Atvinnuleysisbætur smábátaeigenda

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:16:49 (3859)

[17:16]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 504 ber ég fram fsp. til hæstv. félmrh. um atvinnuleysisbætur smábátaeigenda. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    ,,Með hvaða hætti hyggst ráðherra beita sér fyrir því að tryggður verði eðlilegur réttur þeirra til atvinnuleysistrygginga sem framfæri hafa af útgerð smábáta?``
    Tilefni fyrirspurnarinnar er nokkur óvissa og mikil óánægja sem fram hefur komið vegna útfærslu og setningar reglugerðar á grundvelli laga nr. 93/1993, sem vörðuðu breytingar á atvinnuleysistryggingum. Þar var gerð veruleg breyting frá því sem áður hafði tíðkast og á grundvelli reglugerða sem settar voru voru settar fram breytingar sem ekki voru kynntar með frv. sem flutt var og hafa orðið mikill ásteytingarsteinn.
    Þetta frv. varð að lögum 1. júlí 1993 en greiðslur bóta til sjálfstætt starfandi áttu að koma til framkvæmda 1. okt. 1993. Þann 24. sept. 1993 gaf heilbrrh., sem lögin heyrðu þá undir en nú heyra lögin um atvinnuleysistryggingar undir félmrh., út reglugerð nr. 389/1993, sem var í meginatriðum samhljóða þeim drögum sem birt höfðu verið sem fskj. með frv. en þó ítarlegri. Það ákvæði sem smábátaeigendur hafa fyrst og fremst gagnrýnt var ekki í hinum upphaflegu drögum eins og ég gat um, þ.e. í 7. gr. reglugerðarinnar þar sem fjallað er um viðurlög, en þar segir m.a.:
    ,,Nú hefur sjálfstætt starfandi í starfsgrein sem í eðli sínu eru árstíðabundin störf í greininni að nýju innan 12 mánaða frá því að hann sótti um atvinnuleysisbætur og skal þá litið svo á að sem um tímabundið hlé hafi verið að ræða sem ekki veitti rétt til atvinnuleysisbóta. Skal þá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eða sá sem stjórnin hefur falið að annast greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi endurkrefja hlutaðeigandi um greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við ákvæði 41. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt skal svipta hlutaðeigandi bótarétti í hámarkstíma samkvæmt 41. gr. laganna.``
    Þetta ákvæði hefur í raun komið í veg fyrir að smábátaeigendur fái notið bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði þar sem nú nægir ekki, eins og gert hafði verið fram að gildistöku reglugerðarinnar, að þeir sýni fram á að þeir hafi stöðvað rekstur á grundvelli laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, heldur mega þeir ekki hefja rekstur að nýju innan 12 mánaða frá stöðvun.