Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 18:50:04 (3919)


[18:50]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Við ræðum hér mál sem að mínu mati er mjög stórt. Það er hluti af þessum EES-samningi eða afleiðing hans, hluti af þessum samningi sem illu heilli var samþykktur hér á Alþingi á síðasta ári. Með þessum samningi flytjum við að stórum hluta löggjafarvaldið úr landi. Við þurfum að lögfesta í stórum stíl ýmsar lagareglur sem EB ákveður, eða Evrópusambandið eins og maður þarf að venja sig á að nota.
    Það var látið að því liggja á sínum tíma að við gætum haft áhrif á lagasetningu innan EES og það er meira að segja enn talað um það að við getum haft áhrif. En það er auðvitað tóm blekking eins og svo margt annað í sambandi við þennan samning nema þá að með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn og það er algjörlega út í bláinn að láta sér detta í hug að Íslendingar geti fylgst með öllu á viðhlítandi hátt að því er varðar lagasetningu á hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess að það er EB eða Evrópusambandið sem hefur þar tögl og hagldir og frumkvæði á þessu sviði.
    Ég vil benda á að það eru yfir 400 gerðir sem hafa verið samþykktar eftir að gengið var frá samningnum þannig að það eru geysimörg mál sem eiga eftir að koma fyrir Alþingi og Alþingi Íslendinga hefur ekki komið nærri. Og eftir því sem fréttir herma, þá þurfa þessar gerðir að svo miklu leyti sem lögfestingar þarf við að vera búnar að koma fyrir Alþingi fyrir 1. júlí. Það má vel vera að eitthvað af þessum gerðum geti verið settar með reglugerðarákvæðum svo mikið sem Alþingi hefur afsalað sér af löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins hér á landi sem og til erlendra aðila.
    En það er ekki bara löggjafarvaldið sem er að stórum hluta komið úr höndum Alþingis heldur er

það dómsvaldið eins og kemur fram í samningnum milli EFTA-ríkjanna sem birtur var í Stjórnartíðindum núna í desember 1993 og vitnað er til hér í 1. gr. þessa frv. Að mínu mati og margra annarra var þar um brot á stjórnarskrá að ræða, mjög skýrt brot á stjórnarskrá að ræða, samningurinn um stofnun þessa dómstóls og það hlutverk sem hann á að hafa að því er varðar Ísland. Það er brot á íslensku stjórnarskránni.
    Hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan að það væri á misskilningi byggt að það væri brot á íslensku stjórnarskránni. Það er hans skoðun. Ég vil meina að það sé misskilningur af hans hálfu að halda því fram að það sé ekki brot á stjórnarskránni vegna þess að það er mjög mikill vafi. Það var mikill vafi, menn voru ekki á sama máli um það hvort um brot væri að ræða á stjórnarskránni og sá vafi er enn til staðar. Að mínu mati á vafinn að vera stjórnarskránni í vil, þ.e. stjórnarskráin á að njóta vafans þannig að ég tel að það sé miklu fremur hægt að tala um misskilning af hálfu hæstv. dómsmrh. heldur en hinna, þeirra sem telja að þessi dómstóll og það hlutverk sem honum er ætlað stríði gegn íslensku stjórnarskránni. Ég ætla hins vegar ekki að hafa mörg orð um það. Ég gæti það mjög gjarnan ef ég teldi rétt að ræða það mál hér. Ég hef haldið margar ræður um þetta mál og ítarlegar. Hér var af síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Austurl., vitnað til greinargerðar sem þingmenn hafa undir höndum og get ég vísað til þess sem hann las þar upp og ætla ég ekki að fjalla frekar um þetta atriði. Ég vildi bara vekja athygli á því að það var og er mikill vafi í þessu sambandi þannig að það er ekkert hægt að tala um að það sé misskilningur af hálfu þeirra aðila sem hafa uppi aðra skoðunina og hinir hafi rétt fyrir sér. Mér þykir það ótrúlegt. En, virðulegi forseti, ég ætla ekki að ræða það mál sérstaklega hérna, það hef ég gert áður.
