Auðlindakönnun í öllum landshlutum

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 12:27:02 (3969)


[12:27]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er lagt fram, till. til þál. um auðlindakönnun í öllum landshlutum, er allrar athygli vert. Ég vil taka fram nokkur atriði sem koma upp í huga mér þegar ég les till. til þál og þá ekki síst þegar ég les greinargerð með henni.
    Tillagan gengur raunar út á það að framkvæma auðlindakönnun í öllum landshlutum er taki til allra þeirra þátta er kunni að nýtast til atvinnusköpunar í þágu kvenna jafnt sem karla. Hér er um að ræða mjög viðamikla könnun sem er eflaust ekki ætlun hv. 18. þm. Reykv. að skilgreina sem svo að sú könnun sé ekki hafin. Því auðvitað hefur feikilega mikið verk verið unnið á sviði auðlindakönnunar á Íslandi í mörgum landshlutum. Það er hins vegar nauðsynlegt að flm. tillögunnar, hv. 18. þm. Reykv., geri örlítið grein fyrir því í máli sínu hvort þarna er verið að tala um auðlindir í landfræðilegri merkingu þess hugtaks, sem má skilja út úr því orðalagi tillögunnar að binda hana við landshluta sérstaklega, ellegar hvort átt er við í víðtækustu merkingu hugtakið auðlind sem felur þá í sér einnig mannauðinn og nýtingu hans. Slík könnun er þá ekki bundin landshlutum sérstaklega en er almenns eðlis.
    Að því er varðar auðlindakönnun í landfræðilegri merkingu þess orðs er eflaust hægt að setja í gang athuganir af því tagi sem hér er gerð tillaga um. Ég hef þó haft meiri trú á því að það hafi raunverulega virkni að binda slíka könnun við ákveðin verkefni og ákveðna landshluta sem hafa sérstöðu að því er varðar slíkar landfræðilegar auðlindir. Ég er ekki þar með að segja að tillaga af þessu tagi sé ekki mjög gagnleg og nauðsynleg heldur hef ég almennt haft meiri trú á því að það sem út úr slíkum könnunum kæmi hefði e.t.v. virkari áhrif á atvinnuuppbyggingu ef þrengri rammi væri utan um þær.
    Það er einmitt af þeim forsendum sem ég hef flutt hér tillögur um slíkar athuganir. Ég minni á tillögu sem ég flutti um uppbyggingu fornminjasafns á Hólum sem tengdist þá þeim stað sérstaklega og ferðaþjónustunni. Ég hef lagt fram í þinginu en ekki rætt enn þá till. til þál. um auðlindakönnun sem tengist Öxarfjarðarhéraði, en þar eru einmitt landfræðilegar aðstæður þær að þar gengur gosbeltið í sjó fram í tiltölulega fámennu héraði og þar eru mjög athyglisverðar auðlindir sem eru nú áform um að nýta með ákveðnum hætti en getur haft áhrif á heildaruppbyggingu atvinnulífsins þar til langframa. Þannig að það er mjög brýnt að á þessu augnabliki sé ráðist í slíka könnun í því héraði.
    Það er einnig rétt að geta þess að mér finnst að flm. í sínum góða og virðingarverða vilja til að láta gott af sér leiða í sambandi við atvinnulíf landsins gangi nokkuð langt í greinargerð með þáltill. þegar hann lýsir því svo að stjórnvöld og atvinnulífið hafi ekki brugðist við þessum breytingum með auknum framlögum til rannsókna, tilrauna og raunhæfra kannana á þeim möguleikum sem hér er að finna til atvinnusköpunar.
    Enn fremur segir flm. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnvöld hafa mjög einblínt á stóriðju sem allsherjarlausn og varið miklum tíma og fé til að lokka stórfyrirtæki hingað til lands án árangurs. Öðrum atvinnugreinum hefur lítt verið sinnt og afleiðingin er sú að þeirri spurningu er ósvarað hvaða vinnu það unga fólk sem stöðugt streymir út á vinnumarkaðinn eigi að sinna, hvað þá þeir sem missa atvinnuna. Hér er ekkert það til sem kalla má atvinnustefnu.``

    Um þessar fullyrðingar er ýmislegt hægt að segja, ég ætla að tæpa á örfáum atriðum. Það er ekki svo að öðrum atvinnugreinum en stóriðju hafi ekki verið sinnt þegar verið er að tala um þróunarmál og nýsköpun í atvinnulífi. Það er öllum vel kunnugt og 1. flm. þessarar þáltill. er það kunnugt einnig, sjálfsagt betur en flestum öðrum, að hér hafa verið settar upp rannsóknastofnanir í tengslum við atvinnulífið, við sérstakar atvinnugreinar. Stefna stjórnvalda undanfarna áratugi hefur mjög mikið verið að byggja upp þessar rannsóknastofnanir sem slíkar. Nýsköpun og tækniframfarir í atvinnulífinu hafa leitað mjög í farveg þessara stofnana. Eflaust er það skiljanlegt og auðskýranlegt vegna þess hve við erum með fábreytilegt atvinnulíf hér og lítið samfélag að stefnan hafi leitað í þennan farveg fyrst til að byrja með. En svo hefur verið um nokkurt tímabil og þá sérstaklega eftir að þessi ríkisstjórn tók við völdum að það er leitað leiða til þess að vinna rannsóknarumhverfi út úr þessum stofnanafarvegi. Það hefur verið unnið feikilega mikið verk einmitt til þess, bæði á vegum ríkisstjórnarinnar en einnig á vegum þeirra aðila sem hafa yfirumsjón með rannsóknum í þágu atvinnuveganna, þ.e. Rannsóknaráði ríkisins. Þar hefur áherslan verið lögð á það samkvæmt ábendingum frá OECD að auka frjáls framlög, styrki til atvinnufyrirtækja og hvetja atvinnufyrirtækin til samstarfs. Beina athyglinni sem sagt að vissu leyti frá stofnununum og að fyrirtækjunum og verkefnunum sem þar eru. Þetta er markviss stefna Rannsóknaráðs undir stjórn núverandi stjórnvalda og hún hefur þegar verið kynnt og er komin í framkvæmd. Rannsóknarfé á þessu sviði hefur verið aukið mjög verulega á tveimur árum. Þetta rannsóknarfé er aðeins hluti af því heildarrannsóknarfé sem fer til nýsköpunar í atvinnumálum og þróunarmálum. Það hefur verið aukið um helming, hv. þm., á sl. tveimur árum og mér finnst að það sé ekki hægt að ræða þessi mál með fullyrðingum af þessu tagi án þess að taka tillit til þess að þó að þessi upphæð, sem við erum að tala um hér sem er aðeins hluti af því sem lagt er í þessi verkefni, sé allt of lág --- og um það verðum við hv. þm. örugglega sammála --- þá er þó þarna á erfiðum tímum verið að tala um 100% aukningu.
    Einnig hefur Rannsóknaráð lagt sérstaka fjármuni til þess að greiða hálf laun tæknimanna inn í fyrirtæki.
    Þetta vildi ég að kæmi fram í máli mínu, hæstv. forseti, og lýk því hér með en mun ræða þetta á þessum vettvangi nánar því það eru ýmis önnur atriði sem ég tel að sé nauðsynlegt að komist til skila.