Framleiðsla og sala á búvörum

82. fundur
Fimmtudaginn 03. febrúar 1994, kl. 18:31:38 (3822)


[18:31]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hér, held ég, skýst nú skýrum. Ég skil hann akkúrat öfugt. Ég skil hann þannig að út frá lögunum um innflutning þar sem segir í 1. gr.:
    ,,Innflutningur á vöru og þjónustu til landsins skal vera óheftur`` sem sagt frjáls ,,nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum.`` Og síðan segir Hæstiréttur í sínum rökstuðningi, með leyfi forseta: ,,Af framansögðu leiðir að 41. gr. laga nr. 46/1985, sbr. nú 52. gr. laga nr. 99/1993, verður ekki skilin svo að í greininni felist sjálfstæð takmörkun á innflutningi landbúnaðarvara.`` Og síðar: ,,Stefndu hafa ekki bent á annað ákvæði í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum eða í öðrum lögum sem banni innflutning soðinnar skinku og hamborgarahryggs án leyfis.``
    Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sjálfstæða bann sé hvergi í lögum, ekki til. Og af því að innflutningslögin eru þannig, þá skal varan vera frjáls, þá er niðurstaða Hæstaréttar þessi. Og þessu verður hæstv. landbrh. að átta sig á. Það er í raun hin stóra niðurstaða Hæstaréttar. Það er hvergi í íslenska lagasafninu til sjálfstæð heimild til að takmarka innflutning á búvörum, sjálfstæð almenn heimild, þannig að það auðvitað gengur ekki að hæstv. landbrh. átti sig ekki á þessu grundvallaratriði málsins. Þeim mun mikilvægara er að ganga skýrt frá þessu í búvörulöggjöfinni eða þar annars staðar sem um þetta verður fjallað. Og hvort sem mönnum, eins og ég hef sagt áður, líkar betur eða verr þessi rökstuðningur Hæstaréttar þá dæmir hann á grundvelli hans og þar með verður hann talinn gilda og gildir í dag að óbreyttu. Þessi sjálfstæða bannheimild er ekki til í lögum og hana þarf að setja inn og afmarka um leið forræði málaflokksins.