Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 16:44:14 (3901)


[16:44]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hæstv. samgrh. sjái sér fært að vera við þessa umræðu því að ég þarf aðeins að eiga við hann orðastað vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram og þeirrar vinnu sem átt hefur sér stað nú í vetur í samgn. þingsins. Ég vænti þess að hann heyri mál mitt þó að ég sjái hann ekki hér, hæstv. ráðherra, en ég vildi byrja á því að segja honum að ég kunni illa við það þegar við ræddum þetta mál síðast, ég man nú ekki alveg hvaða dag það var í síðustu viku, skiptir ekki meginmáli, en ég skynjaði það svo að hann væri hér með hálfgerð ónot út í okkur minni hluta nefndarinnar og talaði í þeirri tóntegund sem ég á erfitt með að sætta mig við. Ég vil segja hæstv. ráðherra að það sé ekki maklegt að víkja þannig að okkur minni hluta samgn. vegna þess að staðreynd mála er sú að við höfum verið iðnir við það í allan vetur og sótt dyggilega fundi samgn. og gert það raunverulega mögulegt að þessi nefnd þingsins, samgn. þingsins gæti starfað vegna þess að oftast hefur það verið svo að það hefur verið minni hlutinn eða þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hafa fyllt fundaherbergi samgn. ásamt formanni nefndarinnar. Ég vil nú koma því vinsamlega á framfæri við hæstv. ráðherra að hann geri sér grein fyrir því að það mundi miða skammt að koma málum hans í höfn ef stjórnarandstaðan hefði ekki hagað sér á þann hátt.
    Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur farið ítarlega yfir þetta mál frá hendi okkar minni hlutans þannig að ég get þess vegna sparað mér þau orðin því að það er ástæðulaust að fara að endurtaka það en ég vildi einnig segja við hæstv. samgrh. að í mínum huga er það engum vafa undirorpið að þetta mál, þetta frv. til hafnalaga, þarfnast svo sannarlega betri yfirferðar og meiri vinnu en þegar hefur farið fram. Það er ekki okkur alþingismönnum bjóðandi að afgreiða þetta mál á þennan hátt eins og það liggur nú hér fyrir Alþingi. Þar eru svo margir óvissuþættir og fjöldi spurninga sem ósvarað er. Við í nefndinni höfum margítrekað spurt um ákveðna þætti er þetta mál varða og ekki fengið svör við, hvort sem það hafa verið nefndarmenn eða þá aðila sem þarna hafa verið kvaddir til og því þarf ráðherra hér og nú að svara og eyða þeirri óvissu sem enn er uppi um þetta mál. Ég held að það væri því skynsamlegast fyrir hæstv. ráðherra að hægja á afgreiðslu málsins og gefa þingnefndinni betri tíma til þess að fjalla um það og ég tel líka að það væri nauðsynlegt að hæstv. ráðherra gerði það einnig sjálfur, kallaði þetta mál inn á borð til sín og legði meiri vinnu í að fara yfir það heldur en ég hef grun um að hann hafi gert þegar ég les frv. ( SJS: Það er fínt þetta með hlutafélögin.) Það er fínt þetta með hlutafélögin, það er rétt, en það er algerlega nægur tími til þess, hæstv. ráðherra, að afgreiða þetta mál hér út ef meiri hluti er fyrir því fyrir vorið þó að menn mundu hægja á því og sníða af því þá augljósu annmarka sem á því eru.
    Stjórn Hafnasambandsins kom á síðasta fund nefndarinnar. Hún tók mjög undir það að nauðsynlegt væri að skoða hér margt betur og það sem kom okkur nefndarmönnum mjög á óvart í þessu var það að stjórn Hafnasambandsins virðist alls ekki hafa verið höfð með í ráðum við smíði þessa frv. Það kom mér mjög á óvart að menn skyldu ganga svo rösklega fram hjá stjórn Hafnasambandsins við þessa smíði. Það má segja sem svo að það hafi verið nægjanlegur mannafli við að semja þetta og það er vissulega rétt. En þessi nefnd var skipuð 28. ágúst 1991 og það er rétt fyrir þingmenn að ég rifji það upp hverjir þetta voru sem sátu í þessari nefnd og unnu þessa lagasmíð. Þar er Árni M. Mathiesen, Guðmundur Einarsson, aðstoðarmaður iðnrh., Hermann Guðjónsson hafnamálastjóri, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands ísl. útvegsmanna, Ólafur Steinar Valdimarsson ráðuneytisstjóri og Sturla Böðvarsson alþm. og formaður Hafnasambands sveitarfélaga sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Nokkuð finnst mér þetta svona við fyrsta yfirlestur án þess að þurfa nú að glugga mikið í kjörskrána að liðið sé nú býsna einlitt. ( KHG: Það er ekki í kjördæmi hjá þér?) Nei, þó ég fari ekki yfir hana þá þykist ég sjá það, hv. þm., að liðið sé býnsa einlitt. En mér finnst það býsna merkilegt, og formaður þessarar nefndar er hv. þm. Sturla Böðvarsson, formaður stjórnar Hafnasambands sveitarfélaga, að það skuli svo koma upp að ekki hafi verið haft samráð við stjórn Hafnasambandsins um þessa smíð. Mér finnst það mjög merkilegt. ( Gripið fram í: Það þarf margt að íhuga.) Það er rétt, það þarf margt að íhuga og það sýnir okkur betur en margt annað hversu málið er illa undirbúið.
