Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:45:17 (3963)


[11:45]
     Flm. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um þessa tillögu. Mér þykir reyndar skjálftavirkni einstakra hv. þm. óþarflega mikil út af þessu máli og vil bara ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni um það hvers vegna þessi tillaga var endurflutt. Við viljum fyrst og fremst reyna að tryggja það að Alþingi taki afstöðu til hvalveiða á þessu þingi. Ég tel að þessi tillöguflutningur spilli að sjálfsögðu á engan hátt fyrir samkomulagi um þetta mál í þeirri nefnd sem hæstv. sjútvrh. hefur skipað. Ég er þess vegna algerlega ósammála því sem hér kom fram áðan að hér væri um einhver dæmalaus vinnubrögð að ræða og annað í þeim dúr eins og hér var sagt. Og að þetta skaði starf þessarar nefndar tel ég alveg fráleitt. Ég tel mig í fullum rétti til að tala efnislega um þetta mál og mun halda því áfram.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði eitthvað á þá leið að við flutningsmenn hefðum gert kröfu um að fá þetta mál á dagskrá, það hefði verið nóg að leggja það fram og kynna það. Ég vil leiðrétta þetta. Við höfum ekki gert neina kröfu um slíkt. Það getur hann fengið staðfest hjá forseta Alþingis. ( HG: Ég sagði það ekki.) Við lögðum þessa tillögu fram fyrir fjórum mánuðum og höfum ekki rekið á eftir að hún kæmi hér á dagskrá. ( HG: Hvar heyrði þingmaðurinn mig segja það?) Hún hefur nokkrum sinnum áður verið á dagskrá en aldrei komist að fyrr en núna.
    Ég er sannfærður um það að andstaða við hvalveiðibann muni aukast hratt á næstu mánuðum og sú afstöðubreyting sem ég gat um hjá fjölda bandarískra þingmanna tel ég að bendi ótvírætt til þess.
    Ég ítreka það ég tel að við Íslendingar verðum að fylgja því fast eftir að aðrar þjóðir virði þær alþjóðlegu samþykktir sem gerðar hafa verið og minna þá stíft á hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, samþykktir Ríó-ráðstefnunnar og Evrópuráðsins. Við þurfum að hamra á því við þær þjóðir sem enn eru í Alþjóðahvalveiðiráðinu að þær virði samþykktir ráðsins um veiðar og þær skuli leyfðar úr hvalastofnum sem eru í jafnvægi og stundaðar í samræmi við tillögur vísindanefndarinnar. Ég held að það skipti okkur höfuðmáli að halda uppi öflugu kynningarstarfi í löndum þar sem andstaðan gegn hvalveiðunum er mest, andstaða sem yfirleitt byggist á mikilli vanþekkingu og því að fólk leggur trúnað á ófyrirleitinn áróður svokallaðra umhverfisverndarsamtaka sem oft og tíðum svífast einskis til að svívirða þær þjóðir sem vilja eðlilega nýtingu á auðlindum hafsins. Ég tel hins vegar að við eigum ekki að vera í neinu stríði við þessi samtök eins og Greenpeace. Við eigum fyrst og fremst að koma upplýsingum til stjórnvalda, þingmanna, fjölmiðla og annarra slíkra og ég tek undir það sem hv. þm. Björn Bjarnason sagði hér í sinni ræðu að ég tel að fulltrúar okkar á vettvangi Evrópuráðsins hafi staðið afskaplega vel að þeirri kynningu og starf þeirra hafi borið mjög jákvæðan árangur. Málflutningur umhverfisverndarsamtaka er oft mjög undarlegur og ég tel það vægast sagt einkennilega umhverfisvernd að hamast gegn því að hvalastofnar séu nýttir á grundvelli rannsókna á veiðiþoli en láta á sama tíma óátalið gamnidráp á dýrum að maður nú ekki tali um pyndingar á borð við nautaat. Ég hef ekki orðið var við að þessi samtök mótmæltu því mikið.
    En ég ítreka það sem ég sagði í minni fyrri ræðu að ég tel að í okkar kynningarstarfi þurfum við að leggja mikla áherslu á það hvað Íslendingar stóðu á allan hátt vel að hvalveiðum og rannsóknum þau 38 ár sem veiðarnar voru leyfðar hér við land og hvernig við leyfðum erlendum rannsóknaraðilum óhindraðan aðgang og sköpuðum þeim aðstöðu til að sinna sínum rannsóknum eins og þeim þóknaðist. Ég held að rannsóknir þessara erlendu aðila geri upplýsingar okkar um ástand hvalastofna trúverðugri fyrir þá sem lítið þekkja til þessara mála.
