Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 10:59:36 (3951)


[10:59]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. 1. flm., 5. þm. Vesturl., var skipuð nefnd allra þingflokka til að fjalla um þetta mál af hálfu sjútvrh. og á ég sæti í þeirri nefnd sem fulltrúi Kvennalistans. Þessi tillaga kom fram eftir að þessi nefnd var skipuð. Og ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér kom fram hjá síðasta ræðumanni á þessi dæmalausu vinnubrögð sem í því felast að koma fram með þessa tillögu eftir að búið er að skipa nefndina til þess að reyna að komast að samkomulagi og sameiginlegri niðurstöðu.
    Ég lýsti þessum viðhorfum mínum í nefndinni þegar þessi tillaga kom fram og ég vil endurtaka það hér.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar að hvalur sé nýtanleg auðlind eins og aðrar auðlindir sjávar. En það breytir því ekki að það þarf að fara yfir þetta mál í mjög víðum skilningi og það er það sem átti að vera hlutverk þessarar nefndar, að fara yfir líffræðileg atriði, hafréttarmálin og fara yfir málið í alþjóðasamhengi. Mér finnst að það sé vægast sagt mjög hæpið og vafasamt að flutningur þessarar tillögu, eins og hún kemur hérna fram af hálfu formanns nefndarinnar, þessarar stjórnskipuðu nefndar, og hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, sé málinu til framdráttar, því miður, vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt að við náum saman um þetta mál, ekki aðeins hér á Alþingi heldur þjóðin í heild. Ég tel að það að hefja umræðu um þetta mál í víðu samhengi hér á Alþingi sé alls ekki málinu til framdráttar. Það sé ekki rétt gagnvart þingflokki Kvennalistans af minni hálfu, það sé ekki rétt gagnvart nefndarmönnum í þessari nefnd og það sé ekki rétt gagnvart sjútvrh. sem skipar mig í þessa nefnd.