Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 16:30:31 (3897)


[16:30]
     Páll Pétursson (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Mér var það satt að segja ekki ljóst að hæstv. dómsmrh. væri farinn úr húsinu. Ég hefði gert athugasemd við það ef mér hefði verið það ljóst þegar ég flutti ræðu mína. Ég taldi bara víst að hann væri hér í hliðarherbergjum ellegar þá í kaffistofu þar sem hann gat fylgst með umræðum og því gerði ég ekki athugasemdir. Ég tel hins vegar algerlega fráleitt að hugsa sér að halda áfram þessum umræðum og bjóða þingmönnum upp á það að flytja mál sitt að hæstv. dómsmrh. fjarstöddum. Og ég vil gera það að tillögu minni að þessu máli verði frestað þangað til hæstv. dómsmrh. sér sér fært vegna annarra starfa að vera viðlátinn í umræðuna og standa þar fyrir máli sínu. Þetta er mál sem er ákaflega vont og ég svo sem skil hæstv. dómsmrh. þó hann kæri sig ekkert um að sitja hér undir ákúrum fyrir verk eins og þetta sem hér er verið að vinna. Það er ábyggilega ekkert skemmtilegt að vera dómsmrh. í ríkisstjórn í lýðveldinu Íslandi og leggja fram og þurfa að verja eða finnast hann þurfa að verja frv. sem er þvílíkur óskapnaður eins og þetta. Og ég legg til, frú forseti, að málinu verði frestað þar til annaðhvort síðar á fundinum að dómsmrh. geti verið við eða þá til annars fundar og eitthvað annað sem hér er á dagskrá tekið fyrir á meðan.