Réttindi Íslendinga í Bandaríkjunum

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:54:32 (3848)


[16:54]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu er það meiningin að ganga eftir þessu og ég treysti þá því að ríkisstjórnin hafi stuðning hv. þm. við að koma fram nauðsynlegum breytingum á innlendri löggjöf vegna þess að forsenda þess arna er gagnkvæmni. En rétt til að árétta að þetta er ekki svo auðsótt þá vil ég gefa svona nokkuð til kynna hvaða skilyrðum menn verða að fullnægja til að ná þessu ,,e-visa`` að óbreyttum reglum.
    Þar segir í fyrsta lagi að fjárfesting viðkomandi aðila í Bandaríkjunum verði að vera ,,substantial`` þ.e. veruleg sem þýðir mjög veruleg ef við berum það saman við íslenskan mælikvarða.
    Í annan stað er það skilyrði að menn þurfi að vera í forsvari fyrir fyrirtæki sem þegar er virkt eða í starfi, ,,operative``.
    Í þriðja lagi er það tekið fram að fjárfestingin megi ekki vera ,,marginal`` eins og þeir kalla það, þ.e. ekki óveruleg eða jaðarfyrirbæri og að hún verði að skapa tekjumyndun sem geri meira en að vera til uppifærslu viðkomandi viðskiptaaðila í skamman tíma.
    Því næst segir að í tilviki fjárfesta sem hyggst koma til Bandaríkjanna á slíku ,,visa`` þá verði hann að vera í forsvari fyrir fyrirtæki sem þar er starfandi samkvæmt nánari skilgreiningum.
    Þetta gefur til kynna að það er ekki einfalt mál að sækja um þetta. Okkar hagkerfi er smátt, okkar fyrirtæki eru smá og það liggur ekki í augum uppi að þau geti öll, við skulum segja eins og sænsk fjölþjóðleg fyrirtæki, fullnægt þessum skilmálum. Þess vegna eru það engar ýkjur að við höfum á undanförnum árum verið að kanna þetta, hreyft þessu, bréfað um þetta og rætt um þetta. En einmitt líka vegna gagnkvæmniákvæðanna hafa Bandaríkjamenn bent á að því fari víðs fjarri að við bjóðum upp á samsvarandi réttindi hér í okkar landi og m.a. spurt um réttindi og vernd fjárfesta hjá okkur til að fullnægja þessu.
    En ég tek undir það að þetta er vissulega mál sem við eigum að sinna og það verður gert.