Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 19:48:12 (3929)


[19:48]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að svara nokkrum misskilningi sem fram hefur komið að mér sýnist nú rétt undir lok umræðunnar og ætla því að stikla á því stærsta og beini raunar máli mínu til formanns hv. allshn. varðandi fyrsta efnið ef hún hefur möguleika á að hlusta. Það er varðandi það að hún taldi að ég hefði eitthvað misskilið það að það væri ekki aðeins heimild til að sækja álit EFTA-dómstóls hjá héraðsdómi heldur einnig skylda ef annar hvor aðili vísar slíku til Hæstaréttar og fær þann úrskurð að honum sé gert að leita álits. Ég sé ekki annað en sú ábending haldi sérstaklega. Og það hnekkir því í rauninni að þarna sé einungis um heimildarákvæði að ræða því það er sama hver rökin eru. Svo framarlega sem þetta er tekið til greina þá getur dómara verið gert það í héraðsdómi að sækja um álit. Ég held að þetta út af fyrir sig sýni það að þarna er verið að binda dómara á klafa sem ekki var áður. Það er alveg sama hvort mönnum þykir þetta jákvætt eða neikvætt, ég veit að við formaður hv. allshn. erum ekki sammála um það hvort við teljum yfir höfuð að það að leita slíks álits sé jákvætt eða neikvætt. Ég vil ekki fjalla um þetta efnislega heldur sem prinsipp, þarna er verið að skylda dómara til að leita álits hjá yfirþjóðlegri stofnun og hvort sem það getur verið málsaðilum öðrum hvorum eða báðum til hagsbóta eða ekki, þá er það ákveðin skylda sem ekki hefur verið áður í íslenskum lögum. Þarna er um mjög mikilvæga breytingu að ræða og lið í því að færa dómsvald úr landi þótt þarna sé aðeins um ráðgefandi álit að ræða. Ég held að umræðan hér í dag hafi leitt það í ljós að það eru afskaplega margir sem deila þeim áhyggjum mínum að þarna sé annað og meira á ferðinni. Og það er engin tilviljun að svo er tekið til orða í greinargerð með þessu frv. að það sé að jafnaði gert ráð fyrir því að farið verði eftir þessu áliti. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þau rök sem þar hafa verið tilgreind.
    Varðandi sérstakt eðli íslenska félagsdómsins og mismununinn á eðli hans og félagsdóma nágrannalandanna þá finnst mér vissulega mjög athyglivert að sú hugmynd sem raunar var bara lítil ábending frá Markúsi Sigurbjörnssyni sem kom til umræðu í allshn. að það væru í rauninni til tvær leiðir að því marki að leysa félagsdóm á Íslandi undan því að þurfa að leita álits EFTA-dómstólsins. Og enn undanskil ég það hvort menn telja það af hinu góða eða hinu illa, ég er að tala um prinsippið. Annars vegar er hægt að fara þá leið og sum nágrannalanda okkar hafa gert að láta þetta ekki ná til félagsdómstóls og það

