Sameiginleg forsjá

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:30:42 (3839)


[16:30]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir fyrirspurn um sameiginlega forsjá sem er að finna á þskj. 318. Þessi fyrirspurn tengist fyrirspurn er ég flutti fyrir réttri viku um ráðgjöf, sambúðarslit, hjónaskilnaði og forsjá barna. Þeirri ráðgjöf er í stuttu máli mjög ábótavant.
    Ég vitnaði þá til dansks sálfræðings, dr. Morten Nissens, af reynslu Dana af svipuðu fyrirkomulagi og er hér á landi. Danir byggja nú á 7 ára reynslu og rétt eins og reynsla þeirra kom til umræðu við setningu þessara laga, þá held ég að það sé skynsamlegt að skoða hvað nú er sagt þar í landi því stuttur tími er liðinn hér á landi síðan þessi háttur var tekinn upp og við höfum því ekki á eins langri reynslu að byggja. Morten Nissen var á sínum tíma bjargfastur stuðningsmaður reglnanna um sameiginlega forsjá í Danmörku. En hann hefur sett fram gagnrýni nú í mjög merkilegri skýrslu og hans helsta gagnrýni á það hvernig sameiginleg forsjá hefur verið framkvæmd í Danmörku er sú að of margir foreldrar hafa valið sameiginlega forsjá og á of hæpnum forsendum. Þetta sé sem sagt ekki nein allsherjarlausn heldur eigi við í einstökum tilvikum en alls ekki alltaf. Ég tek það fram að í Danmörku eiga foreldrar kost á ráðgjöf félagsfræðinga og sálfræðinga miklu betri en hér á Íslandi og þar af leiðandi eru möguleikar þeirra til þess að taka skynsamlega ákvörðun a.m.k. að því leyti til betri að það er hægt að byggja og fá fróðleik um reynslu annarra miklu betur heldur en hér. Og því beini ég eftirfarandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:
  ,,1. Hve margir samningar voru gerðir um sameiginlega forsjá beggja foreldra við sambúðarslit eða skilnað á tímabilinu 1. júlí 1192 til 1. okt. 1993?
    2. Hve oft fékk móðir forsjá á þessu tímabili:
    a. samkvæmt samningi,
    b. samkvæmt úrskurði dómsmrn.,
    c. samkvæmt dómi?
    3. Hve oft fékk faðir forsjá á þessu tímabili:
    a. samkvæmt samningi,
    b. samkvæmt úrskurði dómsmrn.,
    c. samkvæmt dómi?``