Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 15:25:19 (3889)


[15:25]
     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Gerð hefur verið gerð grein fyrir sérstöku áliti frá 2. minni hluta allshn. um það frv. sem hér er til umræðu og gerðar tillögur um þrjár breytingar á því sem ég vil víkja sérstaklega að.

    Vegna þeirra orða er féllu áðan í svörum og andsvörum og vegna þess sem hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson sagði varðandi íslensk lög þá er rétt að rifja það upp að það er fjöldi óskráðra regla í lögfræði, svonefndar réttarheimildir, sem eru alþekktar og viðurkenndar fyrir íslenskum dómstólum. Þar að auki eru það viðurkenndar reglur í þjóðarétti að dómstólar dæma eftir þeim reglum með skýringum jafnvel þótt samningurinn hafi ekki verið lögfestur þannig að erlend áhrif eru alls staðar viðurkennd í íslenskri lögfræði. Norrænir dómar og lög eru mjög mikilvægur þáttur í íslensku laganámi og margar kennslubækur erlendar. Og íslenskir dómstólar taka að sjálfsögðu tillit til alls þessa. Ég hef áður látið þessar athugasemdir koma í ljós varðandi umræður um þessi mál á síðasta þingi.
    Enn fremur langar mig til þess að byrja á því að leiðrétta nokkuð þá athugasemd er hv. þm. er hér talaði á undan mér gerði varðandi framsögu mína þess efnis að það sé ekki rétt að einungis sé heimild í frv. um að dómari geti skotið málinu til Hæstaréttar þar sem annar hvor aðilinn geti skotið því einnig til Hæstaréttar. Vafalaust er byggt á því að sjálfstæði héraðsdómarans séu þannig takmörk sett. En það byggir að sjálfsögðu á þeirri grundvallarreglu að hér á landi eru tvö dómstig þar sem Hæstiréttur Íslands hefur endanlegt úrskurðarvald og getur endurskoðað alla dóma undirréttar. Þetta er því eðlileg regla og í samræmi við íslenskar réttarfarsreglur.
    Brtt. 2. minni hluta miða nánar tiltekið að því, virðulegur foreti, að í fyrsta lagi verði girt fyrir að héraðsdómstólar geti leitað eftir áliti EFTA-dómstólsins við rekstur mála fyrir þeim eins og gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. Þess í stað verði það aðeins á valdi Hæstaréttar og þá eftir að máli hefur verið skotið þangað að fenginni úrlausn héraðsdóms.
    Í öðru lagi leggur minni hlutinn til að felld verði niður í 2. gr. frv. heimild handa félagsdómi til að afla álits EFTA-dómstólsins um atriði máls sem eru rekin á þeim vettvangi.
    Í þriðja lagi er svo loks lagt til að nýtt ákvæði verði tekið upp um að aðili að máli sem vill ekki að leitað verði álits EFTA-dómstólsins um atriði þess verði aldrei látinn bera aukakostnað af því.
    Fyrsti minni hluti allshn. telur þessar brtt. ekki á rökum reistar og vil ég skýra hér í stuttu máli ástæður þess.
    Um fyrstnefndu brtt. má vekja athygli á að í athugasemdum við frv. kemur fram hvers vegna þar er lagt til að héraðsdómstólar geti til jafns við Hæstarétt kveðið upp úrskurð undir rekstri dómsmáls um að leita álits EFTA-dómstólsins um tiltekin atriði sem reynir á í málinu áður en dómur gengur í því.
    Í athugasemdum er þess getið að samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls má hvert ríkið um sig takmarka heimildir dómstóla sinna til að leita álits EFTA-dómstólsins við þá sem kveða upp úrlausnir sem geta ekki sætt málskoti samkvæmt landslögum. Eftir þessu hefði með öðrum orðum verið unnt að miða við að héraðsdómstólum yrði ekki veitt þessi heimild líkt og brtt. minni hluta nefndarinnar beinist að. Sú leið hefur hins vegar ekki verið farin í frv. og er það skýrt þannig í athugasemdum með því að samkvæmt almennum reglum í réttarfari á að leitast við að leysa úr máli á grundvelli sömu gagna og sömu röksemda á báðum dómstigum en á því yrði brestur ef heimildin til að leita álits EFTA-dómstólsins yrði bundin við Hæstarétt.
