Skólanefndir

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:36:10 (3866)



[17:36]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Við getum áreiðanlega verið sammála um að það væri eðlilegast að kjörtímabil skólanefndanna og sveitarstjórna fari saman. Það er einu sinni svo, eins og ég hef rakið, að lögin segja annað en reglugerðin og það er grundvallaratriði að þar sem greinir á milli laga og reglugerðar ráða lögin.

    Ég rakti það áðan hverjar væru heimildir fyrrv. ráðherra til þess að setja þessa reglugerð. Það er niðurstaða okkar í ráðuneytinu að það er ekki heimild í lögunum til þess að framlengja kjörtímabil þeirra nefnda sem voru skipaðar flestar í janúar, sumar í febrúar og allt fram í mars. Það skorti heimild í lögin til þess að framlengja kjörtímabil nefndanna þó að við séum áreiðanlega sammála um að það væri eðlilegast að þetta færi alveg saman. Ég tek undir það. Mér finnst óeðlilegt að fráfarandi sveitarstjórnir séu að kjósa í skólanefndir núna en það er of langt bil á milli þess sem lögin segja og sveitarstjórnarkosninga til þess að við getum leyft okkur að horfa fram hjá þessu. Ég horfi til þess að ef við skulum segja meiri hluti tiltekinnar skólanefndar, sem var með kjörtímabil til janúarmánaðar sl., fer að taka einhverjar ákvarðanir sem minni hluti sættir sig ekki við, þá þykir mér nokkurn veginn ljós að slíkri ákvörðun yrði hnekkt fyrir dómi. Ég sé því ekki að ég eigi nokkurn annan kost en að skipa þessar skólanefndir eins og lögin segja.