Heimildarmyndir

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:47:18 (3870)


[17:47]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu hér. Þó svo þessi umræða hafi farið fram dag þá fór ekki fram umræða um það hvað slík mynd kostar sem hér er til umræðu, Bóndi er bústólpi. Nú fengum við að vita það. Myndin kostaði 1,8 millj. og rúmlega það. En það er kannski ekki aðalatriðið heldur það að virðing Ríkisútvarps, sjónvarps er mjög rýrð eftir þennan þátt.
    Í fyrsta lagi vil ég benda á það að þeir sjónvarpsmenn sem gerðu þessa mynd, sem kölluð er heimildarmynd, fóru vítt og breitt um landið. M.a. fóru þeir að Hvanneyri sem er bændaskóli, eins og allir vita, og vísindastofnun og kynntu sér starfsemi þessarar stofnunar. Þeir voru þar í heilan sólarhring að kynna sér bæði störf skólans og einnig voru þeir að kynna sér námskeiðahald þar varðandi endurmenntun fyrir bænda. Það kom ekki einn punktur af þessu fram í myndinni. Heldur sundurslitið frá skólastjóranum aðeins eitt orð. Og að setja samasemmerki við myndina Verstöðin Ísland, sem er mjög merkileg heimildarmynd, og þessa ömurlegu afskræmingu, ég trúi því ekki að hæstv. menntmrh. geri það.