er sú leið sem við í 2. minni hluta allshn. leggjum til. Eða hins vegar að sundurgreina hlutverk félagsdóms þannig að það sé ekki hægt að skilgreina það svo að við verðum að leita þessa álits. Ég tel að við þurfum ekki að gera það. En séu menn svo fastir í bókstafnum að þeir telji að annars værum við að brjóta EES-réttinn þá væri þessi leið einnig til athugunar en það mundi að sjálfsögðu kalla á töluverðar umræður og þetta þyrfti að gerast í sátt við alla aðila og ég er ekkert viss um að það mundi gerast. Ella eiga þeir sem hafa gagnrýnt þetta mest það yfir höfði sér að þeim verði gert í viðkvæmum deilumálum er varða t.d. kjarasamninga og fleira að geta verið í þeirri stöðu að fá þetta álit annars staðar frá þar sem aðstæður eru aðrar en hér á landi. Þar af leiðandi erum við einfaldlega komin með það klárt að það eru önnur lög annarra landa, samhæfð lög, einhvers konar Evrópumeðaltal, sem gilda í þeim málum sem þetta varðar sérstaklega. Ég mun því ekki loka á neina umræðu varðandi þetta. Ég ber þetta mál mjög fyrir brjósti og ég læt mér í léttu rúmi liggja þótt einhverjir hér telji að þessi umræða sé óþörf, það er persónulegt mat og ekki alltaf byggt á því að menn hafi verið að hlusta af neinni sérstakri athygli eða að þeir hafi heyrt jafnvel þó þeir hafi hlustað og þaðan af síður skilið. Og við því get ég ekkert gert.
    Varðandi ræðu hæstv. dómsmrh. þá lagði hann mikla áherslu á það sem er í rauninni grundvallaratriði hér í umræðunni að álitið þýddi það engu að síður að enginn dómari væri bundinn af þeirri túlkun eða því áliti sem kæmi frá EFTA-dómstólnum. En hvað gerist ef dómari gerir þetta ekki? Það er þekktur farvegur og það er nákvæmlega það sem gerir þetta svo hæpið allt saman að það ferli getur farið í gang að íslensk stjórnvöld þurfi að verja niðurstöðu íslenskra dómstóla á vettvangi EES og ef þar er kveðinn upp úrskurður þá er hann íþyngjandi og bindandi fyrir okkur og þá eigum við ekki annarra kosta völ heldur en að breyta okkar lögum svo framarlega sem við viljum standa við samninga. Og það er þetta sem mér finnst mergurinn málsins þegar verið er að ræða það hvort hér sé um það að ræða að við séum að flytja dómsvaldið úr landi eða ekki. Þetta er afskaplega einfalt atriði og þetta hlýtur að valda þeim þrýstingi sem mér var tíðrætt um í fyrri ræðu minni. Íslenskir dómstólar gera sér vissulega grein fyrir því, þeir dómarar sem fá slíkt álit í hendurnar, að þessi eftirleikur getur hæglega orðið. Það þarf ekki að væna þá um skilningsskort á því sviði og ég er alveg sannfærð um að það er nákvæmlega þessi staða sem getur komið upp ef dómarar þá á annað borð lúta ekki í einu og öllu þessu áliti. Og með þessum hætti er dómsvaldið komið út úr landi og um það hefur styrinn staðið. Þetta er ekki flóknara mál en það.
    Ég skil nú ekki alveg þau sérkennilegu skeyti sem ég hef fengið frá hv. 3. þm. Reykv. og læt mér þau í léttu rúmi liggja. Það var eitthvað verið að velta því fyrir sér hvort þarna væri skipulega að verki staðið eða ekki. Ég tel það vera vott um afskaplega óskipulegan hug að fara að blanda saman annars vegar þeim þrýstingi sem ég var hér að lýsa á dómara og svo hins vegar kostnaði og þeim vangaveltum sem við flest hér deilum um, um það á hvern hátt verði best staðið að kostnaði. Þetta er alveg stórfurðuleg blanda og ég verð að viðurkenna að þarna finnst mér vera sorglegt dæmi um skipulagsleysi.
    Það er þá best að fara í gegnum það enn einu sinni. Það er engin þversögn í því að við sem myndum 2. minni hluta allshn. viljum að það sé greiddur kostnaður vegna málflutnings eða jafnvel utanstefnu vegna öflunar álits EFTA-dómstólsins alla vega fyrir þann sem ekki biður um það og ekki vill eða kærir sig um þetta álit. Þetta er íþyngjandi, þetta er viðbótarkostnaður og það vita allir. Og við höfum nú ekki gengið lengra en það að benda á að sá sem ekki biður um þetta álit eigi alla vega ekki að bera þennan kostnað. Mér þykir þetta afskaplega hóflega gert og ég skil ekki hvernig í ósköpunum sá sem ekki vill fá þetta álit eykur þrýsting á dómara um að senda mál að utan nema dómari fari í ham og verði andstæður manni sem ekki vill fá álit og fari að freistast til að senda mál út ef hann verður var við það sérstaklega að einhver vill ekki að mál sé sent utan. Þetta eru auðvitað fáránlegar getsakir á íslenska dómarastétt en þetta er eina leiðin sem ég sé til að slíkt gæti valdið þrýstingi. Þannig að ég held að hér hljóti nú einfaldlega að vera um misskilning að ræða og ákveð að líta svo á.
    Það er í rauninni þrennt sem getur komið upp varðandi kostnaðinn. Það er í fyrsta lagi ef EFTA-dómstóllinn sjálfur ákveður að kalla til vitni eða þarf að fá sérþekkingu einhvers vegna álitsgerðar þá fellur sá kostnaður á EFTA-dómstólinn.
    Í öðru lagi er það hluti málskostnaðar ef þeir fara að frumkvæði þess sem sendir málið eða vill að málið sé sent til EFTA-dómstólsins, þ.e. ef íslenskur dómari úrskurðar það annaðhvort að eigin frumkvæði eða vegna frumkvæðis annars hvors málsaðila að þetta verði hluti af málarekstri íslenskum þá fer það að sjálfsögðu í þann málskostnað sem fylgir málinu miðað við þá stöðu sem við erum að tala um núna. En ég fagna því að það skuli vera skilningur á því að það þurfi e.t.v. að taka meira á þessum málum. Ég er opin fyrir öllum þeim hugmyndum sem fram koma hérna svo framarlega sem ég sé að það geti að einhverju leyti létt á fólki sem þarf að standa í því að fá kannski málskostnað hækkaðan.
    Þriðja staðan sem getur komið upp eftir því sem ég best fæ séð er að málsaðili fari utan eða biðji einhvern að fara utan fyrir sína hönd að eigin frumkvæði og það sé ekki talinn eðlilegur hluti málskostnaðar. Ég geri ráð fyrir að það sé nákvæmlega þetta sem geti komið upp og ekkert því til fyrirstöðu og þá er að sjálfsögðu eðlilegt að sá aðili beri þann kostnað þar sem hann telur sér hag að því að fara þó að dómari meti það ekki, eða dómari sem dæmir um málskostnað, þó að dómarinn meti þetta ekki sem hluta af eðlilegum málskostnaði og nauðsynlegum málaflutningi. Ég geri ráð fyrir að þessi staða geti komið upp, alla vega þá hef ég þetta með í umræðunni þar sem við höfum ákveðin dæmi sem hugsanlega mætti telja hliðstæð.

    Ég vona því að það sé ekki lengur neinn misskilningur á ferðinni varðandi hugmynd gagnvart þessum málum.
    Það væri svo sem full ástæða til að fara í fleiri atriði sem fram hafa komið hér í umræðunni. Ég vil ekki að svo stöddu fara lengra út í þetta. Ég tek hins vegar undir margt af því sem hefur komið hér fram í dag og varðar sérstaklega þau lögfræðiálit sem fram komu í aðalumræðu um EES-málin vegna þess að mér sýnist að þetta mál sanni það svo ekki verði um villst að við höfum því miður fengið smjörþefinn af því núna að við séum að flytja okkar dómsvald úr landi og við það er ég afskaplega ósátt.