Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 15:09:11 (3826)

    [15:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að spyrjast fyrir um afskipti tveggja ráðherra Sjálfstfl., hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh., af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarpsins.
    Það er grundvallarsiðaregla í lýðræðislegu samfélagi að stjórnvöld séu ekki að hafa afskipti af innri starfsemi fjölmiðla sem ætlað er að starfa óháð. Ég minni á að í lögum um Ríkisútvarp er skýrt tekið fram að Ríkisútvarpið sé sjálfstæð stofnun. Ríkisútvarpið er einn af hornsteinum lýðræðislegs samfélags á Íslandi. Ríkisútvarpið er menningarstofnun og það hefur tekist í gegnum árin að varðveita sess þess með þeim hætti að þjóðin öll, hvar í flokki sem menn standa, hefur getað borið traust til þessarar stofnunar.
    Nú hefur það gerst hvað eftir annað að ráðherrar Sjálfstfl. og forustusveit Sjálfstfl. hafa rofið þau grið sem um Ríkisútvarpið hafa verið og sett Ríkisútvarpið í pólitíska herkví. Sjálfstfl. valdi Ríkisútvarpinu útvarpsstjóra. Í kjölfar þess að sá útvarpsstjóri sagði upp Hrafni Gunnlaugssyni sem dagsskrárstjóra ákvað menntmrh. að ráða Hrafn Gunnlaugsson sem framkvæmdastjóra. Í allan vetur hefur Heimdallardeildin í Sjálfstfl. haft til meðferðar sérstaka umræðuþætti í sjónvarpinu sem þjóðin hefur horft á af vorkunnsemi og undrun. Þetta hefur haldið áfram svo lengi að síðast í gær var fyrrv. aðstoðarmaður menntmrh., sem nýlega hefur látið af störfum, að stjórna enn einum umræðuþættinum í sjónvarpinu. Þáttagerð sem Örnólfur Árnason rithöfundur átti að taka saman var skyndilega hafnað af einum borgarfulltrúa Sjálfstfl. en vitað er að hæstv. menntmrh. og framkvæmdastjóri sjónvarpsins, Hrafn Gunnlaugsson, og hæstv. forsrh. hafa lengi haft horn í síðu Örnólfs Árnasonar. Og nú síðast gerist það að hæstv. forsrh. kveður útvarpsstjóra sérstaklega á sinn fund formlega í forsrn. til þess að spyrjast fyrir um bréf frá einum af samstarfsmönnum útvarpsstjóra og hæstv. menntmrh. lýsir því yfir í viðtali við Morgunblaðið að það hefði fyrr átt að reka Arthúr Björgvin Bollason frá störfum við útvarpið og finnur honum ýmislegt annað til foráttu.
    Það er þess vegna alveg óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að taka þessi mál upp á Alþingi og spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh. ákveðinna spurninga.
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh. í fyrsta lagi: Hver lét hann fá það bréf sem Arthúr Björgvin Bollason hafði skrifað til Hauks Halldórssonar og hvenær fékk hæstv. forsrh. það bréf?
    Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. forsrh.: Hví beið hann ekki eftir heimkomu menntmrh. til þess að fjalla um það mál? Hvað var svo brýnt í þessu máli að kalla strax til útvarpsstjóra þótt menntmrh. væri væntanlegur til landsins innan tveggja sólarhringa? Það er þekkt að sú hefð hefur verið ríkjandi í Stjórnarráðinu að starfandi ráðherra hefur mjög sjaldan frumkvæði að því nema brýna nauðsyn beri til að taka mál í sínar hendur.
    Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvaða spurningar voru það sem hann bar fram við útvarpsstjóra?
    Í fjórða lagi vil ég spyrja forsrh.: Hvað annað var rætt á fundinum? Hæstv. forsrh. hefur nú þegar upplýst í útvarpsviðtali að um Hrafnsmálið hafi verið rætt á fundinum. Í viðtali við fjölmiðla staðfesti hæstv. forsrh. að það var ekki bara rætt um veðrið, eins og aðstoðarmaður forsrh. sagði í sjónvarpsviðtali á þessum fundi, heldur einnig um Hrafnsmálið. Þannig eru hæstv. forsrh. og aðstoðarmaður hans þegar komnir í mótsögn hvor við annan um það hvað fram fór á þessum fundi.
    En fyrst Hrafnsmálið bar á góma á þessum fundi samkvæmt frásögn hæstv. forsrh., þá vil ég einnig spyrja hæstv. forsrh. út í það bréf sem Davíð Oddsson forsrh. skrifaði útvarpsstjóra Heimi Steinssyni þegar Hrafn Gunnlaugsson var rekinn úr embætti dagskrárstjóra. Það er nefnilega komið í ljós að forsrh. Davíð Oddsson, sem hefur lýst því hvað eftir annað á opinberum vettvangi að hann hafi engin afskipti haft af brottkvaðningu Hrafns Gunnlaugssonar né heldur endurráðningu hans til sjónvarpsins, skrifaði útvarpsstjóra Heimi Steinssyni sérstakt bréf þegar Heimir Steinsson rak Hrafn Gunnlaugsson frá störfum dagskrárstjóra. Það hefur verið staðfest að þrír embættismenn útvarpsins hafa séð þetta bréf og nú í dag staðfesti Heimir Steinsson útvarpsstjóri í viðtali við mig að hann hafi fengið þetta bréf. Ég hef það þannig ekki bara frá öðrum starfsmönnum útvarpsins heldur frá útvarpsstjóra sjálfum að hann fékk bréf frá hæstv. forsrh. þegar Hrafn Gunnlagusson hafði verið rekinn frá embætti. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hví skrifaði forsrh. þetta bréf til útvarpsstjóra þegar Hrafn Gunnlaugsson hafði verið rekinn?