    Eitt af því sem talað var um að því er varðaði þetta frv. á þskj. 104 sem við nú fjöllum um, sem er í raun framhald af samþykkt meiri hlutans hér á Alþingi varðandi samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, þá er því haldið fram að það skipti höfuðmáli að þarna sé ekki um bindandi úrskurði að ræða. Ég lít nú svo á að það sé nánast um bindandi úrskurð að ræða og er alveg sammála þeim sem hér hafa rætt um þetta mál og litið svo á að það sé nánast ekki um annað að gera fyrir dómstólana en að taka fullt mark á því sem þarna kemur fram. Ég lít svo á, eins og reyndar kemur fram í greinargerð með frv. og menn hafa rætt hér áður, að það sé nánast ógerningur fyrir íslenska dómstóla annað en taka mark á þeim úrskurði sem þarna kemur fram. Og í raun er það innifalið í 6. gr. laganna um Evrópskt efnahagssvæði að allir dómar Evrópudómstólsins og þeirra túlkanir, það er það sem ræður þannig að þó að EFTA-dómstóllinn sé nú til staðar, þá er það í raun og veru E-dómstóll eins og hann heitir núna Evrópudómstóllinn. Það er hann sem ræður hvernig þessar túlkanir íslenskra dómstóla munu verða.
    Varðandi þetta frv. þá hafa hv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason, og hv. 9. þm. Reykn., Anna Ólafsdóttir Björnsson, gert grein fyrir áliti 2. minni hluta og get ég lýst því að ég sé sammála þeirra áliti og þarf ég kannski ekki að fara mörgum orðum um það og ætla mér ekki að gera það hér, en það eru samt nokkur atriði sem ég ætla að gera að umtalsefni sem mér fannst alls ekki nógu skýrt. Það var aðeins minnst á það hér áðan varðandi kostnað við þetta allt saman, þ.e. kostnað við það að leita álits EFTA-dómstólsins og hverjir bera þann kostnað. Eins og reyndar hefur komið fram hér þá er ákveðin brtt. frá 2. minni hluta sem ég mun styðja. En það eru nokkur atriði sem mér finnst mjög óljós og gat ég alls ekki skilið á þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar hvernig þetta muni eiginlega geta átt sér stað og finnst mér alveg nauðsynlegt að Alþingi geri sér grein fyrir því hvernig þetta muni vera greitt og hver beri þennan kostnað. Ég sé það á þeim fylgiskjölum sem hér eru í nál. 2. minni hluta á þskj. 421 að þá eru að því er mér skilst drög að reglum fyrir dómstólinn. Mér skilst að þetta séu samt enn drög. Í 27. gr. --- sem þar er prentuð á ensku að vísu og þykir mér það mjög slæmt að það skuli ekki vera hægt að gera sér grein fyrir þessu máli öðruvísi en að þurfa að lesa á ensku --- þar kemur fram að það er miðað við að hægt sé að leggja fram málið á íslensku ef það er héðan eftir því sem mér skilst á þessu og að það eigi að þýða þau skjöl sem berast. Og það sama gildir ef skjöl berast sem tengjast málinu og eins ef aðilar vilja vera með munnlegan málflutning, þá þurfi að sjá fyrir þýðingum. Maður sér strax fyrir sér að þarna er um gífurlega dýrt ferli að ræða, þ.e. það hlýtur að vera ákaflega dýrt að útvega þýðingar og sérstaklega geri ég ráð fyrir að sé dýrt fyrir okkur Íslendinga því að það eru ekki svo margir sem geta þýtt erlendis. Við þyrftum að sjálfsögðu að útvega túlka héðan sem gætu túlkað yfir á íslensku eða á milli þessara tveggja mála, ensku og íslensku eins og þarna er gert ráð fyrir. Þetta er því gífurlega dýrt að því er mér sýnist og þá er spurningin, hver ber allan þennan kostnað? Það hlýtur að vera að nefndin hafi farið ofan í þetta mál að meta nokkurn veginn hvað þarna gæti verið á ferðinni og þá hlýtur að vera hægt að miða við þann kostnað sem nú er á málinu t.d. fyrir Evrópudómstólnum. Þetta hlýtur að vera eitthvað samsvarandi. Síðan er í 5. lið þessarar 27. gr. talað um að álit dómstólsins skuli vera bæði á ensku og svo á því máli sem málið er lagt fyrir á í upphafsdómstólnum, ef ég skil þetta allt saman rétt. Þetta þykir mér vera nokkuð óljóst ef þarna er ekki á neinn hátt hægt að gera sér grein fyrir hvað það muni kosta og eftir því sem segir í áliti minni hlutans hér, þá hafa engin svör fengist í nefndinni um hugsanlegan kostnað vegna þessarar álitsbeiðnar og þykir mér það mjög slæmt og raunar alveg furðulegt ef nefndin hefur ekki getað fengið nokkur svör við þessu vegna þess að ég hélt að það ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir varðandi önnur lönd, þ.e. ekki endilega fyrir EFTA-dómstólnum heldur þá fyrir Evrópudómstólnum, hvað svona gæti hugsanlega kostað.
