Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:24:33 (3957)


[11:24]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef einhver maður er í raun og veru að reyna að spilla hér friðnum í þessu máli þá er það hv. 4. þm. Austurl. með dæmalausum málflutningi af því tagi sem við heyrðum núna. Það var ekkert í ræðu hvorki minni né hv. 3. þm. Reykv. sem gaf honum nokkurt tilefni til þess að reyna að leggja það út með þeim hætti að hér væri um að ræða einhvern meiri háttar ágreining, hvorki meðal stjórnarliða né alþingismanna almennt. Það er mjög eðlilegt að í máli sem þessu sé uppi blæbrigðamunur í skoðunum manna. Það breytir hins vegar ekki meginatriði þessa máls sem er spurningin um það með hvaða hætti hægt sé að hefja hér hvalveiðar. Það kann að vera og það er auðvitað eðli málsins samkvæmt þegar um er að ræða býsna flókið, efnislegt mál, þá er ekkert óeðlilegt við það að uppi séu álitamál og uppi séu mismunandi lögfræðilegar skoðanir í þessum efnum. Og ég undirstrika og ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni hér áðan. Það er ekki nema gott fyrir þetta mál að það sé líka rætt hér í sölum Alþingis með málefnalegum hætti eins og gert var á sínum tíma í fyrra þegar við ræddum þessa þáltill. í fyrra sinnið og þessi mál eru rædd út um allt þjóðfélagið. Halda menn virkilega, dettur mönnum það virkilega í hug að lifandi umræða um spurninguna um hvalveiðar hér við land muni spilla málstað Íslendinga? Dettur mönnum í hug að umræða, sem fram fer t.d. innan hagsmunasamtaka sjómanna, þar sem auðvitað kemur fram blæbrigðamunur eins og í öðrum málum, spilli málstað Íslendinga? Hvers konar hugmyndir eru þetta? Halda menn að það hafi ekki komið fram blæbrigðamunur í afstöðu manna fyrr í alþjóðlegum deilum án þess að það hafi skemmt málstað okkar?