Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:04:56 (3835)


[16:04]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur að mörgu leyti komið víða við í dag en mér finnst kjarni málsins ekki síst vera sá hvernig því er tekið þegar opinber starfsmaður segir meiningu sína sé hún ekki þóknanleg stjórnvöldum. Í þessu tilviki er annars vegar um það að ræða hvort þessum tiltekna starfsmanni var sagt upp fyrir að hafa skoðanir sem ekki falla í kramið hjá ráðamönnum og hins vegar hvernig hann hefur sett þær fram, þ.e. á hvaða bréfhaus. Og hvort skyldi nú vera mikilvægara og merkilegra?
    Mér finnst því miður að það megi ráða það af viðbrögðum stjórnvalda að þessum tiltekna starfsmanni sé ekki heimilt að hafa þær skoðanir sem hann hefur, hann megi ekki gagnrýna vinnubrögð innan stofnunarinnar sem hann vinnur hjá nema ríkjandi stjórnvöld séu sammála þeirri gagnrýni. Ástæða sé til þess að víkja honum úr starfi fyrir skoðanir sínar án nokkurrar viðvörunar. Hins vegar er það fullsannað að hjá sömu stofnun er mönnum fullkomlega heimilt að hafa skoðanir og gagnrýna opinberlega vinnubrögð innan stofnunarinnar sé sú gagnrýni í takt við skoðanir stjórnvalda og þá gildir einu hvort menn fá viðvarnir vegna ummæla sinna eður ei. Ef athugasemdir leiða til uppsagnar endurráða ríkjandi stjórnvöld, þ.e. ráðherra, manninn í hærri stöðu svo framarlega sem hann hefur réttar skoðanir. Það er ekki að furða að það hafi sett að ýmsum beyg við þau tíðindi sem nú hafa orðið.
    Sé hins vegar litið á það hvernig skoðanirnar eru settar fram þá má áreiðanlega alltaf gagnrýna það. En hér er fyrst og fremst um að ræða notkun á bréfsefni og ekkert annað. Og hvers vegna er þá einn maður rekinn fyrirvaralaust en öðrum sparkað upp á við þar sem um gagnrýniverða framsetningu er sjálfsagt að ræða í báðum tilvikum? Ég spyr: Hvað hefur breyst svona mikið síðan Hrafn Gunnlaugsson var eftirminnilega varinn af ráðherrum fyrir sínar skoðanir þar til nú þegar Arthúr Björgvin Bollason má ekki hafa sínar skoðanir? Og ég vil taka það fram að persónulega finnst mér gagnrýni Arthúrs Björgvins Bollasonar bæði þörf og kærkomin en aðdragandinn að uppsögn Hrafns Gunnlaugssonar var ekki eins skemmtilegur að mínu mati.
    Um þátt hæstv. ráðherra hefur þegar komið það fram sem máli skiptir og þar af leiðandi vil ég fyrst og fremst einskorða mig hér við þá siðferðilegu spurningu: Mega menn einungis segja meiningu sína sé hún þóknanleg stjórnvöldum? Þrátt fyrir ummæli hæstv. forsrh. um að auðvitað eigi ekki að reka menn fyrir skoðanir sínar, öðruvísi gat ég ekki skilið hann hér í upphafsræðu sinni, þá finnst mér það meira en sérkennileg tilviljun að menn eru reknir fyrirvaralaust séu þeir með skoðanir í trássi við hentugleika tiltekinna ráðherra og það jafnvel með ansi napurlegum ummælum í fjölmiðlum, ávirðingum og hálfkveðnum vísum sem ég hef ekki heyrt neinn rökstuðning fyrir, að kannski hafi nú sökin verið mikil og kannski hafi nú viðvaranir verið margar og kannski sé maðurinn miklum mun bersyndugri en fram hafi komið. Ég held að hann hafi ekki gert annað af sér en hafa sínar skoðanir og segja þær.