Auðlindakönnun í öllum landshlutum

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 12:13:52 (3968)


[12:13]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 190 um auðlindakönnun í öllum landshlutum. Flm. ásamt mér eru þingkonur Kvennalistans, þær Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Kristín Einarsdóttir.
    Tillögugreinin er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta framkvæma auðlindakönnun í öllum landshlutum er taki til allra þeirra þátta er kunna að nýtast til atvinnusköpunar í þágu kvenna jafnt sem karla. Verði könnunin unnin í samstarfi við sérfræðinga, sveitarstjórnir og heimamenn þannig að tryggja megi sem bestan árangur.``
    Greinargerð með frv. er svohljóðandi:
    ,,Flest bendir til þess að atvinnuleysi sé orðið varanlegt hér á landi þótt það sé enn mun minna en víðast hvar í Evrópu. Greining á þeim sem atvinnulausir eru sýnir að atvinnuleysið nær til æ fleiri starfshópa þótt það sé enn mest meðal ófaglærðs verkafólks. Sú staðreynd hve atvinnuleysis gætir víða í starfsgreinum bendir til þess að almennt sé of mikið framboð á vinnuafli miðað við almennt atvinnuástand þótt það sé reyndar misjafnt eftir landshlutum. Margt veldur því að atvinnuleysi eykst, svo sem almennur samdráttur í þjóðfélaginu, minnkandi afli, erfiðleikar og gjaldþrot fjölda fyrirtækja. Þar við bætist sú staðreynd að samhliða samdrættinum fer vinna minnkandi í samfélagi okkar eins og annars staðar vegna tæknibreytinga sem leiða af sér að færri hendur þarf til að vinna verkin. Hér á landi sjást áhrif tækniþróunar í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði auk þess sem tölvuvæðing fyrirtækja er farin að skila sér í minni þörf fyrir vinnuafl. Stjórnvöld og atvinnulífið hafa ekki brugðist við þessum breytingum með auknum framlögum til rannsókna, tilrauna og raunhæfra kannana á þeim möguleikum sem hér er að finna til atvinnusköpunar.
    Úti í Evrópu er atvinnuleysið orðið hluti af hagstjórn og stjórnvöld virðast sætta sig við það, trú þeirri hugsjón að markaðurinn eigi að jafna framboð og eftirspurn eftir vinnuafli. Umræður síðustu ára, kröfur verkalýðshreyfingarinnar og aðgerðir stjórnvalda, jafnt hjá ríki sem sveitarfélögum, sýna að hér á landi vilja fæstir sætta sig við varanlegt atvinnuleysi. Gripið hefur verið til átaksverkefna af ýmsu tagi en þau eru tímabundin lausn. Hér þarf stefnumörkun og aðgerðir sem leiða til varanlegs árangurs í atvinnumálum.
    Stjórnvöld hafa mjög einblínt á stóriðju sem allsherjarlausn og varið miklum tíma og fé til að lokka stórfyrirtæki hingað til lands án árangurs. Öðrum atvinnugreinum hefur lítt verið sinnt og afleiðingin er sú að þeirri spurningu er ósvarað hvaða vinnu það unga fólk, sem stöðugt streymir út á vinnumarkaðinn, eigi að sinna, hvað þá þeir sem missa vinnuna. Hér er ekkert það til sem kalla má atvinnustefnu.
    Út um allt land hefur fólk verið að leita fyrir sér með ýmiss konar framleiðslu, einkum konur, enda atvinnuleysi meira í þeirra röðum en meðal karla. Allt gott er um slíkt frumkvæði að segja, en veita þarf meiri stuðning og ráðgjöf. Það má hins vegar ljóst vera að framtak kvennanna dugar hvergi nærri, ekki síst ef horft er til framtíðar. Því þarf að kanna til hlítar alla möguleika til atvinnusköpunar, safna saman þeim hugmyndum og könnunum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, draga fram það sem nýtilegt er og ýta undir frumkvæði fólks um allt land sem oft þekkir best möguleika síns héraðs. Hér þarf að fara fram allsherjarauðlindakönnun sem síðan verði fylgt eftir með áætlunum, ábendingum og opinberum stuðningi. Við slíka auðlindakönnun í allra víðasta skilningi þess orðs þarf ekki síst að huga að atvinnumöguleikum kvenna í ljósi þess að samdrátturinn og atvinnuleysið bitnar harðast á þeim greinum þar sem konur eru fjölmennar.
