Íslenskt heiti á "European Union"

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:00:53 (3850)


[17:00]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get sagt fyrir mína parta að mér hefur verið málið hugleikið að sjálfsögðu eins og hv. fyrirspyrjanda en hef þó ekki leitað til Íslenskrar málnefndar eða mér er ekki kunnugt um að ráðuneytið hafi gert það út af fyrir sig þótt það hafi ráðgast við ýmsa þá sem eru sérfróðir í þessum málefnum Evrópubandalagsins og vinna að þýðingarstörfum fyrir ráðuneytið.
    Ef við lítum á íslenska málvenju að því er varðar þýðingu orðsins ,,union``, þá er það ljóst að það liggur beinast við að þýða það með orðinu samband. Elsta dæmið er að sjálfsögðu Kalmarsambandið, ,,Kalmarunionen``, sem tengdi Norðurlönd í konungssamband frá árinu 1377 fram á 15. öld. Alþjóðastofnanir þær sem nú eru við lýði og bera orðið ,,union`` í nafni sínu eru flest nefnd sambönd á íslensku. Má nefna sem dæmi Vestur-Evrópusambandið, Alþjóðafjarskiptasambandið, Alþjóðapóstsambandið, Norræna póstsambandið. Af framansögðu er því ljóst að það liggur e.t.v. beinast við að taka upp heitið Evrópusamband sem þýðingu á European Union. Þar ræður mestu að Evrópubandalagið hefur ákveðið að taka upp nýtt nafn og rétt er að virða þá ákvörðun og þýða hið nýja nafn á sem réttastan hátt. Hér verður þó að hafa á þann fyrirvara að aðstæður eru með öðrum hætti hér á landi en annars staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Evrópska efnahagssvæðið er oftast skammstafað sem EEA, EEE, EWR eða EUS á málum EFTA-ríkjanna en European Union með EU eins og fyrr segir.
    Hér á landi er hins vegar mikil hætta á misskilningi og mislestri ef European Union er þýtt sem Evrópusamband og skammstafað ES þar sem EES er fólki tamt sem skammstöfun fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Rétt er einnig að benda á þær meinlegu villur sem þetta getur orsakað með einföldum mistökum við innslátt á tölvu jafnvel fyrir þá sem vel eru heima í þessum málum. Þá ber að nefna að erfitt er að greina mun á ES og EES í mæltu máli. Það er því mitt álit að ekki sé fært að nota skammstöfunina ES sem styttingu á nafni Evrópusambandsins vegna einfaldlega óþæginda og hættu á mislestri og misskilningi sem því mundi fylgja. Tillaga ráðuneytisins er því sú að orðið Evrópusamband verði notað sem mest óstytt. Ef menn vilja nota skammstöfun þá beri jafnvel fremur að nota ESB yfir Evrópusambandið eða jafnvel EB. Bé-ið í skammstöfuninni standi þá fyrir upphaf síðasta atkvæðis orðsins og auðveldi þannig að gerður verði sá greinarmunur sem nauðsynlegur er, jafnt í töluðu máli sem rituðu.