    Undir þessi rök er fyllilega hægt að taka því ef útilokað yrði að héraðsdómstólar gætu leitað eftir áliti EFTA-dómstólsins um atriði í málum áður en leyst er úr þeim, þá gæti það hæglega haft í för með sér að allt aðrar röksemdir kæmu til athugunar fyrir Hæstarétti eftir að slíkt álit væri fengið en bornar voru upp í héraði. Þetta væri andstætt meginreglum í réttarfari sem fela í sér verulegar almennar takmarkanir á að nýjum rökum verði fyrst hreyft undir rekstri máls fyrir Hæstarétti. Að auki verður að benda á að ef héraðsdómstólum verður ekki veitt þessi heimild getur það leitt til þess að málum verði skotið til Hæstaréttar gagngert til að geta fengið þar síðbúið álit EFTA-dómstólsins um atriði máls. Þetta getur þess vegna gerst í málum sem hefði að öðrum kosti ekki verið skotið til Hæstaréttar. Það er augljóst að þetta gæti leitt af sér tafir um að endanleg niðurstaða fáist í máli og kostnað fyrir málsaðilana sem hefði mátt komast hjá með því að héraðsdómstóllinn fengi álit EFTA-dómstólsins og komist hefði verið hjá áfrýjun málsins.
    Í allshn. var leitað eftir upplýsingum um hvaða leiðir hefðu verið farnar í hinum EFTA-löndunum vegna öflunar álits fyrir EFTA-dómstólnum. Upplýsingar bárust m.a. frá Davíð Þór Björgvinssyni lögfræðingi, sem er aðstoðarmaður Þórs Vilhjálmssonar, dómara við EFTA-dómstólinn í Genf, sem átti að taka formlega til starfa þann 1. jan. sl. Með leyfi forseta langar mig til þess að gera grein fyrir þessu áliti. Þetta bréf er stílað á ritara allshn. og þar segir:
    ,,Ég hef skoðað frv. sem þú sendir mér sl. föstudag og tel ekki tilefni til sérstakra athugasemda. Ég vil þó taka það fram að ég tel eðlilegt, eins og gert er í frv., að takmarka heimildina til að leita álits EFTA-dómstólsins ekki við Hæstarétt. Í því sambandi má m.a. benda á að heppilegt er að álit EFTA-dómstólsins liggi sem fyrst fyrir, enda gæti það í mörgum tilfellum stuðlað að því að mál sættust þegar álitið lægi fyrir eða eftir atvikum komið í veg fyrir að dómi verði áfrýjað. Í slíkum tilfellum mundi það flýta meðferð máls að fá álitið meðan mál er rekið fyrir héraðsdómi.``
    Enn fremur segir í þessu bréfi: ,,Ég hef enn fremur kannað eftir því sem mér hefur verið fært hvernig 3. mgr. 34. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls hefur verið útfærð í öðrum aðildarríkjum samningsins. Eftir því sem ég kemst næst er við það miðað í Finnlandi og Svíþjóð að allir dómstólar, hvort sem hægt er að skjóta úrlausnum þeirra til æðri dóms eða ekki, geti leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins þegar taka þarf afstöðu til skýringar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum og viðaukum við hann eða gerðum sem í getið er um í viðaukunum. Í Austurríki hefur hins vegar verið valin sú leið á grundvelli 3. mgr. 34. gr. samningsins að takmarka heimildina við áfrýjunardómstigin``, þ.e. tvö dómstig af þremur. Ég bið hv. þm. að taka eftir því að þar eru þrjú dómstig. Hér á landi eru þau aðeins tvö. Og það er vísað í meðfylgjandi gögn. Hins vegar hafði Davíð Þór því miður ekki tök á því að kanna hvaða leið var farin í Noregi á þessum tíma en ritari nefndarinnar aflaði upplýsinga frá Noregi. Þar hefur verið farin sama leið og hér er lögð til og reyndar hefur verið upplýst áður í ræðum hv. þm.
