Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:39:46 (3911)


[17:39]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af orðum hv. 6. þm. Reykn., Jóns H. Gunnarssonar, vil ég taka það fram að það er kannski ekki alveg rétt skilið að ég hafi haft þungar áhyggjur af þessu, hv. þm., með hlutafélögin

að hafnir geti orðið hluthafar í fyrirtækjum með skylda atvinnustarfsemi. Það var ekki bara það að ég hefði áhyggjur af því heldur fremur hinu hvaða fyrirtæki er verið að tala um. Það var það sem ég var að gagnrýna að væri ekki nógu skýrt kveðið á um. Er verið að tala um að hafnir geti orðið hluthafar í fiskmörkuðum? Er verið að tala um að þær geti orðið hluthafar í skipafélögum? Olíufélögum? Hver verður sá aðili sem kveður upp úr með slíkt? Það er þetta sem ég er að finna að að er ekki nógu skýrt kveðið á um og svona eigum við ekki að ganga frá lagasetningu.
    Ég vil einnig, af því ég er kominn hér upp, og menn hafa verið að draga það í efa og ekki síst hæstv. ráðherra, um þetta svokallaða 25% álag á vörugjaldið, að ég færi rétt með þegar ég sagði að þetta gæti lagst á allt að fimm til sex sinnum á suma vöruflokka og það í hans kjördæmi. Því vil ég bara nota tækifærið og segja hæstv. ráðherra frá því hvernig þetta gerist. Það gerist þannig að þegar varan kemur til Reykjavíkur þá er lagt á hana gjald. Þegar henni er skipað út frá Reykjavík er gjaldið lagt aftur á. Þegar henni er skipað í land á Akureyri er gjaldið enn lagt á. Þegar henni er skipað um borð frá Akureyri á leið út í Grímsey þá er gjaldið lagt enn og aftur á og þegar varan er tekin í land í Grímsey þá er gjaldið enn og aftur lagt á. Þannig að hér er ég að taka dæmi þar sem þetta vörugjald er fimm sinnum lagt á sömu vöruna í kjördæmi hæstv. ráðherra. Og ætli ég fyndi ekki svipað dæmi í kjördæmi hv. þm. Egils Jónsonar þó hann væri ekki búinn að átta sig á stöðu mála. ( EgJ: Þú sagðir sex sinnum.) Ég sagði fimm til sex sinnum. Ég gæti tekið það dæmi líka.