landbrn., að breyta þessari auglýsingu, gera meira en að fella þennan úrskurð hæstv. forsrh. sem er í reynd þegar úreltur vegna þess að hann er gefinn fyrir dóm Hæstaréttar og síðan hafa orðið lagabreytingar og eru að verða enn frekari lagabreytingar? Að ganga þá frá málinu a.m.k. þannig að það verði fellt inn í reglugerðina um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Ég lít svo á að ef ekkert af þessu gerist, að það komi skýrt orðalag í búvörulögin, forsrh. felli þá nýjan úrskurð sem verði þannig úr garði gerður að hann verði líka á lögformlegu máli og hafi þann haus að forsrh. felli hér með eftirfarandi úrskurð o.s.frv. en ekki jafnóskýrt fram settan og hann er í þessu bréfi frá 8. sept. og reglugerð um Stjórnarráðið verður ekki breytt, þá er þessi óvissa þarna. Og þá mun hún líka gjósa upp af fullum þunga þegar kemur að samskiptum fjmrn. og landbrn. um þessi verðjöfnunar- og tollamál þó svo að út af fyrir sig sé orðalag 71. gr. um jöfnunartollana eða hlutverk landbrh. á því sviði það skársta sem er að finna í þessum textum eins og ég sagði í minni fyrri ræðu í dag. Það liggur út af fyrir sig þannig að þar er þó vald landbrh. afmarkað með skýrustum hætti og almennustum hætti, það viðurkenni ég. En því miður óttast ég að í ljósi þeirrar óvissu sem er um málið að öðru leyti þá sé það ekki fullnægjandi og alls ekki ljóst að það haldi á nokkurn hátt.

    Hæstv. landbrh. Um það hvernig þessi mál voru á fyrri tíð og hvort aðrir landbúnaðarráðherrar fyrr á öldinni hafi verið betur eða verr settir í þessum efnum má margt segja. Mergurinn málsins er sá að þá var ekki þessi innflutningur sem við erum nú að fara að takast á við og það má þá kannski segja að menn hafi út af fyrir sig komist upp með það eða getað búið við það ástand að frá þessu væri ekki gengið með alveg skýrum hætti í lögum. En menn byggðu þó á ákveðinni lagatúlkun og ákveðinni lagaframkvæmd alveg frá 1985 og í raun miklu lengra aftur eins og hv. þm. Jón Helgason hefur hér rakið. Og það er ekki fyrr en með dómi Hæstaréttar sem þeirri lagatúlkun er þá breytt. Þá standa menn einfaldlega frammi fyrir nýjum aðstæðum og samanburður aftur í tímann í ljósi þessara breyttu forsendna hefur lítið upp á sig. Og ég held að það skipti ekki þá öllu máli nema þá fyrir sagnfræðinga og einhverja löggilta viktunarmenn á frammistöðu stjórnmálamanna að vera að ræða um það mikið. Þessar eru aðstæður okkar í dag og við skulum taka á þeim.
    Þess vegna er það líka svo, hæstv. forseti, að ég tel að sú vörn hæstv. landbrh. sem fólst í því þegar þeir komu hér með sína gagnrýni, t.d. hv. þm. Eggert Haukdal og Páll Pétursson, að þar sem þeir hafi ekki sýnt fram á að það yrðu slys miðað við þessa útfærslu málsins, þá sé þeirra málflutningur allur ómarktækur --- það er auðvitað ekki svo, hæstv. landbrh., vegna þess að jafnvel þó svo að þessi skipan yrði í framkvæmd í grófum dráttum fullnægjandi miðað við fyrirsjáanlegar aðstæður og tilvik á næstu mánuðum, þá er ekki þar með sagt að menn séu að ganga frá málinu varanlega og til frambúðar með fullnægjandi hætti eða með stjórnskipulega nógu skýrum hætti. Það sem ég er að segja er það að þó að það kunni vel að vera að það komi ekki hér og banki upp á einhverjar vörur á næstu vikum eða mánuðum sem komist óheft inn í landið, þá er það engin sönnun þess að málið sé að öðru leyti fullnægjandi vegna þess að við ættum að vera búin að fá þá reynslu að aðstæður breytast og atvik koma upp og þess vegna þarf að vera alveg skýrt hvernig forræðið liggur þannig að menn séu til þess búnir að taka við slíkum aðstæðum. Og á það hefur verið bent bæði af lögfræðingum, mér og fleirum hér í umræðunni að jafnhlálegur hlutur og sá að með einfaldri breytingu á flokkun vara í tollskrárnúmer, geti forræðið færst milli ráðuneyta, það er ómögulegt, hæstv. landbrh. Það er bara sönnun þess að þessi frágangur dugar ekki. Við verðum að gera þarna betur og ég vona að það megi taka eitthvert mark á yfirlýsingum manna hér, bæði hæstv. landbrh. og að nokkru leyti hv. formanns landbn. þó hann gerist nú hógvær í seinni tíð, að menn ætli að vinna í þessum málum.