    Nú vil ég biðja hæstv. samgrh. að leggja við hlustirnar. Kannski heyrir hann enn þó ég sjái hann ekki --- en til marks um það, hæstv. samgrh., hversu þetta mál er illa unnið að okkur finnst í minni hlutanum er að hvorki meira né minna en um 30 brtt. er búið að gera á þessu frv. og það ekki af minni hlutanum heldur bara af meiri hlutanum. Svo eru menn að tala um að hér sé einhver völundarsmíð á ferðinni. ( Gripið fram í: Og búið að boða fleiri.) Og búið að boða fleiri. ( TIO: Hvernig er með minni hlutann, flytur hann engar brtt.?) Minni hlutinn? Jú. Hann flytur þær en það er meiri hlutinn sem er að flytja brtt. við stjfrv. sem eru hvorki meira né minna en yfir 30 talsins og þetta er frv. sem meiri hlutinn er að gorta af og telur hina bestu listasmíð. ( PJ: Þær eru yfir 20.) Þær eru 26 og búið að boða fleiri, hv. formaður nefndarinnar, Pálmi Jónsson. Það mun því sannast þegar allt kemur til alls að brtt. munu vera yfir 30 við þessa listasmíð sem stjórnarflokkarnir hafa verið að dásama hvað hafi tekist vel til.
    Ég hélt líka, hæstv. samgrh., að menn væru orðnir býsna brenndir nú síðustu daga af þeirri umvöndun sem við höfum orðið fyrir hér alþingismenn og kvartað yfir því að við skulum ekki vanda okkur meira við þá lagasmíð sem hér fer fram, að við skulum ekki tala það skýrt að það skiljist hvað Alþingi vill. Þess vegna trúi ég vart öðru en að hæstv. samgrh. beiti sér fyrir því nú og verði við þeirri eindregnu ósk að þetta mál verði skoðað að nýju í ráðuneytinu eða þá a.m.k. að nefndinni verði gefið aukið svigrúm til þess að laga.
    Ég vil aðeins víkja að einum þætti þessa máls sem er mjög nauðsynlegt að fá svör við en við höfum ekki fengið í nefndinni og þess vegna vænti ég þess að hæstv. ráðherra gefi okkur greið svör. Það er um þetta sérstaka 25% álag á vörugjaldið sem er náttúrlega ekkert annað en ný skattlagning. Við kippum okkur ekki upp við það þó við verðum vör við að ríkisstjórnin sé að leggja á nýja skatta. Við yrðum frekar undrandi ef við sæjum eitthvert frv. sem ekki boðaði nýja skatta. En það sem verra er er að þessi skattlagning kemur svo misþungt niður að það er óásættanlegt. Þessi skattlagning leggst, hæstv. ráðherra, nú bið ég þig að leggja við hlustirnar einu sinni enn, allt að því þrisvar sinnum og allt upp í fimm til sex sinnum á sömu vöruna. Hvorki meira né minna. Hæstv. ráðherra hefur þá eitthvað breyst ef hann sættir sig við það að íbúar í hans kjördæmi, í Norðurlandskjördæmi eystra, hvort sem þeir búa í Hrísey eða Grímsey eða einhvers staðar annars staðar, þurfi að borga þetta sérstaka álag fimm og jafnvel sex sinnum á sömu vöruna. Þetta er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Ég trúi því ekki að það sé meirihlutavilji á Alþingi fyrir því að mismuna fólki jafnfreklega og hér er gert ráð fyrir. Það er algengt að þetta leggist þrisvar til fjórum sinnum á ýmsar hafnir eða á íbúa ákveðinna svæða en það eru líka dæmi um að það gæti gerst svo oft.
    Þetta er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Ef ríkisstjórnin ætlar sér að fara að leggja slíkan skatt á þá fyndist mér að það hefði verið meiri mannsbragur á ríkisstjórninni að kveða svo á að óheimilt sé að leggja þennan skatt á nema í eitt skipti.