    Í öðru lagi: Hvers vegna hefur forsrh. ekki birt þetta bréf?
    Í þriðja lagi: Á hvers konar bréfhaus var þetta bréf ritað? Var þetta ritað á bréfhaus forsrh. Davíðs Oddssonar eða engan bréfhaus eða bréfhaus forsrn.?
    Í fjórða lagi: Hvað stóð í þessu bréfi? Ég hef heyrt að í bréfinu séu setningar á þá leið: Hvers vegna er verið að ráðast á minn æskuvin og það af manni sem hefur fengið þetta embætti frá okkur í Sjálfstfl.? Ég ætla ekki að fullyrða hér hvort það eru rétt orð. En það knýr auðvitað á um það að hæstv. forsrh. birti það bréf sem hann skrifaði útvarpsstjóra Heimi Steinssyni í tilefni af því að Heimir hafði rekið æskuvin hans, Hrafn Gunnlaugsson. Þess vegna fer ég formlega fram á það hér á Alþingi að Davíð Oddsson forsrh. birti þegar í dag þetta bréf sem hann skrifaði Heimi Steinssyni vegna uppsagnar Hrafns Gunnlaugssonar svo að þjóðin öll geti séð hvers eðlis þetta bréf var og hvað í því stóð.
    Satt að segja er maður svo forundrandi á því að nú skuli það koma í ljós að hæstv. forsrh. hefur einmitt haft afskipti af þessu tagi, af Hrafnsmálinu frá upphafi, að hann sendir útvarpsstjóra sérstakt bréf af því tilefni, en hefur hvorki greint þingi né þjóð frá því máli. Ég vona að hann geri það nú þegar í dag.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. menntmrh. hvað honum finnist um það að forsrh. lét hann ekki vita neitt um þennan gerning forsrh. í síðustu viku og menntmrh. vissi ekki af honum fyrr en fréttamenn sögðu honum frá því.
    Ég vil enn fremur spyrja hæstv. menntmrh.: Hvað á hann við þegar hann segir í viðtali við Morgunblaðið að honum finnist eðlilegt að leysa Arthúr Björgvin Bollason frá störfum? Það hefur komið fram að forsrh. telur að það hefði ekki átt að segja honum upp en menntmrh. Sjálfstfl., yfirmaður útvarpsins samkvæmt stjórnskipun, lýsir því yfir í Morgunblaðinu að það hafi verið rétt að segja Arthúri Björgvin upp. Enn fremur segir hæstv. menntmrh. að hann hafi áður séð ,,ýmis skrif``, svo að ég vitni orðrétt í viðtalið, ,,frá aðstoðarmanninum`` og telur það tilefni til þess að grípa til aðgerða gagnvart honum. Hann segir orðrétt:
    ,,Mér hefði þótt tímabært að stoppa hann af fyrr.``
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. menntmrh., hvað á hann við með þessum orðum? Hvaða skrif eru það sem hann er hér að vitna til? Er hann að segja það með skýrum hætti að honum hafi þótt tilefni til þess að reka Arthúr Björgvin Bollason úr starfi fyrr?
    Virðulegi forseti. Það er mjög margt í þessu máli sem ekki gefst tími til að ræða hér. Það er auðvitað sérstakt hneyksli og ber að harma að þessi sérstaki framkvæmdastjóri sem Sjálfstfl. setti yfir sjónvarpið er nú farinn að beita valdi sínu til þess að níðast á einni af sjónvarpsþulunum, ágætri konu sem þjóðin þekkir vel fyrir það eitt að hún er sambýliskona Arthúrs Björgvins Bollasonar. En 27. jan. gaf framkvæmdastjóri Hrafn Gunnlaugsson þá fyrirskipun til dagskrárritstjóra sjónvarpsins að taka ætti vaktir af Svölu Arnardóttur. Hún fengi eingöngu tvær vaktir í febrúarmánuði í stað fimm sem aðrar þulur hefðu, en það hefur ekki tíðkast til þessa að framkvæmdastjóri væri að gefa sérstakar skipanir um það hvað sjónvarpsþulurnar hefðu margar vaktir. Það vita auðvitað allir í sjónvarpinu að þarna var Hrafn Gunnlaugsson að beita því í einhverju valdatafli innan sjónvarpsins að þessi ágæta kona er sambýliskona Arthúrs Björgvins Bollasonar.
    Þegar málum er svo komið í skjóli þess valds sem Sjálfstfl. hefur yfir að ráða að setja þennan mann inn í sjónvarpið vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvort honum þyki ekki tími til kominn að grípa í taumana þar sem hann hefur lýst því yfir að hann beri ábyrgð á þessum manni. Það er alveg ljóst. Menntmrh. hefur ávallt haldið því fram í þessu máli að hann beri sérstaka ábyrgð á Hrafni Gunnlaugssyni, að stoppa hann af nú þegar þegar ljóst er á hvaða brautir hann er kominn.

    Virðulegi forseti. Ég óska eftir skýrum svörum frá hæstv. ráðherrum við þessum spurningum.