Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 15:38:08 (3829)


[15:38]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. sagði réttilega áðan að hér eru til umræðu afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins og mun ég að sjálfsögðu halda mig við það. Það verður vitanlega alls ekki um það deilt að hæstv. forsrh. hefur haft afskipti af málefnum Arthúrs Björgvins Bollasonar. Ég ætla alls ekki að vefengja það sem hæstv. forsrh. hefur sagt og trúi honum að hann hafi ekki fyrirskipað brottrekstur mannsins. En hitt er svo annað mál að þegar starfsmaður ríkisstofnunar er kallaður á hvalbeinið hjá forsrh. þá held ég að það sé einkennilegur ríkisstarfsmaður sem beðin er um skýrslu ef hann skilur ekki að ætlast er til að hann hreinsi til hjá sér. A.m.k. hefði ég vonast til þess sem forsrh. að einhver þungi fylgdi þegar maðurinn er kallaður á hvalbeinið. Þetta er hins vegar aðeins, má segja, síðasta atvikið í sorglegri atvikaröð sem hefur orðið hjá Ríkisútvarpinu og ég vil með örfáum orðum leggja áherslu á að þessi þróun verði hreinsuð í rótunum og menn hætti að deila um það sem er að gerast í dag og lagi til í raun þannig að útvarpsstjóri geti sinnt því verkefni sem honum var falið, að stjórna Ríkisútvarpinu.
    Ræturnar eru vitanlega í öðrum afskiptum hæstv. ráðherra af starfsemi Ríkisútvarpsins þegar hæstv. menntmrh. setti þar inn mann framkvæmdastjóra sjónvarpsins sem vitað var að hann og æðsti yfirmaður Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóri, getur ekki starfað með. Þar er rótin. Og mér þótti satt að segja afar vænt um að heyra það hjá hæstv. forsrh. að hann gagnrýnir þá þætti sem þessi maður hefur látið gera um íslenskan landbúnað og fleira mætti til telja. Er þá ekki orðin nóg ástæða til þess að hæstv. menntmrh. afturkalli það sem hann gerði með skipun þessa manns í óþökk útvarpsstjóra og veiti þannig útvarpsstjóra frið til að stjórna þeirri stofnun sem hann setti hann yfir?

    Mér þótti satt að segja það sem var upplýst hér áðan um bréf sem hæstv. forsrh. ritaði útvarpsstjóra þegar hann hafði sagt nefndum Hrafni Gunnlaugssyni upp störfum afar athyglisvert. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. forsrh. á því að á meðan hann gegnir þessari háu stöðu þá fær hann nánast aldrei aðskilið sjálfan sig frá starfinu. Það er nánast sama hvað hæstv. forsrh. gerir, það er hluti af starfinu. Hann er í huga þjóðarinnar forsrh. og sú ímynd sem þjóðin lítur til í því sambandi svo það skiptir sáralitlu máli á hvaða bréfhaus svona var skrifað. Og í mínum huga a.m.k. styrkir þetta það sem fullyrt var þegar Hrafn Gunnlaugsson var skipaður að það hafi hæstv. menntmrh. gert samkvæmt fyrirmælum frá forsrh. Þetta er því allt orðið hið leiðasta mál og afar nauðsynlegt að hreinsað sé til og það án tafar.
    Mér þótti heldur leitt að hlusta á það í umræðum um þetta mál í fjölmiðlum að sök er mjög komið yfir á útvarpsstjóra. Ég vildi ekki vera í sporum útvarpsstjóra og starfa undir þeim þrýstingi sem þarna hefur augljóslega verið. Sökin er vitanlega afskipti ráðherranna af stofnun sem á að vera sjálfstæð, svo ég endurtek: Takið ykkur nú til, hreinsið þarna til og leyfið Ríkisútvarpinu að verða sú sjálfstæða stofnun sem það á að vera.