    Um 2. brtt. sem miðar, eins og áður segir, að því að fella brott ákvæðin 1. mgr. 2. gr. frv. um heimild handa félagsdómi til að leita álits EFTA-dómstólsins er í raun og veru ekki þörf margra orða. Í því sambandi má einfaldlega benda á að samkvæmt 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls verður þessi heimild að vera veitt öllum dómstólum í ríkinu sem kveða upp dóma sem verður ekki skotið til æðra dóms.
    3. mgr. 34. gr. samningsins hljóðar þannig: ,,EFTA-ríki getur í eigin löggjöf takmarkað rétt til að leita eftir slíku ráðgefandi áliti við dómstóla og rétti geti úrlausn þeirra ekki sætt málskoti samkvæmt landslögum.`` Og úrlausn félagsdóms hins íslenska sætir ekki málskoti samkvæmt íslenskum lögum.
    Í 67. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 er tekið fram að dómar félagsdóms séu endanlegir. Það yrði því beinlínis samningsbrot af hálfu ríkisins ef þessi heimild yrði ekki veitt félagsdómi eða hún takmörkuð að einhverju leyti en félagsdómur er eftir öllum einkennum sínum og auðkennum dómstóll í venjulegum skilningi.
    Að auki vil ég benda á að í umfjöllun innan nefndarinnar þar sem þessi mál voru talsvert mikið rædd hafa ekki komið fram nein sérstök rök til stuðnings því að félagsdómur njóti einhverrar þeirrar sérstöðu að óæskilegt sé að hann hafi þessa heimild sem er til viðbótar háð vilja hans sjálfs hvort hann notfærir sér hverju sinni.
    Það hafa þó komið fram vissar áhyggjur hjá nokkrum aðilum vinnumarkaðarins vegna hins sérstaka eðlis félagsdóms. Þó tel ég rétt að taka það fram að hvorki VSÍ né ASÍ mótmæltu þessu ákvæði í frv., sérstaklega þessu ákvæði um félagsdóm og tel rétt að geta nokkuð þeirra álits. Álit frá Vinnuveitendasambands Íslands er nýkomið í nefndina, kom núna í lok janúar. Með leyfi virðulegs forseta segir þar:
    ,,Í frv. er gert ráð fyrir heimild til handa héraðsdómara að kveða upp úrskurð um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á EES-samningnum. Í 2. gr. frv. er lagt til að félagsdómur geti með sama hætti leitað álits EFTA-dómstólsins um atriði mála sem eru rekin þar.
    Fallast má á það sjónarmið að vegna samræmis sé eðlilegt að félagsdómur hafi sömu heimildir og héraðsdómur að þessu leyti. Gæta þarf þó hins sérstaka eðlis félagsdóms að geta tekið mjög hratt á málum þannig að hægt sé að fá endanlegan dóm á örfáum dögum. Því verður að ganga út frá að umræddri heimild verði ekki beitt í þeim málum þar sem miklu skiptir að fá hraða dómsúrlausn. Að öðru leyti gerir Vinnuveitendasamband Íslands ekki athugasemdir við frv. þetta.``
    Þá segir í lokin í umsögn frá Alþýðusambandi Íslands, sem er reyndar frá síðasta ári, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,ASÍ telur að frv. sé í fullu samræmi við þann tilgang EES-samningsins að innlendir dómstólar geti leitað eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum um skýringu á túlkun samningsins. Þetta mál er nátengt stofnanahluta EES-samningsins sem er einn mikilvægasti hluti hans. ASÍ mun á næstunni ræða þann hluta samningsins nánar og áskilur sér rétt til að koma fram með sérstaka umsögn um málið á síðara stigi. ASÍ telur því ekki ástæðu til að gera beinar athugasemdir eða leggja til breytingar á frv. að sinni.``
    Í sambandi við þetta er þó rétt að leggja á það þunga áherslu að félagsdómur yrði að sjálfsögðu að vega og meta þá nauðsyn að afla slíks álits með tilliti til þeirrar frumskyldu sinnar að leysa úr knýjandi álitaefnum í tengslum við vinnudeilur á eins skömmum tíma og auðið er. Dómurinn hlýtur að virða þessa frumskyldu sína. Þetta er mikilvægt atriði.
