Staðsetning hæstaréttarhúss

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:19:20 (3981)


[14:19]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég er einn af flm. þessarar þáltill. og vildi aðeins koma hér upp til að leggja áherslu á að þessi áform verði tekin til endurskoðunar. Hér er um mjög merkileg hús að ræða sem eru umhverfis þennan stað og alveg ljóst að þetta nýja fyrirhugaða hús þrengir mjög að þeim húsum sem þarna eru fyrir og þar að auki sé ég ekki að það sé nokkurt rúm fyrir það t.d. að því er varðar bílastæði og annað.
    Ég var á sínum tíma þeirrar skoðunar að það mundi e.t.v. ganga að ráðhúsið væri reist á þeim stað sem raun varð á. Ég verð að viðurkenna það að það voru mistök af minni hálfu þó að ég hafi aldrei lýst yfir þeirri skoðun því að það er svo augljóst í dag að þetta hús er í hrópandi ósamræmi við sitt umhverfi og var mikið slys að þetta annars fallega hús væri reist á þeim stað þar sem það nú stendur, það þrengir að Alþingishúsinu og öllu umhverfi við Tjörnina. Það væri mjög óheppilegt ef nú ætti að endurtaka þá

sögu að reisa hús á þessum stað í mikilli andstöðu við þá sem unna þessu umhverfi best og þekkja best til og vil ég þar vitna í ýmsa sem hafa látið skoðanir sínar í ljós í þessu sambandi.
    Ég tel það jafnframt vera mjög óheppilegt fyrir Hæstarétt að þannig sé staðið að málum því að með því að það skapast deilur um þetta nýja hús þá skapast í reynd óþarfa deilur um stofnunina Hæstarétt Íslands. Það er að mínu mati mjög skaðlegt og það á ekki að vera með þeim hætti að búa til vandamál sem er hægt að komast hjá með því að staðsetja húsnæði Hæstaréttar á öðrum stað. Það er öllum ljóst að Hæstiréttur þarf að fá ný húsakynni og það þarf að standa myndarlega að því þannig að fullur sómi sé að. Það er hins vegar engin ástæða til þess að staðsetja Hæstarétt hér í miðbænum. Það má vel staðsetja þessa mikilvægu og virðulegu stofnun annars staðar og finna henni hæfilegt umhverfi.
    Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð en vil skora á hæstv. ríkisstjórn að fresta þessum áformum og taka þau til endurskoðunar og finna leið sem getur ríkt friður um.