Flutningastarfsemi á grundvelli EES-samningsins

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:11:07 (3856)

[17:11]

     Fyrirspyrjandi (Sigurður Rúnar Friðjónsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 541 er að finna fsp. mína til hæstv. samgrh. um setningu reglugerða um flutningastarfsemi á grundvelli EES-samnings. Spurningarnar eru svohljóðandi:
  ,,1. Hvað líður undirbúningi að nýjum reglugerðum og samræmingu á grundvelli samnings um Evrópskt efnahagssvæði um flutningastarfsemi innan lands?
    2. Í hvaða mæli kalla nýjar reglur á auknar framkvæmdir, sérstaklega varðandi uppbyggingu vega og brúa?``
    Eins og öllum er ljóst eru góðar samgöngur grunnur að öflugu byggða- og atvinnulífi. Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði harðnar samkeppni og kröfur aukast til atvinnulífs. Samgöngur og flutningar hafa mikla þýðingu fyrir atvinnulíf í stóru og strjálbýlu landi. Framleiðendur flutningatækja framleiða sín tæki oft á tíðum með meiri burðargetu en síðan er leyfilegt að nýta vegna þjóðvegakerfisins en með hækkun á heildarþyngd er hægt að auka afköst flutningakerfis án nýrra fjárfestinga í flutningatækjum.