Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 16:14:46 (3895)


[16:14]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér finnst þetta frv. vera ákaflega sorglegt. Það sýnir átakanlega mikinn aumingjaskap. Sem aðilar að Evrópsku efnahagssvæði verðum við, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að undirgangast þær skuldbindingar sem við illu heilli tókum að okkur með því að samþykkja aðildina. Þar er um að ræða framsal á valdi sem alveg tvímælalaust samrýmist ekki íslensku stjórnarskránni þó að menn hafi látið sig hafa það að samþykkja EES-samninginn og kyngt því. Það eru náttúrlega ákaflega sóðaleg vinnubrögð og mikið áhyggjuefni.
    En það er ekki nóg með það að við tökum á okkur þær skyldur sem aðildin að Evrópsku efnahagssvæði leggur okkur á herðar. Í þessu frv. er gengið talsvert miklu lengra en samningurinn gerir kröfu til. Það er ekki látið nægja að Hæstiréttur taki við fyrirmælum eða leiti ráðgjafar eins og þarna er svo smekklega orðað en jafnframt tekið fram að sú ráðgjöf muni náttúrlega ráða hinum endanlega dómi þannig að þetta er alger kálfsrófuleikur sem hæstv. dómsmrh. hefur haft hér í frammi og það er engan veginn sem hér er um forsvaranlegar vinnureglur að ræða. Og þegar úrskurður EFTA-dómstólsins verður hinn endanlegi dómur þá er að sjálfsögðu löggjafarvaldinu afsalað úr landi.
    Í þessu frv. er sem sagt héraðsdómi svo og félagsdómi heimilað að leita álits EFTA-dómstólsins og það er alger óþarfi samkvæmt EES-samningnum. Hv. 2. minni hluti hv. allshn. hefur gert glögga grein fyrir þessu í nefndaráliti og í ágætri ræðu gerði hv. 2. þm. Suðurl. Jón Helgason glögga grein fyrir málinu og ég þarf svo sem ekki miklu við það að bæta. En ég vil þá láta þess getið að utanrmn. skoðaði þetta mál eftir að allshn. skilaði áliti og við fengum á okkar fund Markús Sigurbjörnsson úr háskólanum en það kom ekkert fram á þeim fundi utanrmn. að mínum dómi sem hnekkti þeirri niðurstöðu sem 2. minni hluti hafði komist að í allshn. Röksemdin að verið sé að létta á Hæstarétti með því að vísa málum strax fyrir héraðsdómi til EFTA-dómstólsins finnst mér ekki vera sterk.
    Það sem þarna er að baki er það að menn vilja fremur nota EFTA-dómstólinn en Hæstarétt Íslands. Menn vilja heldur láta EFTA-dómstólinn dæma meira en minna. Þeir treysta betur EFTA-dómstólnum en Hæstarétti Íslands og þeirra þjóðernishyggju, þeirra sjálfstæðisþrá er svo komið að þeir vilja heldur hlíta lögsögu útlendinga en Íslendinga. Þetta finnst mér alveg forkastanlegt sjónarmið og hryggilegt að horfa upp á jafnágætan mann og hæstv. dómsmrh. halda svona sjónarmiðum fram.
    Það er verið að tala um það að Hæstiréttur hafi mikið að gera. Það er að vísu rétt og hæstaréttardómarar hafa tekið sér yfirvinnugreiðslur vegna þess að þeir hafa svo mikið að gera. En ég held að okkur væri sæmra að bæta þá starfsaðstöðu Hæstaréttar þannig að hann gæti sinnt þeim störfum sem honum er ætlað samkvæmt íslenskum lögum. Ég vil gjarnan að Hæstiréttur komist í betra húsnæði. Ég er hins vegar ekki að mæla með því að byggja þetta ferlíki sem mönnum hefur dottið í hug hér uppi á Arnarhól á bílastæði Arnarhvols. Þar finnst mér ekki vera rétti staðurinn fyrir húsið, a.m.k. ekki af þessari stærð, en það er vafalaust hægt að finna hentugri stað í borginni eða hentugt húsnæði hér í borginni þar sem hægt er að útbúa viðunandi starfsaðstöðu fyrir Hæstarétt.
    Á sínum tíma hafði ég og lét í ljósi efasemdir um þá nýskipan að fjölga dómendum í Hæstarétti. Með þessari fjölgun dómenda óttaðist ég að samfellan í dómum Hæstaréttar mundi raskast. Þetta var gert þrátt fyrir það og grunur minn hefur frekar styrkst en hitt á þeim reynslutíma sem kominn er. En Hæstiréttur hefur verið stækkaður, þ.e. það hefur verið fjölgað dómendum í Hæstarétti nú þegar. Ég sé ekki mikla annmarka á því úr því að á annað borð var farið að fjölga dómendum þó að þeim sé fjölgað eitthvað meira. Það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að það verður miklu dýrara að reka mál fyrir dómstóli EFTA heldur en fyrir íslenskum dómstólum þannig að kostnaður við það að bæta aðstöðu Hæstaréttar er minni en sá kostnaður sem af því hlytist að senda málin út. Mér finnst að við eigum að reyna að búa að Hæstarétti og íslenska dómskerfinu þannig að það geti unnið skilvirkt og öruggt og ábyggilegt starf og við eigum ekki að vera að reiða okkur á það að útlendingar taki af okkur ómakið og dæmi okkur. Það er hörmulegt upp á að horfa þann aumingjaskap sem birtist í lagasetningu eins og þessari.
    Það er auðvitað þarfleysa líka að setja félagsdóm undir þessi ákvæði. Ekki er það gert í Finnlandi, reyndar ekki Danmörku heldur, og ef Finnar komast upp með það því skyldum við ekki gera það líka?
    Mér er það ljóst að Alþingi er tilneytt að samþykkja hluta þessa frv. Alþingi er ekki lengur frjálst í löggjafarstarfi sínu. Það er líka stjórnarskrárbrot en þetta frv. gengur sem sagt miklu lengra en skyldur okkar við Evrópskt efnahagssvæði bjóða og það er rangt að mínum dómi að vinna svo. Ég er alfarið á móti þeim undirlægjuhætti sem birtist í þessu frv. Við eigum að hafa manndáð til þess að reka okkar eigin mál innan lands og fá þau dæmd af íslenskum dómstólum eftir íslenskum lögum.
    Okkur hefur ekki á undanförnum öldum orðið það neinn gæfuvegur að óska eftir erlendri íhlutun í dómsmál á Íslandi. Hér fyrr í kaþólskunni komust menn að þeirri niðurstöðu að þar sem greindi á mannalög og guðslög þá skyldu guðslög ráða og við erum komin í svipaða stöðu nú, þar sem greinir á íslensk lög og evrópskar réttarvenjur eða hugdettur þá skulu hugdettur útlendinganna vera æðri íslenskum lögum.
    Í stjórnarskránni er það skýlaust tekið fram í 2. gr. að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið. Í 61. gr. stjórnarskrárinnar er það skýlaust tekið fram að dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum og þar er að sjálfsögðu átt við íslensk lög. Bæði þessi atriði eru brotin og hvorugt þeirra samræmist samningunum um Evrópskt efnahagssvæði, því miður. Ég er alfarið á móti þeim atriðum þessa frv., frú forseti, sem ganga lengra en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði neyðir okkur og ég tel að við Íslendingar eigum að hafa þann metnað að stjórna okkur sjálfir.