    Í félagsdómi eiga sæti fimm dómarar. Af þeim tilnefnir Hæstiréttur tvo. Hæstiréttur tilnefnir einnig aðra þrjá menn og velur félmrh. einn þeirra í dóminn, einn er tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands og einn dómari af Vinnuveitendasambandi Íslands. Ef málið varðar hins vegar opinbera starfsmenn eða bankastarfsmenn tilnefna samtök þeirra og fjmrh. eða bankaráð ríkisbankanna dómara. Það er því ljóst að aðilar vinnumarkaðarins hafa mikil áhrif í félagsdómi.
    Ég vil enn fremur gera hér grein fyrir stöðu þessara mála um rétt félagsdóma á Norðurlöndum til að leita álits EFTA-dómstólsins um skýringu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en við fengum m.a. upplýsingar frá ritara allshn. og var gerð nokkur grein fyrir því hér áðan í máli hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Þar kemur fram að í Noregi var lagt fram frv. til breytinga á lögum um dómstóla nr. 13/1915 og það síðan samþykkt sem lög nr. 113/1992 og dómstólum veitt heimild, sbr. 34. gr. EES-samningsins, til að leita til EFTA-dómstólsins um álit. Í greinargerð með frv. kemur það skýrlega fram að það eigi einnig við um sérdómstóla, svo sem félagsdóm.
    Varðandi norska félagsdóminn frétti ég af samtali við formann norska vinnuveitendasambandsins og var það mat hans að ekki yrði farin sú leið að leita eftir öflun álits fyrir EFTA-dómstólnum í málum sem þyrftu skjóta úrlausn og mikilvægir hagsmunir lægju við. Það er því ljóst að þessi mál hafa eitthvað komið til umræðu. Í Svíþjóð var ekki lagt fram sérstakt frv. vegna 34. gr. EES-samningsins. Þann 3. des.

1992 lögfestu Svíar m.a. greinar 1--129 í samningnum og hafa talið það nægilegt til að uppfylla skuldbindingar um lögfestingu ákvæða varðandi öflun álits hjá EFTA-dómstólnum. Í umræðum í tengslum við lögfestingarfrv. kom fram að eðlilegt væri að takmarka ekki réttinn til að leita álits við dómstóla á síðasta dómstigi, enda væri jákvætt að láta sem flesta dómstóla hafa slíka heimild þar sem slíkt leiddi til einsleitrar túlkunar á EES-reglum. Það virðist því ljóst að Svíar ætli sér að láta heimildina ná til félagsdóms.
    Finnar hafa farið hliðstæða leið og Svíar. Þeir lögtóku ýmis ákvæði EES-samningsins, þar á meðal 34. gr. Í upplýsingum sem bárust kemur fram að Finnar hafa ekki nýtt sér heimild 3. mgr. 34. gr. um að takmarka heimildina til að leita álits við endanlegt dómstig og að slíkar takmarkanir hafi ekki verið ræddar í þinginu. Í Finnlandi eiga deilur um málefni vinnuréttarlegs eðlis yfirleitt undir almenna dómstóla á fyrsta dómstigi. Aðeins er hægt að fara með mál sem varða deilur um kjarasamninga fyrir félagsdóm. Finnar virðast líta svo á að þar sem slíkur ágreiningur eigi ekki undir EES-samninginn nái rétturinn til að leita álits EFTA-dómstólsins ekki til félagsdóms.
    Í Danmörku er heimildin til að leita álits EFTA-dómstólsins ekki látin ná til félagsdóms en Danir hafa nokkra sérstöðu þar sem þeir hafa tvenns konar úrlausnaraðila um mál vinnuréttarlegs eðlis. Þannig fer um mál um brot á kjarasamningum að þau fara fyrir samningsbundna gerðardóma, ,,faglig voldgift``, en ekki félagsdóm, en danski félagsdómurinn fjallar um ýmis önnur álitaefni. Þessir samningsbundnu gerðardómar eru sem sé ekki skilgreindir sem hefðbundnir félagsdómar í samræmi við hinn íslenska, heldur gerðardómar, svo sem má sjá af nafninu, og því hefur Dönum hreinlega ekki þótt ástæða til að fara þá leið sem er rætt um í frv. því að það verður að vera um dómstól að ræða og það er hinn íslenski félagsdómur. Hann er skilgreindur sem dómstóll. Það er því öðruvísi fyrirkomulag í danska vinnumálaréttinum en er hér á landi. Auk þess eru Danir í EB og þeir geta leitað eftir forúrskurðum hjá EB-dómstólnum sem eru bindandi. Og þetta hefur verið gert í vinnuréttardeilu, t.d. Danfossmálið 1989 sem er frægt mál og fjallaði um rétt til jafnra launa.
