Staðsetning hæstaréttarhúss

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:43:36 (3985)


[14:43]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og fagna þeim einhug sem hér hefur komið fram. Sérstaklega ber að fagna þeirri yfirlýsingu sem forsrh. gaf hér áðan og ég túlka þannig að hann muni beita sér fyrir því að þessari ákvörðun um staðsetningu hússins verði breytt. En ég vil líka vekja alveg sérstaklega athygli á því að tíminn sem við höfum til stefnu er mjög naumur. Það er búið að auglýsa útboð á jarðvinnu og fresturinn til að skila tilboðum rennur út núna 14. febr. þannig að áður en fyrirtæki fara að skila sínum tilboðum og áður en farið verður að taka afstöðu til þeirra verður auðvitað að vera ljóst hvort meiningin er að breyta um staðsetningu þannig að tíminn er mjög naumur og mér skilst reyndar að það sé búið að ákveða hvenær fyrsta skóflustunga verður tekin að húsinu þannig að ég vek sérstaklega athygli á þessu og skora því á hæstv. forsrh. að grípa nú þegar til aðgerða í málinu og taka það upp á réttum stöðum.
    Að lokum, virðulegi forseti. Eins og hér hefur margsinnis komið fram í umræðunni þá höfum við horft upp á of mörg skipulagsslys hér í okkar ágætu höfuðborg og þar er nú eitt síðasta dæmið Borgarleikhúsið, afar sérstök bygging sem því miður hefur verið þrengt allt of mikið að þannig að hún fær ekki að njóta sín. Og eins og ég rakti hér í fyrri ræðu minni, þá gerðist það sama með Þjóðleikhúsið. Leikhús eru í raun sérstakar byggingar og þær þurfa auðvitað rými. Við höfum ekki farið mikið út í umferð og bílastæðamál sem tengjast þessu öllu saman. Við erum að tala um svæði þar sem eru margar opinberar byggingar og mjög margt fólk er við vinnu eða kemur og á erindi í þessar byggingar og staðsetning Hæstaréttarhússins á þessum stað mundi bæði kalla á umferð og gera hana á margan hátt erfiðari. Bílastæðið sem þarna er þjónar öllum þessum byggingum þó að ég hafi lagt til að hinu gamla skipulagi verði fylgt og því breytt í torg og garð eins og fyrirhugað var, en menn hafi þó alla vega tíma til þess að leysa umferðarmálin sem þessu tengjast. Þarna eru að vísu ýmis bílastæðahús í nágrenninu og ég hef ekki handbærar tölur um það hversu vel þau fullnægja þörfinni en mergurinn málsins er þessi, virðulegi forseti: Það virðist vera mjög breið samstaða á hinu háa Alþingi um að skora á ríkisstjórnina að breyta þessari ákvörðun og mínar vonir hafa svo sannarlega glæðst í þessari umræðu um að þessi tillaga nái fram að ganga og það verði horfið frá þeirri hugmynd að reisa nýtt Hæstaréttarhús á lóð Safnahússins.