Heimildarmyndir

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:48:53 (3871)


[17:48]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það er einhver misskilningur hjá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur ef hún heldur að ég hafi verið að setja eitthvert samasemmerki við þessar tvær myndir. Ég hef aldrei gert það. ( IP: Gott.) Þegar af þeirri ástæðu og þá svara ég spurningu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um hver væri skoðun mín á myndinni Bóndi er bústólpi að ég hef bara ekki séð þá mynd þannig að ég get ekki myndað mér nokkra skoðun. ( IP: Það gengur ekki, hæstv. menntmrh.) Jú, jú, það gengur alveg. Ég hef engar embættislegar skyldur til að horfa á hverja mynd sem kemur í íslenska sjónvarpinu. Það hlýtur hv. þm. að vita. Og forvitni mín hefur ekkert sérstaklega verið vakin satt að segja á þessari mynd þrátt fyrir þá umræðu sem orðið hefur um hana. Ég hef ekki skoðun á mynd sem ég hef ekki séð.
    Það var spurt hver hefði samið svarið. Samkvæmt bréfi frá útvarpsstjóra, þar sem þessi svör koma fram sem ég las upp áðan, þá eru þau samin af aðstoðarframkvæmdastjóra sjónvarpsins.
    Ég vil svo taka það skýrt fram vegna þess að það er verið að gera líka eitthvert mál úr því hvað þetta kostaði að ég hef ekkert sem ráðherra með samninga Ríkisútvarpsins, hvort heldur hljóðvarps eða sjónvarps, að gera um aðkeypt efni. Mér fannst einhvern veginn að það væri verið að finna að því. Ég hef orðið var við þetta áður í umræðunni um Ríkisútvarpið og reyndar um fleiri stofnanir sem heyra undir menntmrn. að í sumum tilvikum er ætlast til afskipta ráðherra en í öðrum tilvikum ef þau eru einhver þá eru þau harðlega gagnrýnd. Það er lítið samræmi í þessum málflutningi.