    Möguleikarnir eru margir. Við þurfum fyrst að spyrja hvernig við getum nýtt betur það sem við eigum og vinnum við í hefðbundnum atvinnugreinum. Ferðaþjónusta hefur verið vaxandi atvinnugrein á undanförnum árum. Þar er mikið verk að vinna í skipulagningu og þjónustu við ferðamenn, einkum í byggð og á sögustöðum, auk þess sem kanna þarf nýja möguleika. Minjagripagerð, ullarvinnsla í hágæðaflokki, heilsulindir, ylrækt, ný skoðun á nýtingu orkulinda, smáiðnaður, athugun á nýtingu jarðefna til efnavinnslu, fullnýting sjávarafla, ónýtt sjávarfang, fiskeldi, samvinna við aðrar þjóðir o.s.frv. Allt kemur þetta til greina við athugun á nýjungum í atvinnulífinu. Tækifærin eru mörg ef menn ganga til verks með opnum huga og með það að leiðarljósi að margt smátt gerir eitt stórt. Það má minna á að í Evrópu og Bandaríkjunum hefur verið mestur vöxtur í smáfyrirtækjum þar sem einstaklingar eða samvinnuhópar eru að vinna úr hugmyndum sínum, framleiða varning eða bjóða upp á einhvers konar þjónustu. Fjölbreytnin er hinn mikli kostur.
    Öldum saman hefur sjávarútvegurinn staðið undir þörfum okkar fyrir þær lífsnauðsynjar sem við höfum þurft að kaupa af öðrum þjóðum, svo og þeim munaði sem við höfum leyft okkur. Við höfum alltaf getað mætt auknum kröfum með því að sækja meiri fisk í sjávardjúpin. Nú erum við komin að ystu mörkum. Við höfum gengið á höfuðstólinn, auðlindir okkar standa ekki lengur undir sívaxandi kröfum til lífsins. Tími er kominn til að hægja á ferðinni og hugsa sinn gang, enda nauðsynlegt vegna framtíðarinnar. Eigi okkur að takast að halda uppi fullri atvinnu, mannsæmandi launum og jöfnuði þegnanna verður eitthvað nýtt að koma til. Þessi tillaga er til þess flutt að menn hefjist handa þegar í stað, kanni alla hugsanlega möguleika til atvinnusköpunar, komi hugmyndum á framfæri, raði í forgangsröð og ýti undir frumkvæði, jafnt ríkisvalds og sveitarfélaga sem samtaka, fyrirtækja og einstaklinga. Það má engan tíma missa, nú verður að virkja hugvitið.``
    Svo segir í greinargerð með tillögunni. Og við þetta er því að bæta að það er afar athyglisvert að horfa yfir þá þróun sem hér hefur átt sér stað í atvinnugreinum á undanförnum árum og þá staðreynd hve störfum hefur fækkað í mjög mörgum greinum og hve hlutur frumgreinanna, sem við höfum byggt á um árabil, hefur minnkað. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun þá eru staðreyndirnar þær, virðulegur forseti, að þeim sem vinna við landbúnað hefur fækkað á áratugnum 1980--1990 úr 7,9% í 4,9%. Þarna er um að ræða fækkun um 2.223. Við fiskveiðar hefur orðið örlítil fækkun, úr 5,3 í 5,7%. Í fiskvinnslu hefur fólki fækkað úr 9,3% af mannafla í 6,1%. Í iðnaði hefur fólki fækkað úr 15,2% í 12,5% á meðan aukning hefur átt sér stað í peningastofnunum, þ.e. bönkum og sparisjóðum og ýmiss konar fjárfestingarstofnunum og hjá hinu opinbera þar sem hlutur mannaflans hefur aukist úr 15,7% í 18%.
