Íslenskt heiti á "European Union"

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:06:08 (3853)


[17:06]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort það beri að skilja orð hans svo að hann líti svo á að Evrópusambandið, það orð sé að festast sessi eða hvort enn þá sé tækifæri til þess að koma að öðrum heitum. Ég held að menn eigi gjarnan að vanda sig við að velja heiti á svona ríkjasambönd sem menn sjá fyrir sér að muni lifa einhver ár. Við eigum mikið af orðum í okkar máli. Á miðöldum hefðu menn sennilega kallað þetta Evrópugarðinn, sbr. Miklagarð, Páfagarð og fleira slíkt. Á 17. og 18. öld hefðu menn talað um veldi, Evrópuveldi, sbr. Kínaveldi og Rómarveldi. Eins væri hægt að hugsa sér Evrópudæmið samanber keisaradæmi. Það er því úr ýmsu að velja í okkar tungu.
    Ég held að menn eigi að vanda sig og mér finnst að Evrópusambandið sé ansi flatneskjulegt. Ég vil skora á hæstv. utanrrh. að vanda sig aðeins betur og skoða hug sinn í þessu máli.