Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 14:05:10 (3883)


[14:05]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa í þessum umræðum lýst stuðningi sínum við þau sjónarmið íslenskra stjórnvalda að hið alþjóðlega samfélag geti ekki lengur varið það fyrir samvisku sinni að horfa aðgerðarlaust á áframhald hryðjuverka sem bitna fyrst og fremst á varnarlausu og saklausu fólki. Við minnumst þess að hið alþjóðlega samfélag, hinar sameinuðu þjóðir hafa tekið á sig ábyrgð í þessu máli. Það hafa þær gert á grundvelli fjölmargra ályktana öryggisráðsins og bregist þær þessu hlutverki sínu þá munu þær þar með skapa fordæmi sem getur dregið langan slóða á eftir sér, ekki aðeins í þessum heimshluta heldur víðar.
    Ég vil minna hv. þm. á að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sent sérstakt erindi nú af þessu tilefni, dags. 6. þessa mánaðar, til framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins þar sem hann beinlínis fer þess á leit að Norður-Atlantshafsráðið ákveði að heimila yfirmanni herafla suðurvængs Atlantshafsbandalagsins að grípa til loftárása að beiðni Sameinuðu þjóðanna gegn stórskotaliðsstöðvum umhverfis Sarajevó sem friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna hefur metið svo að beri ábyrgð á stórskotaliðsárásum á óbreyttra borgara innan Sarajevó. Það er með öðrum orðum beinlínis að ósk framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem leitað er til Atlantshafsbandalagsins sem er eina aflið sem getur raunverulega gripið til aðgerða sem mark er á takandi.