Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:10:11 (3905)


[17:10]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Við þurfum ekki að vera að þessu orðaskaki hér. Ég vil bara ítreka að það stendur sem ég hef sagt. Ég var ekki að tala um Vestfirði, hæstv. ráðherra, ég var að tala um kjördæmi hæstv. ráðherra sjálfs. Það er staðreynd að þetta gjald getur lagst allt að fimm til sex sinnum á vöruna. Mér er sama hvað hæstv. ráðherra hristir höfuðið ótt og títt, hann má passa að meiða sig ekki, en þetta er engu að síður staðreyndin og þetta mun koma fram. ( Samgrh.: Af hverju rekur þingmaðurinn það ekki?) Ég gæti gert það. Ég vona að hæstv. ráðherra sé það ljóst að t.d. oft og tíðum þegar vara kemur til landsins þá er henni ekki skipað upp í Reykjavík. Það kom mér býsna mikið á óvart þegar fulltrúar Hafnasambandsins upplýstu nefndarmenn um að það væri. Það kemur oft fyrir að vöru er skipað upp í Hafnarfirði. ( Samgrh.: Jafnvel á Akureyri.) Við skulum bara taka Hafnarfjörð. Síðan er henni ekið til Reykjavíkur. Þar er henni skipað út í skip til þess að fara með út á land. Þarna er komið tvisvar sinnum. Þegar henni er skipað upp aftur úti á landi, hvar sem það er, hvort sem það er Ísafjörður, Akureyri eða einhver annar staður, þá er aftur tekið af henni gjaldið. Þá er það komið þrisvar sinnum. Svo fer hún aftur um borð í skip. ( EgJ: Nei.) Nei, það er nú hart þegar dreifbýlisþingmenn vita ekki einu sinni að svo tíðar ferðir með vöruflutninga gerast. Meira að segja gerist það í kjördæmi hv. þm. Egils Jónssonar. Þetta er því alveg á tæru, hæstv. ráðherra. Svona gerist þetta. ( EgJ: Þetta gerist ekki nema hv. þm. eigi skip. Svona vitleysa gerðist ekki nema hv. þm. ætti skipið sjálfur.) Ég á ekki skip en mér sýnist að frekar væri ástæða til þess að ætla að höfundar frv. og ríkisstjórnin mundu ætla sér að eiga skip til að hafa eitthvað út úr þessu. En það er ekki meiningin því að það eru ekki þeir sem borga skattinn. Það eru íbúar viðkomandi svæða, hv. formaður nefndarinnar, og það hélt ég að honum væri ljóst.