Málefni aldraðra

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:07:35 (3990)


[15:07]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 260 flyt ég frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Þetta frv. hefur legið fyrir þinginu í nokkra mánuði og gengur út á það að setja inn í lögin um málefni aldraðra ákvæði um að ekki megi selja íbúðir fyrir aldraða og auglýsa öðruvísi en að þær séu fyrir aldraða.
    Það hefur nefnilega verið vandi okkar Reykvíkinga og ekki síst aldraðra Reykvíkinga í seinni tíð að menn hafa verið að reisa hér íbúðir í verulegum mæli, kalla þær og selja sem íbúðir fyrir aldraða en þegar upp er staðið þá eru þær ekkert fyrir aldraða frekar en aðra.
    Frv. er bara tvær greinar. Þar er seinni greinin svona, með leyfi forseta:
    ,,Óheimilt er í auglýsingum, sölumennsku eða kynningu að nota heiti úr lögum þessum yfir þá þjónustu sem ætlunin er að veita nema að fengnu samþykki samstarfsnefndar um málefni aldraðra.``
    Af tilefni þessa máls og umræðunni um það flyt ég þetta frv.
    Sl. sumar birtist skýrsla um málefni aldraðra á vegum hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Rúmlega 76% þeirra íbúða sem komu til athugunar voru byggðar samkvæmt samningi milli framkvæmdaaðila og verktaka. Líklegt má telja að þetta hlutfall sé í samræmi við það sem algengast er á þessum íbúðamarkaði enda eru lóðaúthlutanir sveitarfélaga stundum háðar viðskiptum við ákveðinn verktaka. Flest bendir til að byggingarkostnaður sé lægri í þeim tilvikum þegar útboð

framkvæmda hefur verið látið ráða varðandi val á verktaka.`` --- Kemur okkur ekki á óvart. --- Síðan segir: ,,Athyglisvert er í þessu sambandi, svo dæmi sé tekið, að Reykjavíkurborg hefur við úthlutun lóða sett hömlur á að útboð gætu átt sér stað. Þannig hafa þau félög í Reykjavík sem byggt hafa flestar íbúðir fyrir aldraða, Félag eldri borgara og byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra, búið við þessi skilyrði. Sami byggingaraðili hefur byggt allar íbúðir aldraðra á vegum Félags eldri borgara. Lóðaúthlutanir til félagsins hafa verið skilyrtar því að ákveðið byggingarfyrirtæki annist framkvæmdir og því hefur Félag eldri borgara ekki átt kost á því að leita tilboða eða bjóða út verkin.``
    Hér er sagt í skýrslu frá hæstv. félmrh. núv. ríkisstjórnar að borgin hafi skilyrt lóðaúthlutanir með því að ákveðinn byggingaraðili fengi lóðirnar. Við þekkjum það hér í þessu kjördæmi sem við erum stödd í að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hefur gengið býsna hart fram í því að tryggja þessar lóðir íbúða fyrir aldraða ákveðnum byggingaraðilum. Þar ber að nefna í fyrsta lagi fyrirtækið Ármannsfell og í öðru lagi fyrirtækið Gunnar og Gylfi. Þessi fyrirtæki hafa byggt flestallar þær íbúðir sem hafa verið reistar fyrir aldraða og kallaðar eru fyrir aldraða í Reykjavík á undanförnum árum.
    Þetta er gagnrýnt í skýrslu frá sjálfum núv. hæstv. félmrh. Spurningin er þá sú: Er hæstv. heilbrrh. úr sama stjórnarflokki tilbúinn til að breyta lögunum þannig að það verði bannað að plata gamla fólkið með þeim hætti sem gert hefur verið í Reykjavík skipulega, bannað að plata gamla fólkið? --- Starfandi heilbrrh. stendur út við dyr en sá sem er með bréfið var hins vegar að koma til landsins rétt áðan þannig að það er spurning hvernig þetta stendur nákvæmlega þessa stundina. --- En staðreyndin er sú að það er náttúrlega alveg ofboðslegt til þess að vita hvernig neyðin í húsnæðismálum gamals fólks í Reykjavík hefur verið notuð til að framleiða íbúðir fyrir aldraða í stórum stíl án þess að um væri að ræða sérstaka þjónustu fyrir gamalt fólk eins og kunnugt er.
