Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 15:53:39 (3890)


[15:53]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal vera stuttorður um þetta mál. Ég ætla mér reyndar ekki að fjalla um álit allshn. þó að ég taki undir það sem kemur fram í brtt. að það er áreiðanlega umhugsunarefni að leita megi álits á málum sem eru fyrir félagsdómi og ástæða til að hafa áhyggjur af þeim töfum sem af því geta stafað. Sömuleiðis vil ég taka undir þetta með lægri dómstig og tel að það væri að mörgu leyti skynsamlegra að byrja með æðsta dómstig eins og okkur ber skylda til.
    En ég stend fyrst og fremst upp og kveð mér hljóðs til að minna á það að í ítarlegri umræðu um EES-samningana og það sem þeim fylgdi, EFTA-samningana, töldum við ýmsir þingmenn hér að það bryti gegn stjórnarskrá Íslands að færa svo mikið vald úr landi sem sýndist ljóst af þeim samningum. Við töldum það engin smáatriði og töldum að stjórnarskráin ætti að njóta vafans og í raun væri Alþingi ekki heimilt að færa slíkt vald til stofnana erlendis. Mér sýnist að það frv. sem hér er staðfesti þetta. Að vísu er sagt að eingöngu sé heimild til að leita úrskurðar erlendis, en það kemur mjög greinilega fram í greinargerð með frv. að ekki er talið líklegt að gengið verði gegn slíkum úrskurðum. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa úr greinargerðinni:
    ,,Álitið á aðeins að vera ráðgefandi eins og segir í 1. mgr. 1. gr. og bindur það því ekki héraðsdómara við úrlausn máls þótt vissulega verði að telja að eftir því yrði að öðru jöfnu farið að því leyti sem úrlausnin veltur á álitaefninu.``
    Raunar var hér farið bakdyramegin að því að afhenda erlendum dómstóli vald til að dæma í málum einstaklinga og fyrirtækja hér á landi. Og þegar þess er jafnframt gætt að úrskurði má eflaust áfrýja til hins erlenda aðila ef annar hvor sættir sig ekki við úrlausnina hér heima, þá er ljóst að þeim úrskurði

sem þannig fæst verður ekki áfrýjað áfram. Þetta staðfestir að mínu mati það sem við sögðum að það er verið að færa vald úr landi þvert gegn skýlausum ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar.