Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:25:37 (3838)


[16:25]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það hefur komið fram hér í máli nokkurra ræðumanna, m.a. hv. þm. Steingríms Hermannssonar, Páls Péturssonar, Kristínar Ástgeirsdóttur og kannski fleiri að það skipti sáralitlu máli á hvaða bréfhaus og hvaða titlatog sé notað sem sé bara hégómi, það skipti sáralitlu máli. Mér finnst illa komið ef menn nota bréfsefni opinberra stofnana og þá titla sem þeir bera í sínu starfi en meina ekkert með því, það finnst mér vera mjög alvarlegt mál og skipti einmitt máli í stjórnsýslunni hjá okkur hvort svona er gert.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði það algerlega óþolandi vinnubrögð að vera að kalla útvarpsstjóra inn á fund hjá forsrh. Ég rakti það í minni ræðu áðan hvers vegna þetta hefði verið gert. Það var nauðsynlegt til þess að kanna það hvort ráðgjafi útvarpsstjóra talaði í nafni hans þegar hann sagði að allar grundvallarreglur lýðræðis og faglegra vinnubragða hefðu verið hunsaðar í þeirri stofnun sem hann stýrir. Og útvarpsstjóri hefur staðfest að þetta var ekki gert í hans umboði. Menn geta haft sínar skoðanir og látið þær í ljós hvar og hvenær sem er. En ráðgjafi útvarpsstjóra í þessu tilviki getur ekki gert það öðruvísi en eiga á hættu að hann missi starfið ef hann talar algerlega í aðra átt en útvarpsstjóri getur sætt sig við.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók það fram að Ríkisútvarpið lúti ekki boðvaldi ráðherra. Það er alveg rétt. Ríkisútvarpið gerir það ekki. En ráðherra setur hins vegar menn til ákveðinna verka í Ríkisútvarpinu. Hann ræður æðstu menn stofnunarinnar og hann getur ekkert framselt það vald sitt en hann segir þeim ekki fyrir verkum. Ég skil ekki til hvers er verið að spinna svona ræður út frá alröngum forsendum.
    Hv. þm. Páll Pétursson var með sitt venjulega orðaval og ég skil afskaplega vel að hv. þm. Páll Pétursson sé ánægður með orðavalið í bréfi ráðgjafans vegna þess að það er þannig að hv. þm. Páll Pétursson hefði vel getað samið þetta sjálfur. Það er ekki stór munur þar á.
    Hv. þm. og málshefjandi Ólafur Ragnar Grímsson gerði hér kröfu um að hæstv. forsrh. birti bréf, einkabréf sem hann hefði sent útvarpsstjóra á sínum tíma og ef hann ekki gerði það, þá yrði hann að segja af sér. Það er svo sem alþekkt aðferð sem við þekkjum vel hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að láta liggja að einu og öðru, segja að þetta og hitt sé efni í einkabréfi og ef bréfið sé ekki birt þá sé þar komin sönnunin að allar dylgjurnar séu sannar. Þessa aðferð þekkjum við svo sem mætavel. En þetta er svo ómerkilegur málflutningur að engu tali tekur. En það er svo sjálfsagt til of mikils mælst að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson biðjist afsökunar á slíkum málflutningi.