Fréttaflutningur af slysförum

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 13:38:58 (3975)


[13:38]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Till. til þál. um fréttaflutning og upplýsingaskyldu um slysfarir og harmraunir fólks hefur verið hér til umræðu á hinu háa Alþingi tvisvar sinnum áður en hefur ekki verið útrædd í viðkomandi hv. þingnefnd. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að skipa nefnd til þess að móta starfsreglur um fréttaflutning og upplýsingaskyldu stofnana um slysfarir og harmraunir fólks.``
    Í greinargerð með þessari tillögu segir svo m.a.:
    ,,Tilgangur þessarar tillögu er að koma á fót samráðsvettvangi þeirra aðila og stofnana sem næst koma upplýsingamiðlun af slysförum og harmraunum fólks. Mikilvægt er að samræmdar viðmiðunarreglur eða leiðbeiningar geti ríkt við slíkar aðstæður er taki mið af mannhelgi, virðingu og hluttekningu en um leið af nauðsynlegri upplýsingaskyldu svo að ekki verði vegið að fjölmiðlafrelsi í landinu.
    Fréttaflutningur af slysförum og harmraunum fólks er vandmeðfarið og viðkvæmt mál. Íslenskir fjömiðlar hafa í áranna rás leitast við að fjalla um slík mál af tillitssemi og varkárni. Þó má greina þá þróun að ágengni fjölmiðla gagnvart einstaklingum sem hlut eiga að máli, björgunarsveitum að störfum og öðrum viðkomandi aðilum verði æ meiri og óvægnari. Aukin samkeppni fjölmiðla um fréttaöflun af atburðum og málavöxtum getur orðið til þess að misbjóða mannvirðingu og siðrænum gildum. Hér er hvorki verið að leggja til lagasetningu né opinbera reglugerð heldur að þeir aðilar og stofnanir, sem nærri aðstæðum koma, geti sameinast um samræmdar starfsreglur. Þá er einnig mikilvægt að greina betur upplýsingaskyldu viðkomandi stofnana, samtaka og starfsstétta gagnvart fjölmiðlum.
    Í tillögunni er lagt til að dómsmrh. sjái um skipan slíkrar nefndar er lagt gæti grundvöll að samráðsvettvangi og styrkt og eflt gagnkvæman trúnað og skilning viðkomandi aðila og stofnana. Í starfi nefndarinnar er eðlilegt að hafa náið samráð við m.a. eftirtalda aðila: Slysavarna- og björgunarsveitir, Blaðamannafélag Íslands, Félag fréttamanna, Prestafélag Íslands, Lögreglufélag Íslands, Rannsóknastofnun háskólans í siðfræði, Samtökin um sorg og sorgarviðbrögð, Læknafélag Íslands og barnaverndarráð.``
    Hæstv. forseti. Ég held að hér sé um mjög mikilvægt og brýnt mál að ræða. Það er aftur og aftur að koma í ljós að þessi mál virðast vera í allnokkru uppnámi. Samkeppni fjölmiðlanna um það að verða fyrstur með fréttirnar gengur stundum svo langt og virðist verða svo skefjalaus á tíðum að þeir sem síst skyldi, aðstandendur þeirra sem farist hafa eða standa andspænis miklum raunum, gleymast. Frá því að þessi tillaga var fyrst flutt hafa mjög margir komið að máli við mig sem hafa reynt slíkt hlutskipti aðstandenda og líka nokkrir á meðal þeirra sem bjargast hafa úr raunum og lýst stuðningi við þennan málflutning og lagt áherslu á að hér þurfi með öllum ráðum að koma einhverri skipan á. Þó að það ríki samkeppni á milli fjölmiðla, þá kann eigi að síður að geta ríkt á milli þeirra traust og trúnaður þegar svo stendur á og þessi tillaga höfðar einmitt til þess að koma á fót slíku trausti, efla slíkt traust og efla slíkan trúnað.
    Þá er líka önnur hlið á þessu máli sem virðist vera óljós einnig og það er hvað lýtur að upplýsingaskyldu þeirra aðila sem að slysförum og mannraunum fólks koma. Hver á að gefa hvaða upplýsingar og hvenær? Þetta snýr ekki einvörðungu að upplýsingaskyldu þeirra gagnvart fjölmiðlum. Þetta snýr líka að upplýsingaskyldu gagnvart nánustu aðstandendum. Ég þekki allmörg dæmi, því miður, þess efnis að aðstandendur hafa þurft að líða vegna þess að það lá ekki ljóst fyrir hver bar ábyrgð á slíkri upplýsingaskyldu.
    Eins og ég sagði áðan, þá er þetta mjög vandmeðfarið og viðkvæmt. Hér er ekki um mál að ræða sem hægt er að leysa með lögum, þaðan af síður mál sem leyst verður með útgáfu stjórnvaldsreglugerðar. Hér er verið að höfða til þess að hæstv. dómsmrh. taki frumkvæðið, að Alþingi álykti að hæstv. dómsmrh. taki frumkvæðið til þess að kalla þessa aðila alla saman svo samráðsvettvangur megi myndast svo betri skipan megi komast á þessi mál. Það er misskilningur sem fram hefur komið að hér kunni að verða vegið á einhvern hátt að fjölmiðlafrelsi. Það er aldeilis ekki, kannski fremur að verja fjölmiðlafrelsið þannig að það geti ríkt með eðlilegum hætti. Það er ekkert frelsi í fjölmiðlum sem beitt er og bitnar á þeim sem síst skyldi. Það er ekki frelsi vegna þess að það fjötrar þá sem síst skyldi.
    Hæstv. forseti. Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð að sinni. Það hafa farið fram allítarlegar umræður um þetta mál hér á hinu háa Alþingi. Ég hef skilning á því að það þarf nokkurn tíma á hinu háa Alþingi til þess að fjalla um þetta mál. Það hefur tvisvar verið flutt áður og í það hefur verið lögð nokkur vinna í hv. allshn. sem mér er kunnugt um og ég bind miklar vonir til að það megi verða þar aftur á dagskrá og fá niðurstöðu.
    Að svo mæltu legg ég til að að lokinni fyrri umræðu verði tillögunni vísað til hv. allshn.