Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 13:49:40 (3876)


[13:49]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Á þessum stutta tíma er ekki hægt að fjalla efnislega um þær miklu hörmungar sem við höfum fengið fréttir af í allt og langan tíma. Það er heldur ekki tími til þess að fara að rekja hér ástæður þessarar þróunar né heldur að ræða, hvað þá heldur að fella dóma um framgöngu Sameinuðu þjóðanna á þessum vettvangi. Það sem verið er að gera er einfaldlega það að ríki Evrópu hafa gefist upp við að ráða öryggismálum í okkar heimshluta ein og sér. Það blasir við og þá hefur verið ákveðið að fela það vald í hendur æðsta yfirmanns þess eina alþjóðlega öryggiskerfis sem til er í veröldinni, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, hvað gera skuli.
    Ég hef talið það vera mjög mikilvægt að það varð ekki ofan á innan NATO á sínum tíma að Bandaríkin eða NATO gætu ákveðið einhliða að hefja loftárásir á þessu svæði sem hér er til umráða. Það var tekin skýr ákvörðun um að það yrði ekki gert nema Boutros Boutros-Ghali, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, væri því samþykkur. Hann hefur fyrir sitt leyti lýst því yfir að hann muni ekki taka þá ákvörðun nema Akashi, sérstakur fulltrúi Boutros Boutros-Ghalis í fyrrum ríkjum Júgóslavíu, og yfirmenn friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna á því svæði séu því samþykkir. Þetta tel ég vera hina réttu ákvörðun.
    Við Íslendingar sem smáþjóð eigum engan annan betri kost heldur en treysta því öryggiskerfi sem Sameinuðu þjóðirnar eru að reyna að þróa stig af stigi við erfiðar aðstæður. Verði það niðurstaða framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og fulltrúa hans að rétt sé að grípa til loftárása, þá tel ég einsýnt að íslensk stjórnvöld styðji þá ákvörðun.