Atvinnuleysisbætur smábátaeigenda

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:20:17 (3860)


[17:20]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Áður en reglugerð var sett varðandi sjálfstætt starfandi nutu smábátaeigendur bóta sem launþegar en njóta nú bóta sem sjálfstætt starfandi einstaklingar. Fyrrgreind reglugerð er almenn og nær til allrar atvinnustarfsemi en ekki hafa verið settar sérreglur um starfsemi einstakra atvinnugreina eða tegund reksturs. Reglugerðin var sett til reynslu þannig að áætla mætti þörf og kostnað með tilliti til þess hvort ástæða sé til þess að þrengja eða rýmka ákvæðin.
    Þá liggur fyrir að þessi umræða sprettur af túlkun á lokamálsgrein 3. gr. um að bætur séu ekki greiddar ef um er að ræða árstíðabundna stöðvun starfsemi eða tímabundið hlé, sem er túlkuð með þeim hætti að rekstrarstöðvun verði að vara a.m.k. eitt ár. Ef sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur rekstur aftur áður en þessi tími er liðinn á hann á hættu að vera krafður um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta.
    Áður en ég vík að hugsanlegum breytingum á þessu ákvæði eða túlkun þess vil ég að fram komi að það eru margvísleg rök fyrir því að atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar í árstíðabundnum sveiflum. Í fyrsta lagi eru mjög margar atvinnugreinar háðar árstíðabundnum sveiflum þar sem tekjur geta verið mjög miklar á skömmum tíma og lítið sem ekkert þess á milli. Nægir þar að nefna verslunina á ýmsum sviðum, margvíslega verktakastarfsemi, landbúnað, sjávarútveg, ferðamannaiðnað o.fl. Ef almennt væri heimilt að greiða atvinnuleysisbætur við tímabundna stöðvun atvinnurekstrar eins og gildir í fiskvinnslu, þá er ljóst að kostnaður við atvinnuleysisbætur gæti aukist mikið og margvíslegur atvinnurekstur mundi vafalaust nýta sér að halda vinnuafli tímabundið á atvinnuleysisbótum á ákveðnum árstíma.
    Efasemdir hafa komið fram um að þessar breytingar séu ekki í anda þess að rýmka rétt til atvinnuleysisbóta eins og stefnt var að með breytingum á lögunum um atvinnuleysistryggingar. Það má til sanns vegar færa um smábátaeigendur og einnig vörubifreiðastjóra að þeir eru nú verr settir eftir þessar breytingar en áður þar sem þeir þurfa nánast að velja um starf sem einungis er hægt að sinna með góðu móti á ákveðnum árstíma eða atvinnuleysisbóta. Hins vegar er 1. gr. laganna, sem samþykkt var nær einróma sl. vor, ótvíræð um að sjálfstætt starfandi þurfa að hafa hætt starfsemi. Spurningin er því sú: Hvað felst í að vera sjálfstætt starfandi og að hafa hætt starfsemi? Það hefur komið í hlut stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að túlka þessi ákvæði og ekki er ástæða til að efast um að þau séu rétt túlkuð þó ákvæðin kunni að þykja mjög þröng eftir á að hyggja.
    Það hefur gilt um smábátaeigendur að þeir hafa mikið starfað sem launamenn í fiskvinnslu á veturna þegar áhættusamt er að sigla til sjós og þannig aflað sér bótaréttar sam launamenn. Á sama hátt og um vörubifreiðastjóra eru þannig sögulegar skýringar á bótarétti þeirra.
    Með bréfi sem tekið var fyrir á fundi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs 21. jan. óskaði ég eftir því að stjórnin léti meta þörf þess að endurskoða þessi ákvæði einkum með tilliti til stöðu vörubifreiðastjóra og smábátaeigenda fyrir og eftir setningu reglugerðarinnar frá sl. ári. Þetta erindi er nú til skoðunar hjá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Ég tel rétt að skoða alla þá möguleika sem eru til þess fallnir að tryggja að bótakerfið komi þeim til góða sem byggja þurfa afkomu sína á atvinnuleysisbótum um lengri eða skemmri tíma. Hvað viðkemur bæði smábátaeigendum og vörubifreiðastjórum hef ég nefnt að athuga þurfi hvort taka beri tillit til þeirra hópa sem nutu atvinnuleysisbóta í árstíðabundnum hléum fyrir breytingar en ekki eftir breytingar og hvort stytta megi tilskilin árshlé eða hvernig hægt sé að taka tillit til tekna sjálfstætt starfandi að öðru leyti við greiðslu atvinnuleysisbóta.
    Ef lögum eða reglugerðum er breytt til að heimila bótagreiðslu til smábátaeigenda í árstíðabundnum hléum, sem ég tel rétt að skoða vandlega, þá verður að taka afstöðu til þess hvort eigi að búa til sérreglur sem taka tillit til sérstakra aðstæðna einstakra hópa eins og smábátaeigenda eða vörubifreiðastjóra eða hvort setja eigi almenna reglur sem gilda um alla en taka tillit til aðstæðna eða fjárhags viðkomandi.
    Í lokin vil ég ítreka að fyrir 2--3 vikum óskaði ég eftir afstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess með hvaða hætti hægt sé að tryggja rétt þeirra til bóta sem framfæri hafa af útgerð smábáta en afstaða stjórnarinnar hefur enn ekki borist ráðuneytinu.