Ættleiðing barna

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:41:45 (3843)


[16:41]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Hér á landi gilda lög nr. 15/1978 um ættleiðingar. Þau lög taka einkum mið af því þegar um er að ræða ættleiðingu innlendra barna af fólki búsettu hér á landi. Hvorki er í þeim né öðrum skráðum réttarreglum að finna ákvæði sem beinlínis banna íslenskum stjórnvöldum að veita íslenskum ríkisborgurum með lögheimili erlendis leyfi til að ættleiða börn. Það hefur hins vegar lengi verið óskráð meginregla í íslenskum lagaskilarétti að persónuleg réttarstaða manna ráðist af lögum í því landi þar sem þeir eiga heimilisfesti. Nokkur blæbrigðamunur er á túlkun hugtaksins heimilisfesti frá einu landi til annars. Almennt er það þó notað sem samheiti yfir þau margvíslegu orð sem tákna búsetustað manna og hefur verið skilgreint um það land eða löggjafarsvæði þar sem maður á sér fastan og varanlegan dvalarstað eða heimili. Samkvæmt framangreindri meginreglu er litið svo á að íslensk yfirvöld eigi ekki lögsögu í máli ef þeir sem sækja um leyfi til ættleiðingar eru ekki heimilisfastir hér á landi heldur beri þeim að snúa sér til ættleiðingaryfirvalda í því landi þar sem þeir eiga heimilisfesti. Það fer síðan eftir lagaskilareglum í því ríki hvers landslög eru þar lögð til grundvallar. En geta má þess að í rétti margra annarra ríkja fer andstætt því sem gildir hér á landi um persónulega réttarstöðu manna eftir lögum í því landi þar sem þeir eiga ríkisfang. Í Norðurlandasamningi um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sbr. lög nr. 29/1931, með síðari breytingum, sem Ísland er aðili að er byggt á framangreindri heimilisfestisreglu. Segir í 11. gr. að vilji ríkisborgari einhvers samningsríkjanna sem heimilisfesti á í einhverju þeirra ættleiða mann sem ríkisfesti á í einhverju ríkjanna skuli hann sækja um leyfi til þess í því ríki sem hann á heimilisfesti í. Þá segir í 12. gr. að við úrskurð slíkrar umsóknar skuli beitt þeim lögum sem þar gilda. Í dómi Hæstaréttar nr. 25/1983 reyndi á framangreind ákvæði Norðurlandasamningsins og túlkun hugtaksins heimilisfesti þegar Hæstiréttur ógilti ættleiðingarleyfi sem dómsmrn. hafði gefið út til handa íslenskum manni með lögheimili í Svíþjóð. Í dómnum segir, m.a. að skýra verði 11. gr. Norðurlandasamningsins svo að eftir íslenskum rétti megi

handhafar íslensks framkvæmdarvalds ekki veita ættleiðingarleyfi sem íslenskur ríkisborgari sækir um ef hann eigi heimilisfesti í öðru ríki á Norðurlöndum.
    Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt fer um meðferð ættleiðingarmála samkvæmt íslenskum lögum og íslensk stjórnvöld taka umsókn um ættleiðingu því aðeins til meðferðar að umsækjendur teljist vera heimilisfastir hér á landi. Þó skal tekið fram að í dómsmrn. hefur verið litið svo á að frá þessu geti verið ákveðin frávik, t.d. ef umsækjandi er íslenskur ríkisborgari og heimilisfestisland hans fylgir ríkisfangsreglunni. Þá yrði mögulega talið heimilt að taka umsókn um ættleiðingu til meðferðar hér á landi.