    Nefnd sem hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir, skipaði á sínum tíma skilaði tillögum í mars 1991 um fimm ára framkvæmdaáætlun í húsnæðismálum aldraðra. Nefndin lagði til að byggðar yrðu rúmlega 2.400 þjónustuíbúðir fyrir aldraða á næstu fimm árum eða tæplega 500 íbúðir á ári. Tillögurnar voru gerðar með það í huga að sem stærstur hluti væntanlegra íbúða yrði fjármagnaður af eigendum. Miðað var við að eldri borgarar þyrftu sem minnst sjálfir að stofna til langtímalána en gætu notað arðinn af sínu lífsstarfi til að tryggja sér öryggi og þjónustu á efri árum. Tillögurnar voru hugsaðar sem rammi til viðmiðunar fyrir félmrn., Húsnæðisstofnun ríkisins og sveitarfélög. Í kjölfarið fylgdi m.a. nokkuð öflugt kynningarátak. Þess ber að geta að þessi skýrsla kom út fyrir síðustu alþingiskosningar.
    Hins vegar virðist það vera svo, eins og áður hefur komið fram, að stjórnvöld hafa hvorki haft eftirlit með né yfirsýn yfir þær framkvæmdir sem á eftir fylgdu samkvæmt þessu átaki. Þannig er t.d. ekki um það deilt að talsverð brögð hafa verið að því að verktakar hafa auglýst til sölu íbúðir fyrir aldraða án þess að þær væru með einum eða öðrum hætti tengdar þjónustu fyrir aldraða. Það eina sem þessar íbúðir hafa hugsanlega haft fram yfir íbúðir á almennum markaði er að þeim fylgir almennt stór og rúmgóð sameign.
    Þegar þetta er haft í huga er sláandi að ein skýrasta niðurstaða starfshóps sem kannaði byggingarkostnað íbúða fyrir aldraða, og ég gat um áðan og birt er sem fskj. með frv. þessu, er að byggingarkostnaður þessara íbúða fyrir aldraða er almennt miklu hærri en þegar um er að ræða byggingu íbúða á hinum almenna markaði. Þá má nefna að við samanburð á byggingarkostnaði íbúða aldraðra annars vegar og félagslegra íbúða hins vegar kemur í ljós að íbúðir aldraðra eru um 35% dýrari að meðaltali þegar miðað er við flatarmál séreignar en 21% dýrari ef miðað er við heildarflatarmál. Hins vegar kemur fram í þessari skýrslu að miðað við stærri sameignir í sambýlishúsum aldraðra megi telja eðlilegt að kostnaður sé um 5% hærri en á venjulegum íbúðum. Fyrir liggur að margir eru í raun að ráðstafa afrakstri ævistarfs síns við kaup á slíku húsnæði og því er átakanlegt til þess að vita að slík íbúðaskipti leiði til aukinna útgjalda án þess að hinum öldruðu sé jafnframt tryggður aðgangur að lágmarksþjónustu.
    Ég ætla ekki í þessari ræðu minni, virðulegi forseti, að dvelja við hinn óeðlilega mikla kostnað sem hér hefur verið nefndur né heldur orsakir hans heldur bendi ég á að frv. er ætlað að tryggja að þegar íbúðir fyrir aldraða eru byggðar þá sé það einungis gert í tengslum við þjónustuhúsnæði fyrir aldraða. Þessi tillaga er í samræmi við eina meginniðurstöðu skýrslu hæstv. félmrh., þ.e. að áður en hafist sé handa um framkvæmdir sé ljóst hvaða þjónusta eigi að vera til staðar fyrir íbúana. Þeir sem hafa fjallað um málefni aldraðra hafa oft orðið fyrir vonbrigðum í þessum efni þegar risið hafa stórhýsi kölluð fyrir aldraða án þess að íbúarnir hafi aðgang að nokkurri sérstakri þjónustu þar. Þannig má nefna dæmi um stórhýsi á horni Lindargötu og Vitastígs hér í borg og við Dalbraut. Fleiri dæmi mætti nefna og hef ég aflað mér um það gagna frá Sveini Ragnarssyni, félagsmálastjóra Reykjavíkur, þar sem farið er rækilega yfir söluíbúðir fyrir aldraða sem svo eru kallaðar í Reykjavík. Þetta er skýrsla frá félagsmálastjóranum upp á allmargra síður þar sem þessar íbúðir eru taldar upp nokkuð nákvæmlega. Þær eru á 11 stöðum í borginni. Við Hjallasel, Vesturgötu 7, Akraland 1--3, Bólstaðarhlíð 41--45, Dalbraut, Aflagranda, Grandaveg, Skúlagötu, Hraunbæ, Hvassaleiti, Efstaleiti, Miðleiti, Hæðargarð, íbúðir við Lindargötu, íbúðir við Sléttuveg, íbúðir við Jökulgrunn, íbúðir við Snorrabraut 56, í Sólvogi, íbúðir við Suðurgötu og íbúðir í Suður-Mjódd á vegum Félags eldri borgara.
