Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:54:12 (3964)


[11:54]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Það er einn efnisþáttur sem kemur fram í þessari umræðu sem ég tel ástæðu til að vara dálítið við og það snertir þá hugsun að það eigi að vera unnt að stýra lífríki hafsins út frá hagsmunum okkar manna með því að veiða svo og svo mikið af þessari og hinni dýrategundinni í hafinu. Það er auðvitað fræðilega hægt að setja slíka skoðun fram en ég tel að það skorti afar mikið á það að við höfum nokkra þekkingu eða grundvöll til þess að meta það með skynsamlegum hætti hvað megi taka af þessari tegundinni eða hvað af annarri.
    Ég held að það væri nær fyrir þá sem áhyggjur hafa af þessum efnum að sjá til þess og þeirra sem áhrif hafa í landsstjórninni að sjá til þess að almennar hafrannsóknir séu efldar hér við land og eitthvert fjármagn sé lagt til þeirra þannig að menn komist eitthvað nær því að geta af viti svarað spurningum eins og þeim sem hér er verið að velta upp. Spurning um afrán einstakra stofna.
    Þetta snertir það mál sem hér er til umræðu, þessu er oft haldið fram. Það er mjög eðlilegt sjónarmið og auðvitað vitum við að allt hefur þetta áhrif, en að ímynda sér að við getum farið að leggja út í atvinnuveiðar á hvölum út frá því sjónarmiði að við getum breytt þarna eitthvað verulega um, það held ég að sé mikið ofmat. Mitt viðhorf hefur verið það í sambandi við hvalveiðar að það sé sjálfsagt og eðlilegt fyrir Íslendinga út frá sínum hagsmunum að stefna að því að geta nýtt auðlindir hafsins, það þurfum við að reisa á þekkingu, sem allra bestri þekkingu og það væri satt að segja verkefni sem ekki þarf neitt að bíða eftir að reyna að bæta úr, það sem á vantar í þeim efnum.