Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 14:02:45 (3882)


[14:02]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í þeirri ræðu sem Thorvald Stoltenberg flutti í Evrópuráðinu og ég vitnaði til hér áðan sagði hann eitthvað á þá leið að það væri um tvo kosti að ræða. Annars vegar yrði að halda friðarumleitunum áfram og leiða þær til enda, hins vegar stríð. Og það er einmitt þetta sem við stöndum frammi fyrir. Til hvaða aðgerða á að grípa? Hvað er það sem ber árangur? Ég óttast það að verði gripið til hernaðaríhlutunar af hálfu Sameinuðu þjóðanna þá endi það með svipuðum hætti og við horfðum upp á í Írak og við höfum horft upp á í Sómalíu að menn skapi hreinlega fleiri vandamál en þeir leysa. Og það er mikil hætta á því að verði gripið til loftárása þá valdi það stigmögnun þessa stríðs og jafnvel ýti undir það að Evrópa skiptist aftur í blokkir með og á móti þessum stríðsaðilum, þ.e. einkum með og móti Serbum.
    Það er gríðarlega mikið vandamál sem við stöndum frammi fyrir og vissulega finnst manni að fyrir svo löngu sé nóg komið en í ljósi þess hve illa Sameinuðu þjóðirnar og Evrópubandalagið sem einkum hafa komið þarna að verki, hafa staðið að þeim aðgerðum sem þeir hafa boðað, viðskiptabanninu og hjálparstarfinu, þá er ástæða til að efast um það að úrslitakostum og árásum hverjar sem þær verða sem vonandi verður hægt að komast hjá, verði fylgt eftir þannig að hægt verði að binda enda á stríð.
    Ég vil að lokum minna á að við eigum auðvitað fleiri erindi inn í þessa umræðu en það að taka afstöðu til hernaðaraðgerða. Við þurfum líka að spyrja okkur að því hvernig við getum á öflugri hátt komið til aðstoðar því stríðsþjáða fólki sem býr í Bosníu-Hersegovínu og reyndar víðar. Þar eigum við vissulega erindi og við höfum krafta til þess að aðstoða þetta stríðshrjáða fólk.