Málefni aldraðra

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 15:50:43 (3997)


[15:50]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir þátttökuna í þessum umræðum og þær ábendingar sem hann kom fram með. Ég hef í raun ekkert við þær að athuga nema að það hefur komið fram að lóðaúthlutanir til félagsins Samtaka aldraðra hafa verið skilyrtar því að ákveðið byggingarfyrirtæki annaðist framkvæmdir. Þetta liggur fyrir. Ekki aðeins í þessari skýrslu hæstv. félmrh. heldur hefur þetta komið fram í opinberum gögnum frá borgarstjórn Reykjavíkur. Þannig að það er alveg augljóst mál að því miður hafa verið þarna tiltekin tengsl á milli byggingarfyrirtækjanna og þeirra sem hafa vald á lóðaúthlutuninni, þ.e. borgarstjórn Reykjavíkur og það er ekki gott.
    Það er líka rétt sem hv. þm. sagði að í meginatriðum hafa þessar íbúðir tekist vel og í megintriðum er það auðvitað þannig að meðan fólkið hefur heilsu og þarf ekki mikla þjónustu þá henta þessar íbúðir ágætlega. Staðreyndin er hins vegar sú að margt af þessu fólki hefur reiknað með meiri þjónustu en er veitt í tengslum við íbúðirnar og fólkið telur margt að það hafi verið blekkt. Og hvort sem það er rétt eða ekki þá upplifir þetta fólk það þannig að það hafi verið blekkt. Ég held að við eigum að búa þannig um hnútana að það sé ekki hægt að blekkja þetta fólk. Það er hægt að gera það með því að breyta lögum eða reglugerðum um málefni aldraðra. Ég fagna því út af fyrir sig að lögin eru til meðferðar eða frv. um breytingu á þeim í hv. heilbrn. og þá er upplagt að taka þetta mál í leiðinni því ég held að það viðurkenni það allir að hér er um almennt sanngirnismál að ræða.