Málefni aldraðra

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:39:54 (3995)


[15:39]

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta mál, bæði eindregin stuðning sem fram hefur komið í ræðum þeirra hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 10. þm. Reykv. og einnig enn þá ítarlegri rök fyrir nauðsyn málsins sem þau hafa bæði bætt við með ágætum og fróðlegum ræðum sínum.
    Ég geri ráð fyrir því að hér sé um að ræða það sem kalla megi almennt sanngirnismál og ég reikna með því að í rauninni geti flestir eða allir fallist á þau sjónarmið sem hér eru flutt fram í þessu frv. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeim vanda að það er ekki siður hér í þessari stofnun af einhverjum ástæðum að taka mikið mark á því sem kemur frá stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Ég verð þó að segja alveg eins og er að ég leyfi mér að gera mér þær vonir að menn taki á þessu frv. af fullri alvöru. Ekki síst með hliðsjón af því að hér eru í salnum fulltrúar úr hv. heilbrn., stjórnarmeirihlutanum þar, þar sem a.m.k. tveir eru þingmenn Reykv. Þar á ég við hv. 13. þm. Reykv. og hv. 16. þm. Reykv., sem þekkir reyndar alveg sérstaklega vel til þessara mála aldraðra og betur heldur en við mörg önnur í þessum sal. Og ég vil eindregið fara fram á það við þau --- og einnig á sæti í hv. heilbrn. hv. 10. þm. Reykv., að þetta frv. verði mjög alvarlega skoðað og samþykkt. Þetta er einfalt mál í raun og veru. Það á ekki að þurfa að mylja það mikið með sér, það á ekki að þurfa að vera að senda þetta til umsagnar út um allt þjóðfélagið. Mál af þessum toga er með þeim hætti að þetta er augljóst sanngirnismál. Ég er þá ekkert að tala um að málið sé kannski nákvæmlega eins, en í grófum dráttum sé það þannig að það verði loku fyrir það skotið að vandi gamals fólks verði féþúfa byggingarfyrirtækja svo sem verið hefur. Það er rangt sem kom fram hér í þessari umræðu að það sé hæstv. félmrh. sem í sjálfu sér beri ábyrgð á þessum málaflokki, það er í raun og veru hæstv. heilbrrh. Það er ástæða til þess að þakka hæstv. félmrh. fyrir þá skýrslu sem fylgir með þessu frv. sem fylgiskjal því þar er farið mjög rækilega yfir málin og skýrslan er í raun og veru að nokkru leyti stuðningur við þau sjónarmið sem fram koma í frv. og ýtti við mér að setja þetta frv. saman þrátt fyrir ágætar undirtektir þáv. hæstv. heilbrrh. á síðasta þingi. En það er heilbrrn. sem hefur með málið að gera og þess vegna ítreka ég nausyn þess að hv. heilbr.- og trn. afgreiði málið núna í vetur. Það er alveg ástæðulaust að hafa þetta svona stundinni lengur, þetta hefur verið tóm vitleysa. Þannig að ég þakka þær ágætu undirtektir sem hér hafa komið fram, hæstv. forseti.