Auðlindakönnun í öllum landshlutum

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 12:43:50 (3971)


[12:43]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Margt af því sem hefur komið fram í máli hv. 18. þm. Reykv. er mjög athyglisvert og ég ætla að víkja að nokkrum þeim atriðum. En ég vil þó byrja á því að brýna það fyrir þingheimi og hv. þm. sérstaklega, því hann er 1. flm. að þessari till. til þál., að ríkisstjórnin hefur litið á þetta verkefni sem grundvallarverkefni sitt. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði að við þyrftum að snúa taflinu við. Ríkisstjórnin er að snúa þessu tafli við og ég mun fara hér lið fyrir lið yfir það hvernig hún nálgast þetta verkefni.
    Það er í sjálfu sér kannski ekki mjög vandasamt verkefni fyrir þá sem vilja gefa út stefnumörkun almenns eðlis að setja eitthvað slíkt á flot og það er jú það sem hefur verið gert þing eftir þing, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, það eru sett einhver almenn markmið. Hafi sú athugasemd hv. þm. einhverja merkingu að hér hafi skort atvinnustefnu, og ég get að sumu leyti fallist á það, þá er það vegna þess að slík almenn markmið hafa ekki verið studd eðlilegum undirbúningi í þjóðfélaginu og á þennan hátt getum við örugglega sameinast um þennan skilning okkar.
    Hvernig hefur ríkisstjórnin nálgast þetta mál? Hún hefur nálgast það með því m.a. að það hefur verið tekið til rækilegrar umfjöllunar á vegum menntmrn. annars vegar hvernig menntakerfið undirbýr samfélagið, hvernig menntakerfið undirbýr fólkið undir störfin í samfélaginu. Þetta starf er á lokastigi í ráðuneytinu og hefur tekið mikinn tíma, eins og það á að gera. Það á að taka langan tíma að taka þessi mál til skoðunar.
    Á annan hátt hefur farið fram mikið starf á vegum menntmrn. til að móta vísindastefnu ríkisstjórnarinnar. Allt það starf miðar mjög markvisst að því að einfalda þetta kerfi og virkja það betur í þágu atvinnuveganna. Þetta verk er nú á lokastigi og það er einmitt svona verk sem verður þá aðdragandi raunhæfrar stefnumótunar. Mig langar til þess að taka fyrir eina atvinnugrein sem er minnst á í grg. með till. til þál. sem hér er til umræðu, en það eru ferðamálin. Það hefur ekki skort í raun og veru að hér hafi verið lögð fram stefnumarkandi plögg í ferðamálum þing eftir þing. Þau hafa verið lögð hér fram. En það er ekki stefnumörkunin sjálf sem skiptir meginmáli heldur aðdragandi stefnumörkunar. Og hver hefur aðdragandi stefnumörkunarinnar verið í ferðamálum? spyr ég nú hv. þm. Hefur aðdragandi í stefnumörkun verið sá að það hafi verið stundaðar umfangsmiklar rannsóknir í ferðamálum á Íslandi? Ó nei. Árum saman hefur verið starfandi Rannsóknaráð sem styrkir hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Hv. þm. getur leitað með stækkunargleri að því hvar eru rannsóknarverkefni í ferðamálum. Hann finnur engin. En það hefur ekki skort að menn hafi veifað hér um þingsali stefnumarkandi plöggum í ferðamálum. Það hefur ekki vantað og þykkar bækur í þeim efnum en engar rannsóknir hafa farið fram, engar hagnýtar rannsóknir í þessari atvinnugrein.
    Fyrir tilverknað þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn hefur þessu máli sérstaklega verið hreyft í Rannsóknaráði og sá sem hér talar getur fullvissað þingmanninn um að það er verið að segja þar rétt og satt frá. Rannsóknaráð hefur nú tekið það fyrir alveg sem sérstakt verkefni að skilgreina rannsóknarsvið á sviði ferðamála. Og hvað kemur út úr þessu starfi? Auðvitað það að menn munu virkja mannauðinn, sem hv. þm. talaði um áðan réttilega sem eina af auðlindum landsins, til að skoða þessa atvinnugrein, reyna að átta sig á því hver er styrkleiki hennar, hvernig hún getur fallið að öðrum atvinnugreinum og hvernig við getum mótað heildarstefnu sem þjónar þessari atvinnugrein en öðrum líka og gerir atvinnugreinarnar að samverkandi þáttum í heildarstefnumótun. Þannig er verið, hv. þm., á raunsæjan hátt og með litlum hávaða að undirbúa þessa almennu atvinnustefnumörkun sem ég er alveg sammála hv. þm. um að er mjög mikilvægt mál. Það tekur langan tíma en með þessum hætti er verið að byrja á þessu.
    Tökum annað dæmi sem þingmaðurinn sjálfur minntist á. Það er með matvælaiðnaðinn sem er alveg hárrétt hjá þingmanninum og það er okkar meginframleiðslugrein, það er matvælaiðnaður. Hver er þróaðasta matvælagreinin á Íslandi? Það er ekki aðalframleiðslugrein okkar, fiskvinnslan. Það er mjólkuriðnaðurinn sem hefur þróast í vernduðu umhverfi en þetta verndaða umhverfi hefur þó haft þau jákvæðu áhrif á þróun þessarar iðngreinar að hún hefur getað byggt sig upp af faglegri þekkingu á mjög sterkan máta. Í matvælaiðnaðinum, eins og Háskólinn á Akureyri, hefur bent réttilega á, er hlutfall fagmenntaðra manna mjög hátt og miklu hærra en í nokkurri annarri matvælaframleiðslugrein.
    Þetta er að sjálfsögðu það sem aðrar matvælaframleiðslugreinar eru að gera og stofnanir á borð við Háskólann á Akureyri eru að vinna markvisst að því að laða matvælaframleiðendurna til samstarfs. Út úr því mun koma hægt og sígandi á komandi árum og með breyttu menntakerfi styrkleiki Íslands sem matvælaframleiðslulands. Þannig að þetta er verið að gera, þessi vinna er hafin. Hún er hafin á raunsæjan hátt. Hún er ekki hafin með miklum hornablæstri eða með því að hlaupa hér um þingsali með einhver plögg eins og mótun ferðastefnu án þess að að sé í raun og veru nokkuð á bak við það. Þetta er gert á raunsæjan hátt, hv. þm., og sá sem hér talar er í raun og veru mjög stoltur yfir því hvernig er unnið að þessum málum nú á vegum ríkisstjórnarinnar.
    Það hefur komið fram að á undanförnum árum hefur hér verið megináhersla lögð á uppbyggingu stofnana. Það hefur leitt til þess að það skapast þröskuldur í þessu þróunarkerfi þegar búið er að leysa verkefnin tæknilega séð innan stofnananna áður en verkefnin komast til fyrirtækjanna. Þar er þröskuldur. Og þessi þröskuldur hefur örugglega orðið til vegna þess að fyrirtækin hafa lagt til þess að gera lítið í þróunarstarfið. Nú er verið að reyna að eyða þessum þröskuldi með því að örva fyrirtækin til þátttöku í þessu verkefni og það verður haldið áfram á þeim sviðum og þeirri stefnu verður ekki snúið við. Þau skref sem núverandi ríkisstjórn hefur stigið í þessum efnum eru varanleg og það mun engin ríkisstjórn önnur treysta sér til að snúa þessu starfi við vegna þess að þetta er rétt stefna í grundvallaratriðum.