Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:03:59 (3902)


[17:03]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég á svolítið erfitt með að skilja það hvernig hv. þm. hugsar sér að vörugjald leggist fimm eða sex sinnum á sömu vöruna. Það er eitthvert jó-jó í því sem erfitt er að skýra nema hugmyndin sé með því að tala um flóabáta á borð við Akraborgina. Bílstjórar vöruflutningabíla telja það hagræði að taka Akraborgina fremur en að aka fyrir Hvalfjörð sem hefur engin áhrif á flutningsgjaldið. Það er því einhver misskilningur að það lendi að síðustu á neytanda heldur hlýtur það að koma inn í mat flutningabílstjórans hvernig hann telur skynsamlegast að komast fyrir Hvalfjörð.
    Á hinn bóginn er hv. þm. það fullkunnugt að formaður nefndarinnar hefur boðið það fram að nefndin hittist milli 2. og 3. umr. til að ræða sérstaklega um álagningu vörugjalds með ferjum þannig að ekki þarf um það að ræða. Hins vegar er það rétt hjá hv. þm. að hafnargjöldin leggjast á vörurnar ef vörunum er skipað upp á ákveðnum höfnum. Þá leggjast hafnargjöldin á í hvert skipti og eins ef umskipun á sér stað. Það er því ekkert sérstakt með vörugjöldin í því sambandi.
    Í sambandi við það að hafnir geti orðið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra hygg ég að það mál sé mjög rætt í samgn. Höfundar frv. töluðu sérstaklega um fiskmarkaði en auðvitað er sjálfsagt að það verði skilgreint nánar í reglugerð.