    Nú er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að fólki fjölgi í þjónustugreinum. Þar hefur mikil þróun átt sér stað en áhyggjuefnið er hve störfum hefur fækkað. Og þá ekki síst í þeim greinum sem við höfum byggt á og er matvælaiðnaðurinn. En samkvæmt því sem fram kom í haust þá hefur störfum í matvælaiðnaði fækkað um 2.000 störf á tíu árum. Hér á hinu háa Alþingi hafa verið miklar umræður um skipasmíðaiðnaðinn og ef ég man rétt þá hefur hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. vakið athygli á því að á undanförnum árum hefur störfum þegar allt er samantekið fækkað um allt að 14.000. Fólki hefur auðvitað fjölgað hér á landi eins og við vitum og æ fleiri sækja skóla. Skólarnir hafa að nokkru leyti tekið við þessari fjölgun en það breytir ekki því að við stöndum frammi fyrir atvinnuleysi og samdrætti í okkar atvinnulífi og við þurfum að snúa blaðinu við. Við vitum að engar töfralausnir eru til. Þó við séum að fá happdrættisvinninga aftur og aftur, nú síðast í Smugunni og í miklum uppgripum í loðnuveiðinni á þessu augnabliki, þá er ekki á slíkt að treysta og við getum ekki byggt okkar efnahags- og atvinnulíf á einhverjum slíkum vinningum sem enginn veit hvenær eða hvort koma. Hér þarf markviss uppbygging að eiga sér stað og hér þarf að móta atvinnustefnu til frambúðar. Öðruvísi leysum við ekki þann vanda sem við stöndum frammi fyrir.

    Fyrir nokkrum árum kom það fram í viðtali við Þráin Eggertsson prófessor að hann spáði því að Ísland yrði komið í hóp fátækustu þjóða í Evrópu um næstu aldamót. Það fannst mörgum fáránleg fullyrðing á þeim tíma en við höfum horft upp á þá þróun hér á allra síðustu árum að hjólin hafa verið að hægja á sér og þróunin hefur verið okkur í óhag. Við munum halda áfram ferð okkar niður á við ef við ekki tökum okkur saman í andlitinu og snúum blaðinu við.
    Eins og fram kom í greinargerðinni þá eru möguleikarnir margir. Og ég ítreka aftur að þeir möguleikar felast m.a. í matvælaiðnaði, ferðaþjónustu, ýmiss konar smáiðnaði og þjónustugreinum. Þegar ég er að tala um þjónustugreinar er ég ekki síst að hugsa til ýmiss konar þjónustu sem hægt er að veita með tölvum og ýmsu í kringum þær. Mér er minnisstætt dæmi sem ég heyrði af bandarískri konu sem tók að sér bókhaldsvinnslu fyrir fyrirtæki og var með sína tölvu heima. Hún þróaði nýtt bókhaldskerfi og er nú orðin margmilljóner og einhver fremsti frömuður Bandaríkjanna í tölvubókhaldi. Það getur því margt gerst þegar fólk lætur sjálft á reyna og nýtir sínar hugmyndir en það þarf oft að veita stuðning og gefa fólki tækifæri til að reyna sínar hugmyndir. Við vitum það og höfum séð dæmi þess á undanförnum árum að fólk hefur virkilega svarað þessu ástandi og verið að reyna ýmsar leiðir til að bjarga sér. Þá verður mér ekki síst hugsað til þeirra fjölmörgu handverkskvenna bæði sunnan lands, fyrir austan og norðan sem hafa verið að reyna að þróa þar framleiðslu fyrst og fremst til að geta áfram búið á sínum býlum og þurfa ekki að flytja úr stað, enda svo sem ekki að neinu að hverfa annars staðar.
    Það þarf að taka á atvinnusköpun með skipulegum hætti og horfa til mun lengri tíma en menn hafa gert hingað til. Við þurfum að móta okkur stefnu til a.m.k. 25 ára að mínum dómi þannig að við vitum að hverju við erum að stefna. Hvað ætlum við okkur? Hvers konar atvinnu ætlum við að byggja upp? Hvað er það sem við ætlum að styðja?
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. hv. iðnn.