    Varðandi hinn íslenska félagsdóm var m.a. leitað eftir áliti dr. Þórs Vilhjálmssonar, fyrrv. hæstaréttardómara, sem nú situr í EFTA-dómstólnum. Með leyfi hæstv. forseta langar mig til að gera grein fyrir hans áliti. Ég tel rétt að gera það í heild sinni þó að hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson hafi gert grein fyrir hluta þess. Bréfið er dags. 3. des. 1993.
    ,,Að gefnu tilefni vil ég með bréfi þessu leitast við að ræða nokkru nánar en ég gerði á fundi allshn. 29. nóv. fyrri mgr. 2. gr. í frv. á þskj. 104 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Þar segir með sama hætti og segir í 1. og 2. mgr. 1. gr. : Getur félagsdómur leitað álits EFTA-dómstólsins um atriði mála sem eru rekin þar. Úrskurður þess efnis verður ekki kærður til Hæstaréttar.
    Er ástæða til að minna á verkefni þau sem félagsdómur hefur með höndum en um þau segir í 44. gr. laga nr. 80/1938 m.a.:
    Verkefni félagsdóms er:
    1. Að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á lögum þessum og tjóni sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.
    2. Að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.
    3. Að dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu a.m.k. þrír af dómendum því meðmæltir.``
    Í lögum nr. 94/1986, um kjarasamning opinberra starfsmanna, er sérstakur kafli, þ.e. IV. kafli, um félagsdóm. Þar er dómnum falið mikilvæg verkefni en vísa verður í 26. gr. laganna um einstök atriði.
    Í aðfaraorðum laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, segir m.a. að aðilarnir geri sér ljóst mikilvægi framþróunar í félagsmálum, þar á meðal jafnréttismálum karla og kvenna á Evrópska efnahagssvæðinu, og láta í ljós vilja sinn til að tryggja efnahagslegar og félagslegar framfarir, skapa skilyrði fyrir fullri atvinnu, bættum lífskjörum og bættum starfsskilyrðum.
    Í 18. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er fjallað um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna. Einn kafli þessa viðauka er um vinnurétt. Þar eru nefndar þrjár tilskipanir sem um skulu gilda ákvæði um hina svokölluðu altæku aðlögun. Hin fyrsta fjallar um samræmingu á lögum um hópuppsagnir. Um þetta atriði voru sett hér á landi lög nr. 95/1992, sem tóku gildi 1. jan. sl. Hin næsta er um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota. Um þetta gilda hér á landi lög nr. 88/1990, um ríkisábyrgð á launum. Loks er að nefna tilskipun um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar. Um þetta hafa verið sett lög nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.
    Mér sýnist að af þessu megi ráða að hugsanlegt sé að fyrir félagsdóm komi t.d. mál um hópuppsagnir. Getur þá staðið svo á að lögin sem byggð eru á reglum Evrópska efnahagssvæðisins séu ítarlegri en samningur stéttarfélags við atvinnuveitendur og þarf þá oft að skýra þau lög. Er ekki útilokað að þá væri æskilegt að leita til EFTA-dómstólsins um lögskýringu. Ég tel þess vegna óráðlegt að fella úr frv. á þskj. 104 ákvæði 1. mgr. 2. gr. um félagsdóm.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið felur í sér að félagsdómur getur óskað álits EFTA-dómstólsins með sama hætti og aðrir dómstólar samkvæmt 1. gr. og 2. mgr. 2. gr. Þó að ástæðulaust ætti að vera læt ég þess getið að álitsumleitun sú sem um ræðir í frv. á þskj. 104 er ekki áfrýjun til erlends dómstóls.``
    Í lokin er bent á þá brtt. er 1. minni hluti gerir að sinni tillögu um að 2. mgr. 2. gr. verði sjálfstæð grein, 3. gr. sem er svona lagatæknilegs eðlis.