    Hér er sem sagt um að ræða geysilega mikla starfsemi og það hefur verið varið hundruðum milljóna króna, hæstv. forseti, í þessi verkefni á undanförnum árum. Gamalt fólk hefur keypt þessar íbúðir í

trausti þess að það fengi í tengslum við íbúðirnar betri þjónustu en ella væri kostur á. Þetta fólk hefur eignast þessar íbúðir með því að selja íbúðir eða hús sem það hefur átt. Það hefur selt íbúðir sínar og í rauninni keypt þessar nýju íbúðir á geysilega háu verði, langt umfram hinn almenna byggingarkostnað eins og hann hefur verið og fram kemur í skýrslu hæstv. félmrh. Gamalt fólk setur sig oft í stórkostlegar skuldir ofan á allt annað til þess að tryggja sér þessar íbúðir og stendur svo frammi fyrir því eftir að það er komið inn að það getur í raun og veru ekki fengið neina sérstaka þjónustu. Og ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, það á ekki að hafa lög landsins þannig úr garði gerð að þau opni smugur til þess að --- ég leyfi mér að segja --- ósvífnir aðilar geti blekkt gamalt fólk inn í húsnæði með þeim hætti sem hér hefur átt sér stað.
    Þess vegna er þetta frv. flutt. Ef það nær fram að ganga þá er mælt fyrir um að í fyrsta lagi verði tryggt að í sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum fyrir aldraða verði völ á fullkominni þjónustu í húsnæðinu sjálfu en ekki einhvers staðar í nágrenni þess. Með því er átt við t.d. vörslu allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð, þjónustu á borð við mat, þvott, þrif og félagsþjónustu. Þá skal vera þar til staðar læknishjálp eða tengsl við læknishjálp, hjúkrun og endurhæfingu.
    Þá verður í öðru lagi, ef þetta frv. verður samþykkt, og það er ekki síður mikilvægt, tryggt að ekki yrði heimilt að auglýsa eða kynna með neinum hætti íbúðir sérstaklega ætlaðar öldruðum nema að fengnu samþykki samstarfsnefndar um málefni aldraðra. Þannig er hér annars vegar verið að hnykkja á því hvaða þjónusta eigi að vera í sjálfseignaríbúðum fyrir aldraða og í öðru lagi á að vera tryggt að verktökum verði gert skylt að leita leyfis samstarfsnefndar um málefni aldraðra áður en þeir auglýsa íbúðir sem íbúðir fyrir aldraða. Með þessum hætti vinnst í raun tvennt: Komið er í veg fyrir að aldraðir séu ginntir til að kaupa venjulegt húsnæði á okurverði undir því yfirskini að það hafi eitthvað fram yfir annað húsnæði og um leið gefst samstarfsnefnd um málefni aldraðra tækifæri til að fylgjast með öllum framkvæmdum á þessum vettvangi og fá þannig heildaryfirsýn yfir þær. Þeir sem vinna að þessum málum hafa talið að slíka yfirsýn hafi skort til þessa.
    Ég hef satt að segja hreyft þessu máli áður í þessari virðulegu stofnun, hæstv. forseti. Það gerði ég á síðasta þingi. Ég nefndi þessa hugmynd í umræðum um málefni aldraðra nokkuð oft við hæstv. þáv. heilbrrh. Sighvat Björgvinsson og hann tók þessum hugmyndum mjög vel. Hann sagðist telja eðlilegt að það yrðu settar reglur í þessum efnum. Ég benti honum þá á að það mætti setja ákvæði um þetta í reglugerð. Það þyrfti í raun og veru ekki sérstök lagaákvæði. Hann viðurkenndi að svo væri og ég taldi að málið væri á ágætum rekspöl. Síðan urðu ráðherraskipti og þegar ég sá síðan listann yfir mál frá heilbrrn. sl. haust sá ég ekki breytingu á lögum um málefni aldraðra. Þá sýndist mér að menn hefðu af einhverjum ástæðum hætt við þetta, gleymt því eða af einhverjum öðrum ástæðum ákveðið að flytja ekki frv. um málið og þess vegna ákvað ég að flytja þetta mál með þeim hætti sem ég hef hér gert. Ég vona, hæstv. forseti, að allir þingmenn viðurkenni að hér er um almennt sanngirnismál að ræða og við eigum að búa lög landsins þannig úr garði að menn geti ekki leikið sér að því að blekkja gamalt fólk þegar það er að reyna að uppfylla jafnfrumstæðar þarfir og þær að hafa þak yfir höfuðið á síðustu æviárum sínum.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.