    Í 2. lið 11. gr. segir: ,,Vörugjald af vörum sem umskipað er, lestaðar eða losaðar í höfn, þar á meðal aflagjald sem er vörugjald af sjávarafla sem lagður er á land á hafnarsvæðinu.``
    Í hvert sinn sem vöru er skipað upp eða um borð leggst þetta gjald á. Það er alveg greinilegt og kveðið skýrt á um að svo skuli vera.
    Ég endurtek það að ég vil ekki trúa því að hæstv. ráðherra geti ekki lokið upp augum sínum og séð það misrétti og reyni þá að koma viti í þetta. Auðvitað veit ég að það er ekki hægt að taka skattinn frá þeim. Skattinn verða þeir að hafa. Það er alveg augljóst í þessu sem öðru. Alltaf þarf að vera að leggja á skatta. En mér fyndist þó að þeir gætu gert það og kveðið á um það skýrt og afmarkað að óheimilt sé að leggja þennan skatt nema einu sinni á hverja vörutegund.
    Það er líka dálítið merkilegt ef maður fer að hugsa um ferjurnar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann vilji mótmæla því sem ég hef sagt um það hversu þessi skattstofn getur komið misjafnlega niður. Ég spyr enn og ítreka: Er það ekki alveg klárt, eins og stendur í lögunum, að í hvert skipti sem vara fer um borð í ferju, hvort sem það er í Reykjavíkurhöfn eða einhvers staðar annars staðar, þá á að leggja skattinn á og svo aftur þegar varan fer frá borði?
    Í lögunum er þetta engin spurning. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta ekki rétt skilið?
    Svo segir einnig í 8. gr. frv.: ,,Hafnir geta verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra.``
    Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað er hér verið að segja? Hér þarf að tala skýru máli. Hvaða starfsemi tengist starfsemi hafna? Ég spyr: Er það rétt að hér sé verið að tala um útgerð? Er það rétt að hér sé verið að tala um fiskvinnslu? Er það rétt að hér sé verið að tala um fiskmarkaði? Er það rétt að hafnirnar geti líka orðið hluthafar í olíufélögunum? Og ég spyr: Er það líka rétt að hafnirnar geti orðið aðilar að skipafélögum? Geta þá hafnirnar orðið t.d. hluthafar í Eimskipafélagi Íslands? Er það meiningin?
    Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að svo sé. En ég segi það enn og aftur að hér verða að liggja

fyrir algjörlega skýr ákvæði um þetta. Við hverja er átt? Það er í mínum huga mjög óljóst að orða þetta á þann hátt að segja að hafnir geti verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. Þetta getur held ég ekki verið óákveðnara, hæstv. ráðherra.
    Það segir einnig í 14. gr.: ,,Hafnarsjóðir skulu undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða.``
    Ef þetta nær allt fram, ef draumur ráðherrans verður að veruleika og frv. verður samþykkt, þessi listasmíð, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Liggur það ekki alveg ljóst fyrir hvernig verður farið með skattalega meðferð þessara fyrirtækja? Er ekki búið að kryfja það mál algjörlega til mergjar þegar þessi fyrirtæki fara að verða til? Það væri gaman að spyrja hæstv. ráðherra að því og fá svör við því hvað sérfræðingar ráðuneytisins í skattamálum hafa sagt um þann þáttinn. Mér sýnist að hér sé vakin upp æðimikil óvissa, svo ekki sé meira sagt.
    Ég þarf ekki að segja mikið meira í bili um þetta vegna þess að yfir þetta hefur verið farið mjög vel af öðrum fulltrúum í nefndinni, eins og ég sagði, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og öðrum sem hafa talað og get því lokið máli mínu. En ég endurtek samt að ég skora á hæstv. ráðherra að íhuga það hvort ekki sé rétt að setja frekari vinnu í þetta mál til þess að það liggi ljósar fyrir hvað hér er verið að fara. Ég fullyrði að menn eru ekkert að falla á tíma í því máli. Við höfum nægan tíma til þess að fara betur yfir þetta mál þannig að það nái afgreiðslu fyrir vorið. Ég sé ekki að það liggi svo rosalega á að Reykjavíkurhöfn geti orðið hluthafi í Eimskipafélaginu að það þoli ekki að bíða til vorsins. Ég get ekki ímyndað mér annað. Ég segi líka það sama með þá Norðurlandskjördæmi eystra. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir --- ég vil a.m.k. gjarnan geta unnt þeim þess að bíða með það eitthvað aðeins lengur að þurfa að borga þetta gjald, þetta sérstaka álag, fimm eða sex sinnum á meðan þeir sem hér eru þurfa aðeins að borga það einu sinni. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að koma hér upp á eftir mér og svara þessum spurningum skýrt og skilmerkilega.