    En ég hef verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að nú þegar er mjög dýrt fyrir einstaklinga að höfða mál fyrir dómstólum hér á landi og margir treysta sér alls ekki til þess og leggja ekki í það að leita

réttar síns fyrir dómstólum vegna kostnaðar. Ég þekki mörg dæmi um það að fólk hefur verið í miklum vandræðum og þess vegna hef ég verulegar áhyggjur af því. Ég veit að hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason virtist engar áhyggjur hafa af þessu. Hann taldi raunverulega að þessi tillaga 2. minni hlutans um að þessi kostnaður félli ekki á þá einstaklinga sem ekki vildu að sótt yrði um álit EFTA-dómstólsins, væri fráleit og talaði um að þetta væri þvert á móti mikil réttarvernd fyrir borgarana. En hver á að borga þessa miklu réttarvernd ef það er rétt að þetta er mikil réttarvernd fyrir borgarana? Ég óttast það miklu fremur að þó að einstakir aðilar gætu hugsanlega greitt allan þennan kostnað, þá væri þetta bara þannig, því miður, í dag að fólk getur ekki greitt þann kostnað sem því er samfara að fara í dómsmál, hvað þá heldur ef kannski margfaldast kostnaðurinn við það að eiga þetta á hættu. Og hvenær getur þá fólk bakkað út úr málinu ef það hugsanlega sér fram á það að það getur ekki tekið þarna þátt?
    Ég tók eftir því að hv. 3. þm. Reykv. er nokkuð órótt vegna þessa máls og kemur hérna upp og skammar fólk fyrir að halda langar ræður eins og hann gerði að því er varðaði hv. 9. þm. Reykn. og þykir mér það alveg stórfurðulegt að láta sér detta í hug að það séu líkur á því að þetta stóra mál fari órætt í gegn og þykir mér mjög einkennilegt ef hann telur að eitthvað af því sem hér hefur verið talað í dag hafi verið óþarfi vegna þess að það tel ég alls ekki hafa verið. Hann skal ekki halda það að Alþingi Íslendinga eða alla vega margir hér inni ætli að fara að setja færibandið fyrir þessi mál sem koma vegna Evrópska efnahagssvæðisins á fulla ferð hérna í gegnum Alþingi. Það verður að gaumgæfa hvert mál og það á ekkert að fara órætt hér í gegn.
    Ég ætlaði ekki að ræða fleiri atriði, það voru fyrst og fremst þessi atriði sem mér fannst ekki vera nógu skýr af því sem hér hefur komið fram í máli þeirra sem hafa starfað í nefndinni. Það voru helst þessi atriði, þ.e. fyrst og fremst varðandi kostnaðinn og hvernig þessar tungumálaspurningar koma þarna inn vegna þess að eitt af því sem var talað um á sínum tíma var að líklega yrði allur málflutningur að fara fram á ensku. Mér sýnist það ekki vera niðurstaðan að því er þessi skjöl varðar þannig að mér þykir nauðsynlegt að fá svör við þessu. En ég vil enn og aftur taka það fram að ég tel þetta ákaflega vafasama réttarbót fyrir fólk þar sem því verður væntanlega ómögulegt að leita réttar síns eftir að þetta kerfi er komið á ef um verður að ræða eitthvað að ráði að leitað verði eftir þessu áliti. En að mínu mati á eftir að koma enn frekar í ljós þegar fram líða stundir hvaða óheillaspor var stigið þegar samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var samþykktur hér með naumum meiri hluta á Alþingi. Það er ekki bara að löggjafarvaldi er afsalað, heldur framkvæmdarvaldi og dómsvaldi að hluta að mínu mati og án þess að þjóðin væri spurð. Hún var ekki spurð. Og ég held að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að meiri hlutinn þorði ekki að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Meira að segja gaf hæstv. utanrrh. það í skyn að þjóðin hefði ekkert vit á þessu mál og gæti þar af leiðandi ekki sagt álit sitt á því. Hann taldi sig greinilega vera betri til þess þó að mjög margar af þeim fullyrðingum sem hæstv. utanrrh. bar hér fram, bæði hér í þessum þingsal og reyndar annars staðar, hafi verið ákaflega hæpnar svo ekki sé meira sagt. Ég vil fullyrða að þar hafi bæði verið missagnir og beinlínis ósannindi að því er varðar þennan dæmalausa samning um Evrópskt efnahagssvæði. Það er því næsta víst að áður en langt um líður eiga eftir að koma fleiri mál upp á yfirborðið þar sem fólk gerir sér grein fyrir því hvað þetta var slæmur gjörningur sem hér var gerður á síðasta ári og tók gildi þann 1. jan. 1994.