Slysavarnaráð

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 16:05:28 (3999)


[16:05]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég efast ekki um góðan tilgang hv. 1. flm. og raunar allra þeirra hv. þm. sem standa að þessu frv. Það eru nokkrar spurningar sem mig langaði til að varpa fram til hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur.
    Það kemur fram hér í greinargerð og reyndar líka í ræðu þingmannsins að nú þegar eru í gildi reglur sem þáv. heilbrrh. Guðmundur Bjarnason setti 1991 um sérstakt slysavarnaráð. Ég velti því þá fyrir mér, ef slíkt ráð er þegar starfandi, hvers vegna þurfi að setja um það sérstök lög. Ég spyr vegna þess að ég tel að þingmenn og reyndar ráðherrar líka eigi að fara sér afar hóflega í því að láta samþykkja frv. til laga nema það sé afskaplega brýnt.
    Þegar ég les þetta frv. þá kemur fram að það virðist hafa eina þungamiðju. Hún felst í því að það er nauðsynlegt að koma á samræmdri slysaskráningu. Ég skil vel að það sé mjög nauðsynleg undirstaða til að hægt sé að finna hvar skórinn kreppir og hvar menn eigi að beita forvörnum. Þá kemur sú spurning upp í hugann hvort það sem í rauninni þurfi sé ekki bara fjárveiting til þessa liðar. Er það svo að það sé nauðsynlegt að samþykkja sérstök lög um þetta ákveðna slysavarnaráð? Er ekki einungis nauðsynlegt að afla fjár til að hægt sé að koma á þessari samræmdu slysaskráningu? Nú þegar er slysaskráning við lýði hjá ýmsum félagasamtökum og ég geri ráð fyrir því að flutningsmenn ætlist til þess að það sé þessi skráning sem er þegar í gildi sem verði samræmd og gerð tölvutæk til að þessar heildarupplýsingar liggi fyrir. En ég spyr sem sagt: Er það í rauninni nokkuð annað sem þarf heldur en það eitt að afla fjár til þess og er

þá þörf á svona frv.?
    Ég tek það fram, virðulegi forseti, að ég er ekki að lýsa andstöðu við þetta frv. Mig langaði einungis að fá svör við þessum spurningum. Svo tek ég eftir því að í slysavarnaráði er gert ráð fyrir tilteknum fulltrúum, m.a. fulltrúa læknadeildar Háskóla Íslands, en í greinargerðinni er nánast sagt að þessi fulltrúi skuli vera forstöðulæknir slysadeildar Borgarspítalans hverju sinni. Því er það þá ekki tekið beint inn í frv. sjálft?