Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:19:32 (3837)


[16:19]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. að orð hans til mín um að ég ætti að segja af mér væru þung orð. Þau eru það ekki því ég tek ekki þennan hv. þm. alvarlega. Ég sé ekki að það sé hægt yfirleitt að taka þennan hv. þm. alvarlega, ég geri það ekki, get ekki. Hann er ekki þeirrar gerðar að ég geti það. Og ég er ekki hér í hans skjóli og ég mundi aldrei vilja sitja sem forsrh. í hans skjóli, aldrei. Slíkan mann tekur maður ekki alvarlega.
    Þessi hv. þm. hefur verið uppi með slíkan málatilbúnað að er til skammar fyrir þingmanninn. Hv. þm. er að monta sig af því að hann hafi hringt í útvarpsstjóra og spurt hann með tilteknum, lævíslegum hætti til að láta hann játa að til væri bréf sem hann var áður búinn að fá þrjá menn að mér skilst til að segja sér hvers konar bréf væri og hann vissi að það væri í skjalasafni útvarpsins. Hvers konar leikaragangur er þetta í formanni flokks og fyrrv. fjmrh.? Þessi maður gengur fram hér með þessum hætti og hver getur tekið svona þingmann alvarlega? Og hvað ætlar hann að reyna að sanna með þessari bréfasögu sinni? Hann reyndi með lævíslegu orðalagi að segja: Forsrh. sagðist ekki hafa haft nein afskipti af málefnum Hrafns Gunnlaugssonar, væntanlega bara frá upphafi. ( ÓRG: Nei, það var ekki sagt.) Ég hef svo sannarlega haft afskipti af málefnum þess pilts frá því að við vorum 13 ára gamlir. En hvað sagði ég hins vegar? Ég sagðist ekki hafa haft neitt með ráðningu hans að gera. Ætlar þessi maður sem þykist hafa fengið upplýsingar úr þessu bréfi að reyna að halda því að þingheimi og þjóðinni að þetta bréf hafi eitthvað með ráðningu Hrafns Gunnlaugssonar að sjónvarpinu að gera? Ó nei, og þar með hrynur þetta allt eins og spilaborg, þessi dæmalausa endileysa sem þingmaðurinn spann hér upp og varð sjálfum sér til skammar.
    Umræðan í þingsalnum er hins vegar næsta athyglisverð því að í einu orðinu eru menn að halda uppi sjálfstæði útvarpsins og biðja um að menn séu ekki að draga úr því sem neinu nemi og sérstaklega ekki vera að styggja útvarpsstjóra í vinnu sinni. Það m.a. sagði hæstv. fyrrv. forsrh. Það ætti fyrst og fremst að gefa honum starfsfrið. En menn eru einmitt að gagnrýna þennan sama útvarpsstjóra fyrir að hafa vikið starfsmanni sínum á brott. Útvarpsstjóri rökstyður það í Tímanum eins og hann segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Það sem ég geri athugasemdir við í þeim efnum er þegar menn í nafni starfs síns og jafnvel stofnunarinnar fara offari í orðum og fullyrðingum. Það er munur á því að skiptast á skoðunum og hafa á lofti önnur eins stóryrði og raun ber vitni í þessu bréfi.``
    Þetta er útvarpsstjórinn. Hann vill ekki hafa svona menn við hliðina á sér. En sömu menn sem biðja um starfsfrið fyrir útvarpsstjórann verja síðan þetta bréf í bak og fyrir og sumir meira að segja leggjast svo lágt að gera þetta bréf og orðaval þess sem útvarpsstjórinn lýsir svo að sínu eigin tungutaki og þykjast bara stoltir af, ( GÁ: Hver réði Hrafn í . . .  ?) þykjast stoltir af sínu eigin tungutaki.
    En ég vil líka minnast á það sem kom fram hér hjá hv. tveimur þm., annað kom fram hjá hæstv. fyrrv. forsrh. sem mér fannst afskaplega merkilegt. Hann sagði og menn ættu að lesa það í þingtíðindunum, efnislega sagði hann að þegar forstöðumenn væru kallaðir til forsrh. ættu þeir að skilja það, það væri að gefa þeim bendingu um það að gera hreint, hann sagði þetta hér, hæstv. fyrrv. forsrh. Ég býst við því að hann hafi kallað til sín forstöðumenn stofnana í sinni tíð 6 eða 7 ár sem forsrh. og væntanlega þá gefið þeim óbeint með táknmáli skipun um það að gera hreint hjá sér, reka menn. Ekki segja það, nei, nei, nei, en kalla þá á teppið og benda þeim á að það eigi að gera hreint. Ég hugsa ekki svona. En hæstv. fyrrv. forsrh. hefur ekki bara hugsað svona, hann segir það líka og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði sama hugarfarið. Menn áttu líka að skynja og skilja þegar forstöðumenn stórra fyrirtækja væru kallaðir á fund æðstu yfirmanna, þá áttu menn að skilja að í því fælust einhver skilaboð sem ekki voru sögð og ekki skrifuð. Ég hef ekki þá skoðun. En það var fróðlegt að heyra það að þessi hv. þm. hefur þessa sérkennilegu skoðun á stjórnun og hæstv. fyrrv. forsrh. hefur þessa skoðun. Það stendur sem ég sagði hér í upphafi og annað stendur ekki eftir en að afskipti mín af þessu máli sem starfandi menntmrh. voru eins og útvarpsstjóri bendir á fullkomlega eðlileg og sjálfsagt að fá skýringar á því hvort þetta bréf væri skrifað í embættisnafni og biðja um svör við fáeinum spurningum. Og þau svör átti ekki að gefa fyrr en eftir örfáa daga. Ég hafði ekkert með brottrekstur þessa manns að gera. En eftir stendur og því geta menn ekki komist hjá að þetta fólk sem hér situr og baðar sig í siðferðisvottorðum sjálfs sín sem enginn annar tekur mark á, þetta fólk gerði ekkert með það þegar fastráðinn starfsmaður var rekinn fyrir miklu vægari ummæli og við allt aðrar aðstæður heldur en í hinu síðara tilfelli, en hins vegar, en á hinn bóginn er uppþot yfir því sem nú gerist hjá þeim útvarpsstjóra sem menn hafa sagt að eigi að fá að starfa í friði, þeim útvarpsstjóra sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði að ráðning hans væri það besta sem núv. ríkisstjórn hefði gert, það besta. Það er sjálfsagt til í sjónvarpsþætti þar sem við sátum báðir. En í gær á Stöð 2 heimtaði hann hins vegar að slíkan mann ætti að reka.