Skjaldarmerki lýðveldisins

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:56:46 (3965)

[11:56]
     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. um uppsetningu skjaldarmerkis lýðveldisins á eða við Alþingishúsið. Tillagan hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd Alþingis að sjá svo um að skjaldarmerki lýðveldisins frá 1944, ásamt skjaldarberum, verði komið upp á eða við Alþingishúsið.
    Verkinu skal lokið þegar minnst verður 50 ára fullveldis Íslands 17. júní 1994.``
    Í grg. segir svo m.a.:
    Með þessum tillöguflutningi er gerð tilraun til að ná fram því markmiði að skjaldarmerki lýðveldisins, þar sem landvættirnir standa vörð um þjóðfánann, verði komið fyrir þar sem þjóðþing Íslendinga starfar.
    Í bók sem gefin er út af forsætisráðuneytinu (Fáni Íslands, skjaldarmerki, þjóðsöngur, heiðursmerki, útg. 1991) segir svo m.a. um skjaldarmerki Íslands (bls. 55):
    ,,Á fundi Alþingis, sem haldinn var 17. júní 1944 á hinum forna þingstað Þingvöllum við Öxará, var lýst yfir því að lýðveldi væri endurreist á Íslandi. Síðan kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins til eins árs, en eftir það skyldi hann þjóðkjörinn. Á ríkisráðsfundi, sem haldinn var sama dag á Þingvöllum, gaf hinn nýkjörni forseti, Sveinn Björnsson, út forsetaúrskurð um skjaldarmerki lýðveldisins og hljóðar hann þannig:
    ,,Skjaldarmerki Íslands er silfurlitur kross í heiðbláum feldi, með eldrauðum krossi innan í silfurlita krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í rendur skjaldarins á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2 / 9 af breidd skjaldarins, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1 / 9 af breidd skjaldarins. Efri reitirnir skulu vera rétthyrndir, jafnhliða ferhyrningar og neðri reitirnir jafnbreiðir efri reitunum, en þriðjungi lengri.
    Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir, sem getur í Heimskringlu: Griðungur, hægra megin skjaldarins, bergrisi, vinstra megin, gammur, hægra megin, ofan við griðunginn, og dreki, vinstra megin, ofan við bergrisann.
    Skjöldurinn hvílir á stuðlabergshellu.````
    Skjaldarmerkin eiga sér vissulega langa sögu og það langtum lengri en þjóðfáni okkar sjálfra. Ég held að í fyrstu sögum okkar geti um skjaldarmerki fyrir eða í kringum 1250.
    ,,Umræður hafa farið fram um það nokkuð lengi hvort koma megi skjaldarmerkinu fyrir á Alþingishúsinu í stað merkis Kristjáns níunda.
    Pétur Ottesen, fyrrverandi alþingismaður, talaði lengi og sterklega fyrir þessu máli en tókst ekki að vinna því það fylgi sem hann hafði vænst. Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, flutti tillögu um þetta efni þar sem lagt var til að í stað`` --- og ég undirstrika --- ,,í stað merkis Kristjáns níunda Danakonungs, sem nú er á norðurhlið Alþingishússins, kæmi íslenska skjaldarmerkið frá 1944. Við þessa tillögu fékkst ekki fremur en fyrr nægjanlegur stuðningur.

    Þór Magnússon þjóðminjavörður skrifaði grein í Morgunblaðið 16. sept. 1988 um þetta mál og segir þar m.a.:
    ,,Alþingishúsið er friðlýst samkvæmt lögum sem Alþingi sjálft setti, enda er það hús eitt merkasta byggingarsögulega minnismerki landsins. Friðun þess þýðir að húsinu skuli ekki breytt af ófyrirsynju.``
    Það sem mestri andstöðu hefur valdið er að með því að fjarlægja merki Kristjáns níunda sé verið að breyta útliti Alþingishússins sem teiknað var af dönskum arkitekt og byggt af dönskum múrmeistara árið 1881. Sú tillaga, sem hér er flutt, felur það ekki í sér. Því hefur verið haldið fram að húsafriðunarlög heimili ekki að hróflað sé að nokkru við Alþingishúsinu. Þetta er ekki rétt. Á undanförnum árum hafa verið framkvæmdar margvíslegar breytingar á Alþingishúsinu sjálfu, búnaði þess og næsta umhverfi. Alþingishúsið er í A-flokki friðaðra húsa og ekkert sem mælir því í gegn að skjaldarmerkið verði sett þar upp. Að sjálfsögðu þarf að hafa um slíkt samstarf og samráð við húsafriðunarnefnd.
    Með flutningi þessarar tillögu er ekki lagt til að fjarlægja merki Kristjáns níunda af Alþingishúsinu. Hér er gerð tillaga um að hinu formfagra skjaldarmerki, tákni lýðveldisins Íslands, verði komið upp á eða við Alþingishúsið og tengt á þann hátt betur en nú þingi og þjóð.``
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og allshn. og vænti þess að hv. allshn. hafi samráð við forsætisnefnd þingsins um málið á milli umræðna.