    Þetta eru athyglisverðar ábendingar hjá Þór Vilhjálmssyni þó að vafalaust geti verið skiptar skoðanir á því hvort mál sem fara undir félagsdóm mundu fara þessa leið og þá hvaða mál. En ég vil ítreka það áður en ég lýk umræðunni um félagsdóm að ég tel það mikilvægt að dómurinn virði þá frumskyldu sína að leysa hratt úr málum þar sem um er að ræða mikla hagsmuni.
    Varðandi 3. brtt. þar sem er ráðgert að tekin verði upp sérregla í frv. um kostnað af öflun álits EFTA-dómstólsins eru ýmsir meinbugir. Í þeim efnum vil ég vekja athygli á að í tillögum 2. minni hluta er reglan sett þannig fram að málsaðilli sem óskar ekki sjálfur eftir að áliti EFTA-dómstólsins verði aflað í máli skuli aldrei bera aukakostnað af þeirri aðgerð. Í reglunni er hins vegar hvergi sagt hver eigi að bera þann kostnað, hvort það sé gagnaðilinn eða einhver annar. Hvernig ætti t.d. að beita þessari reglu ef hvorugur málsaðilanna vill að álits EFTA-dómstólsins verði aflað en dómari í málinu telur þess hins vegar þörf. Í nefndarálitinu er reyndar talað um ríkissjóð en brtt. sjálf svarar engu um hver ber kostnaðinn í slíku tilviki. Að auki felur reglan í sér að ef aðili biður ekki beinlínis um að slíks verði aflað, þá komist hann undan kostnaði algerlega án tillits til þess hvort það reynist málstað hans til góðs og einnig án tillits til þess hvort hann telji það fyrir sitt leyti æskilegt að álitið verði fengið. Hvort sem regla í þessum anda ætti rétt á sér eða ekki þyrfti a.m.k. að vanda betur til hennar og taka tillit til þeirra mismunandi aðstæðna sem gætu varðað beitingu hennar.
    Ég tel því réttara að hugað verði að þessu í samhengi við almennar reglur um réttaraðstoð við almenning sem mér er kunnugt um að eru til athugunar um þessar mundir á vegum dómsmrh. en ég hef rætt þessi mál sérstaklega við hæstv. dómsmrh. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson, þá vil ég láta það koma hér fram og að hæstv. dómsmrh. er tilbúinn til þess að láta kanna þennan þátt málsins sérstaklega sé þess óskað í nefnd þeirri sem hann hefur skipað sem skoðar almennar reglur varðandi réttaraðstoð.
    Virðulegi forseti. Ég vil árétta það að um þetta frv. hefur verið fjallað ítarlega í allshn. núna á tveimur þingum. Margir gestir hafa komið fyrir nefndina og leitað hefur verið eftir eins ítarlegum upplýsingum og unnt hefur verið. Margar umsagnir bárust og voru langflestar jákvæðar. Að lokum langar mig til þess að vitna í umsögn réttarfarsnefndar, með leyfi virðulegs forseta, en þar segir m.a.:
    ,,Þegar lagafrumvörp voru smíðuð fyrr á þessu ári í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu varðandi aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu voru þrír nefndarmenn í réttarfarsnefnd fengnir til aðstoðar um þau atriði í frv. sem snúa að réttarfari. Efni frv. um öflun álits EFTA-dómstólsins er meðal þeirra atriða sem nefndin hafði þannig óbein afskipti af. Réttarfarsnefnd telur af þessum ástæðum ekki þörf á að hún tjái sig frekar um þetta frv. en þess skal þó getið að nefndin hefur gætt sérstaklega að því að ákvæði frv. geti samrýmst gildandi löggjöf um dómstólaskipan og réttarfar og sér enga meinbugi í þeim efnum.``
    Er það von okkar í 1. minni hluta allshn., virðulegi forseti, að frv. þetta ásamt brtt. verði samþykkt sem fyrst hér á hinu háa Alþingi.