    Við þurfum líka að koma því skýrt til skila hversu gífurlegur fjöldi hvala er í hafinu við Ísland og fer stöðugt vaxandi og hvaða áhrif þetta hefur á fiskstofna okkar sem við byggjum alla okkar afkomu á. En hvalveiðar snúast ekki eingöngu um þetta. Þær eru líka mikilvægar hvað varðar verðmæti og atvinnu. Hvort tveggja skiptir okkur Íslendinga óneitanlega miklu, ekki síst á tímum minnkandi þjóðartekna og vaxandi atvinnuleysis. Framleiðsluverðmæti hvalaafurða var að meðaltali um 1,5 milljarðar síðustu 5 árin sem veiðarnar voru stundaðar í atvinnuskyni og var þá 1,5--2,5% af útflutningi okkar Íslendinga á sjávarafurðum. Og þá er ótalið aflaverðmæti hrefnuveiðibáta sem var nokkuð á annað hundrað millj. kr. Það voru um 250 manns í störfum hjá Hval hf. síðustu árin sem veiðarnar voru stundaðar, þetta voru störf frá vori til hausts, margir þeirra störfuðu reyndar allt árið og auk þess var tugur manna við veiðar og vinnslu á hrefnu. Þarna voru því störf fyrir 300--400 manns nokkra mánuði ársins. Ég tel að eins og atvinnuástandið er núna þá getum við ekki horft á þessi störf fara forgörðum.
    En þó að efnahagsleg rök vegi þungt þá held ég að það vegi enn þyngra í okkar málflutningi sú röskun sem er að verða á lífríki hafsins í kringum okkur og ótti við þessa röskun kemur mjög skýrt fram í mörgum þeirra umsagna sem bárust um tillöguna á síðasta þingi. Ég ætla, með leyfi forseta, að grípa ofan í örfáar af þeim umsögnum. Það segir t.d. meðal annars í umsögn Íslenskra sjávarafurða:
    ,,Og það hefur úrslitaáhrif á lífskjör hér á landi, sem og annars staðar í heiminum, að hvalur sé veiddur að því marki að lífríkinu sé haldið í jafnvægi.``
    Í umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna segir m.a.:
    ,,Allt bendir til að hvalamergð hafi aukist verulega við landið. Af ummælum sjómanna að dæma er hér um verulega röskun á lífríkinu í sjónum að ræða. Því er nauðsynlegt að hefja nýtingu þessarar auðlindar að nýju þar sem ráðum Hafrannsóknastofnunar yrði fylgt um fjölda þeirra hvala sem veiða má.``
    Landssamband smábátaeigenda segir m.a. í sinni umsögn:
    ,,Ljóst er að hrefnu hefur fjölgað mjög mikið við landið. Sjómenn hafa séð hvernig hrefnur elta uppi og gleypa í sig seiðatorfur sem sjást á yfirborði. Hér er um að ræða loðnuseiði, sandsíli og smásíld.
    Vegna mikillar fjölgunar á búrhval á grálúðuslóðinni er nauðsynlegt að hefja rannsókn á því hvort búrhvalurinn éti úr grálúðustofninum.``
    Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna segir m.a. í sinni umsögn:
    ,,Flest rök hníga að því að eftir langvarandi hvalveiðibann hafi jafnvægi í lífríki hafsins umhverfis Ísland verið raskað og samkeppnin við sjávarspendýrin um fæðuna aukist til muna.``
    Útvegsmannafélag Norðurlands segir m.a.:
    ,,Útvegsmannafélag Norðurlands telur að hvalastofnar við Ísland séu í harðri samkeppni um nytjastofna við landið og vistgrundvöll þeirra. Bendi rannsóknir til þess að veiðiþol hvalastofna réttlæti veiðar þá sé æskilegt að taka þær upp sem fyrst.``
    Útvegsmannafélag Suðurnesja segir:
    ,, Stjórn ÚFS vill sérstaklega benda á að nauðsynlegt er að koma í veg fyrir frekari röskun á lífríki hafsins en orðið er.``
    Mér finnst að þessar umsagnir, sem eru frá sjómönnum, sölusamtökum og útvegsmönnum, sýni glöggt þær áhyggjur sem þessir aðilar hafa af þeirri röskun sem vaxandi hvalafjöldi hefur á lífríki hafsins í kringum okkur.
    Ég vil að lokum segja að það þarf kjark til að hefja hvalveiðar að nýju og auðvitað er þægilegast að gera ekki neitt og hafa alla góða en ég tel að við höfum einfaldlega ekki efni á því. Ef við ekki hefjum hvalveiðar að nýju þá munum við ekki bara missa af þeim miklu verðmætum sem í húfi eru og þeim mörgu störfum sem fylgja veiðum og vinnslu hvals heldur mun það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar á fiskstofna okkar ef hvalastofnar fá áfram að vaxa og stækka óhindrað í hafinu kringum Ísland og þess vegna komumst við ekki hjá því að hefja hvalveiðar að nýju. Ég tel að það þoli ekki bið.